28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson :

»Hægt í logni hreyfir sig

sú hin kalda undiralda.

Ver því ávalt var um þig«.

Þessi orð skáldsins flugu mjer í hug, þegar jeg átti mjer einskis ills von og háttv. framsm. (P. J.) skall yfir mig sem stormbylur, með skammaryrðum. Jeg er þess ómáttugur að svara nú þegar sem skyldi ýmsum árásum hans, en mun reka í hann hnífilinn við og við á leiðinni í gegn um brtt. mínar.

Jeg skal fyrst minnast á þessa nýju sparnaðarnefnd, samspyrðu fjárlaganefndar og strandferðanefndar. Þaðan var mikillar speki að vænta, enda hafa vonirnar ekki brugðist. Þetta spyrðuband heldur fram einni tegund sparnaðar, sem jeg verð að efast mikillega um, að holl sje. Það er sparnaðurinn í fjárveitingunni til innfjarðabáta. Jeg hygg, að rjettara hefði verið að spara á öðrum lið, styrkja þessa báta meira en strandferðirnar minna, því að þessi sparnaður nefndanna bitnar aðallega eða eingöngu á fátækri alþýðu, er býr afskekt og verður að borga hærra flutningsgjald. En sparnaðurinn á strandferðunum bitnar jafnt á öllum. Það er óþarfi að láta dýr skip vera að koma á þessa staði, sjaldnar en þörf er á, en oftar en svo, að það geti borgað sig: Þetta álít jeg illa til fundið; það væri öllum hlutaðeigendum betra að styrkja flóabátana. meir á þessum stöðvum. Nefndirnar hafa nú lagst báðar á eitt, að níðast á Breiðafirði. Jeg hafði raunar vænst þess, að nefndirnar vissu það, að það hagar öðruvísi til á þessum firði en öðrum. En það lítur ekki út fyrir, að þær hafi haft hugmynd um það. Jeg skal þá fræða nefndarmenn um það, að við það að fara inn á Hvammsfjörð og Gilsfjörð tefjast strandferðaskipin um 3–5 daga, en ferðirnar koma samt ekki að hálfu gagni. En jeg býst við því, að sæti nefndin í mörg ár á rökstólum — líklega þyrftu þau samt að vera nokkuð mörg, — þá mundi hún komast að þeirri niðurstöðu, að Breiðfirðingar eigi sama rjett til að fá styrk til aðdrátta og önnur hjeruð landsins. Strandferðanefndin mun segja, að áætlaðar sjeu 6 ferðir á Hvammsfjörð og 3 á Gilsfjörð. En það er ekki nema hálft gagn að sumum þessara ferða, Við skulum gefa eftir 4 ferðir á Hvamms. fjörð og 1 á Gilsfjörð, svo að þá upphæð mætti spara, er til þeirra færi, ef hækkað væri við Breiðafjarðarbátinn eins og því næmi. Vörurnar, sem fluttar eru til þessara hjeraða, nema árlega 200 þús. kr. Báturinn, sem til þessa hefir verið notaður um þessar slóðir, hefir reynst alt of lítill fyrir flutningaþörfina. Hann hefir verið styrktur með 9000 kr., og hefir þó aðallega ein verslun haft mest hlunnindi af honum. Nú á að breyta þessu fyrirkomulagi; Breiðfirðingar ætla að fá sjer bát sjálfir í líkingu við Faxaflóabátinn. Sá bátur er ætlast til að fari milli hafna sunnanvert við Jökul, á Breiðafirði og alt til Patreksfjarðar. Þetta er ekki lítil vegalengd. Það er ekki víst, að þessi bátur hafi alt af nægan farm, og verði styrkurinn ekki hækkaður, þá kemur það niður á fátækri alþýðu, sem verður að greiða hærri flutningagjöld, því að fyrirtækið má ekki farast fyrir.

Jeg vona nú, að háttv. þm. hafi skilist þetta, og þeir greiði atkvæði með því, að styrkurinn verði hækkaður.

Þá hefir nefndin tekið upp nýja siði í þessu máli. Hún vill veita sýslunum, sem bak við fyrirtækið standa, lán í þessu skyni en setur samt sem skilyrði fyrir lánveitingunni, að lagt verði fram hlutafje, sem nemi ákveðinni upphæð. Þetta hefir ekki verið gjört áður. Þetta á víst að vera gjört til þess að tryggja það, að landssjóður bíði ekki halla af lánveitingunni. En jeg get ekki sjeð, að það verði neitt tryggara heldur en þó ekkert hlutafje væri, þar sem tvö eða þrjú öflug sýslufjelög standa að baki fyrirtækinu. Líka virðist hlutafjeð vera sett of hátt; væri skaplegra að hafa það 40%, og mundu menn líklega ganga að því. Jeg er viss um það, að Breiðfirðingar kunna að meta það rjettilega, hve trúverðugir þeir eru álitnir. Jeg veit ekki betur, en að þetta sje eitthvert hið besta bygðarlag landsins og ætti því að ganga tregðulaust að fá styrk til svona fyrirtækis, sjerstaklega þar sem það er auðsætt, að við það getur Eimskipafjelagið sparað 3–4 ferðir á ári inn á Hvammsfjörð. Mjer þykir það ólíklegt, og trúi því ekki, að háttv. þm. láti kappgirni gegn mjer bitna á Breiðfirðingum.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða meira um þetta, þar sem háttv. þm. Snæf. (S. (G.) hefir þegar talað um það. Jeg vona, að okkar tillaga verði samþykt, en ekki tillaga nefndarinnar, enda býst jeg við því, að hún haldi ekki eins fast við hana nú og áður.

Þá skal jeg snúa mjer að öðrum brtt. Jeg hefi komið fram með brtt. um það, að styrkurinn til Miklavatnsmýraráveitunnar sje feldur burtu. Jeg lít svo á, að þetta fyrirtæki sje svo hæpið, að ekki sje út í það leggjandi að eyða meira fje til þess. Raunar bætir viðbót nefndarinnar nokkuð úr gjörir það að verkum, að fjeð verði ekki veitt, nema vissa sje fengin fyrir því, að það komi að notum. En jeg get sagt mjer það sjálfur, að á þann hátt kemur aldrei til fjárveitingarinnar, svo að jeg álít eins rjett að fella hana í burtu, til þess að hún standi ekki eins og þyrnir í augum sparnaðarmannanna á pappírnum.

Þá er tillaga um það, að veita 5000 kr. styrk til Dana til þess að gjöra landmælingar hjer. Mjer er ekki kunnugt um, að við höfum nokkurn tíma beðið Dani um þetta. Jeg álít það nægilega tillátssemi af nokkur að leyfa þeim það, þótt við förum ekki að borga þeim drykkjupeninga að auki. Það álít jeg meiri hæversku en dæmi sje til. Jeg tel okkur gjörða óvirðingu með þessu, að önnur þjóð fari að gjöra slíkt óbeðið, og við að taka á móti því. Jeg vil því leggja það til, að þessi upphæð sje spöruð og liðurinn feldur.

Þá er farið fram á það, að veittar sjeu 600 kr. til þess, að Ísland geti haldið áfram að vera í Bernarsambandinu. Jeg skal geta þess, að mjer hepnaðist að drepa þessa tillögu í fyrsta sinn, sem hún kom inn á þingið. En á næsta þingi var hún samþykt. Við sköðumst um mörg þúsund á því að vera í þessu sambandi, en græðum á hinn bóginn að engu leyti á því, því að það er okkur bæði til gagns og sóma, ef erlendir rithöfunnar vilja þýða ókeypis íslensk rit og gjöra þau þannig kunn í öðrum löndum. Og jeg veit, að vinir Íslendinga erlendis, leggja þetta venjulega á sig fyrir ekki neitt. Hvernig færi nú, ef þeir þurfa að borga fyrir þýðingarleyfið? Hvað margar bækur ætli yrðu þá þýddar? Mjer virðist þessi tillaga háttv. nefndar vera í ósamræmi við það, að hún vill borga manni fyrir það að þýða smáritgjörð á dönsku. Ef hún vildi vera sjálfri sjer samkvæm, þá ætti hún ekki að gjöra leik að því, að leggja stein í götu þeirra manna, er vilja koma íslenskum bókmentum á erlendar tungur. Með þessari tillögu sinni gefur nefndin sjálfri sjer mikið betur utan undir en jeg hefði nokkurn tíma getað gjört. Fyrir okkur, sem höfum verið að þýða útlendar bækur, gjörir það líklega hvorki til nje frá, hvort Íslendingar eru í Bernarsambandinu eða ekki. En það er önnur stofnun hjer, sem jeg veit að hv. framsögum. (P. J.) er vel við, sem bíður mikinn baga af því. Það er leikhúsið okkar. Það þarf á góðum leikritum að halda, og er ekki lítið í það varið, að geta gengið í heimsbókmentirnar og vinsað úr þeim eftir eigin geðþótta. En það er mjög hæpið, að leikhúsið fái hjer eftir að leika útlend leikrit endurgjaldslaust, því að menn geta ekki sett sig inn í það, hve fáment hjer er, og að leikhúsið geti ekki borgað fyrir þau leikrit, er það sýnir. En ef það á bæði að borga þýðendum og höfundum, þá verður það að leggja árar í bát, eða sýna eitthvert útþvætt ljettmeti, eins og »Æfintýri á gönguför« eða þess konar. Og þessi skaði er svo mikilfenglegur, að hann vinnur fullkomlega upp það smátjón, er einstaka höfundur kann að verða fyrir af því, að við erum ekki í Bernarsambandinu. Það mundi borga sig mikið betur fyrir landið, að bæta þessum fáu mönnum upp tjónið, en greiða ekkert til Bernarsambandsins og hefta með því bókmentastrauminn til landsins.

Það getur verið, að einhver svari mjer og segi, að þetta sje hvöt fyrir íslenska höfunda til að herða sig og skrifa meira og betur. En jeg segi nei. Þetta verður til þess, að ýta undir það, að danskir eldhúsrómanar flytjist inn og verði seldir hjer í vættatali. En hafi háttv. þingmenn þau afskifti af þessu máli, sem þeir vilja; jeg þvæ mínar höndur. Jeg þarf ekki að knýja menn framar til sparnaðarins en þeir vilja sjálfir.

En þar sem háttv. framsögum. (P. J.) leyfir sjer að segja, að jeg heimti meira með tillögum mínum en jeg vil spara, þá get jeg rekið það ofan í hann með tölunum sjálfum. Fjárbeiðslur, sem jeg hefi uppi nú, eru 700 kr. til fornmenjavarðar og 600 kr. til manns, til þess að semja setningafræði. Þetta nemur 1300 kr. á ári eða 2600 kr. um fjárhagstímabilið. En tillögur mínar til sparnaðar nema alls 24200 kr., eða nærfelt 10 sinnum meira en fjárbeiðnirnar. Þar með er þetta rekið ofan í háttv. framsögum. (P. J.) með órækum tölum, svo að honum tjóar ekki að kveinka sjer.

Jeg er ekki að lasta fjárlaganefnd, þótt hún spari, en jafnan eru tvær hliðar á fjárhagnum, og á það er að líta, hvort meiri gróði sje að láta gjald af hendi eða láta það ógoldið. Sumt er sannarlega ekki gróði að spara. Og á þetta er að líta, en ekki töludálka fjárlaganna. En um styrjöldina og afleiðingar hennar fyrir fjárhag landsins er

það að segja, að gagnalaust er að klípa 200–300 kr. af einstökum liðum, því að þetta nemur samtala ekki nema að eins 20–30 þús. kr., og hvað munar landsjóð um það? Nei, hitt er ráðið, að hafa tekjuáætlunina varlega, eins og vant er, og veita stjórninni heimild til þess að stöðva útgjöld, ef hún telur þess þörf, og þá upphæðir, sem um munar; símar og vitar eru ekki nægir. Sú athugasemd, sem sett hefir verið um þá, á alveg eina við um vegina, og til þess hefi jeg lagt. Upphæðin, sem þannig kynni að stöðvast, nemur 168 þús. kr. fyrir fjárhagstímabilið, og er það ekki alllítið í ofanálag við heimildina um síma og vita. Þessa aðferð tel jeg viturlega, og vona að menn hallist þar að. Jeg bið menn vel að gá að því, að ekki er til þess ætlast, að vegagjörðir sjeu stöðvaðar, heldur að eins að veita stjórninni heimild til þess í bili. Með þessu móti fæst nokkurt fje, að taka eitthvað, sem um munar, en ekki með því að spara einhverjar nurlupphæðir.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hefir mælt fram með brtt. á þgskj. 607, svo að jeg þarf ekki að leggja henni orð. Jeg tel það sjálfsagt, að sundkennararnir fái þetta fje og er það hið allra minsta, sem hægt er að bjóða þeim, tveim mönnum, enda þeim sett það skilyrði, að kenna björgunarsund kennaraefnum landsins, sem sjálfsagt verður gjört að skyldu að læra það, og má þá búast við, að þessi litla upphæð verði til að bjarga mörgum mannslífum.

Þá sný jeg mjer að tillögu, sem jeg hefi flutt, um það, að veita Matthíasi Þórðarsyni þjóðmenjaverði 700 kr. viðbót við laun hans, sem eru 1800 kr. Þetta er í samræmi við það, að skjalavörðurinn er hækkaður upp í 3000 kr. Þessi maður hefir mikið að gjöra og hefir gjört verk sin vel, betur miklu en fyrirrennarar hans. En almenningi mun vera ókunnugt um þetta, og því tek jeg það fram. Enda segir það sig sjálft, að engin sanngirni er í því, að launa þetta starf með 1800 kr.

Þá er tillaga á þgskj. 598, um að veita Jakobi Jóhannessyni 600 króna styrk á ári til að semja íslenska setningafræði. Jeg þykist vita, að öllum muni það ljóst, að vert er að leggja sjerstaka áherslu á alla íslenska fræði, sem sorglega hefir verið vanrækt, bæði á dögum feðra vorra og sjálfra vor. Jeg ætla ekki að halda langa ræðu, en að eins minna þá háttv. þingmenn, sem skólagengnir eru, á það, hve raunalega lega lítið var stutt að Íslensku, Íslandssögu og íslenskum fræðum, yfirleitt alt fram að því að vjer urðum stúdentar eða kandídatar að minsta kosti. Það er raunalegt, að engin íslensk málfræði skuli vera til á íslensku eftir Íslending. Það má kalla, að skörin hafi færst upp í bekkinn, þegar þessi mentaþjóð svo kölluð á enga málfræði á eiginni tungu, jafnvel ekki beygingarfræði, þegar kennarar enn í dag standa á því fastara en fótunum, að í Íslensku sje að eins til fjögur föll og telja locativus dativus. Það er svo langt frá því, að þetta sje sæmilegt, að ef vel ætti að vera, þyrfti þegar á þessu ári að semja kenslubók um þetta. En sem stendur getur enginn samið svo fljótt setningafræði. Sá er nú dáinn, sem jeg vissi fróðastan um þau efni, en það var Jón rektor Þorkelsson, og nú of seint að nota hana þekkingu. En þar á móti er nægur tími til þess að nota þekkingu og áhuga þess hins unga manns, sem jeg ber nú fram á bænarörmum við þingið. Í rauninni er þá hjer ekki um bón að ræða, heldur er það góðgjörð við landið, er maðurinn vill leggja á sig þetta verk við svo litlum styrk, því að verkið er miklu meira virði en styrkurinn.

Í íslenskri setningafræði eru ekki til nema tvö rit, svo að jeg viti, annað gamalt eftir. Lund, danskan mann, stórgallað, og því ekki hafandi til kenslu í Íslensku, enda er það á Dönsku. Hitt er nýtt, eða svo til, eftir Nygaard, norskan mann; sú bók er miklu betri, en alt of stór til kenslu, enda framar að telja samsafn af dæmum, heldur en kenslubók, svo að úr henni þarf nánar að vinna. En setningafræði á Íslensku vantar handa öllum skólum upp í Háskóla. Það segir sig sjálft, að tvö ár nægja ekki til undirbúninga undir þetta verk, og þarf því að veita styrkinn áfram, eftir því sem þörf segir til. Og svo að jeg fari í samanburð, þá verð jeg að segja það, að miklu liggur nær að veita þennan styrk en styrk til orðabókar, sem nú er og hefir verið í fjárlögunum. Þetta segi jeg ekki af því, að jeg vilji amast við þeim manni, sem nýtur þessa atyrks, heldur af því, að jeg tel starfið ofvaxið hverjum einum manni, en þótt frækinn væri, og mundi jafnvel ekki af veita 5–6 mönnum. Þetta tók jeg fram, þegar til orða kom hjer fyrst að veita þenna orðabókarstyrk. Þessi setningafræði er þar á móti hæfilegt verkefni fyrir ungan mann, sem halda vill áfram námi sínu, en ekki lenda í matarargi og missa bestu ár ævi sinnar í arðlausa tímakenslu. Fyrir slíkan mann er þetta góður styrkur, þótt lítill sje.

Mönnum mun þá vera ljós nauðsyn landsins. En um manninn er það að sega, að hann er gáfaður, iðjusamur og fátækur, svo að fram sjeu taldir allir þeir mannkostir, sem þarf til þess að njóta styrks hjerlendis. Jeg tel fátæktina til mannkosta hjer á Íslandi, og get jafnframt sagt mönnum það, að hvorki jeg nje, nokkur maður annar, sem við bókmentaleg störf fæst hjer á Íslandi, mundi hafa skap til þess, að þiggja einn eyri af landafje, ef vjer værum ekki til neyddir, sultarins vegna. Og ef minn fjárhagur breyttist til muna, þá mundu menn ekki þurfa að telja bitana ofan í grískudocentinn svo kallaða.

Að svo mæltu fel jeg þessa brtt, mína góðvild háttv. deildar.

Þá verður fyrir mjer tillaga háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) um nefndarskipun til að úthluta styrk til skálda og listamanna. Að þessari tillögu hallast jeg helst. Jeg hefi á undanförnum þingum oft verið sárleiður á því, að þurfa að þrátta um hæfileika og mannkosti, og jafnvel sóma manna, er boðið hafa landinu þjónustu sína. Hefir mjer bæði leiðst að þurfa að halda uppi vörnum fyrir þá, og eins hitt, að heyra árásir á þá varnarlausa og saklausa; menn, sem ekki hafa farið fram á annað en að leggja alla krafta sína í sölurnar fyrir land sitt, gegn því að verða styrktir í því, að auka þroska sinn og mentun. Því að það vita allir, að þessir menn ofurselja sig sultinum og hafa ekki annað upp úr sinni fræðigrein eða list en andlegan þroska í því, sem þeir hafa löngun til að stunda. Því er það, að á undanförnum þingum hefi jeg hallast að því, að stjórninni væri falið að veita styrk þenna. Þetta hefir nú verið tekið upp í fjárlagafrumvarp stjórnarinnar, en ekki er það eins vel ráðið og að hafa nefnd til að veita styrkinn. Bæði er, að þetta er ábyrgðarmikið fyrir stjórnina, og eins getur þetta fyrirkomulag leitt til nýrra ásókna á mentamenn og lista, svo að þegar bitlingabrigslun. um linnir, taki við stjórnarsleikjubrigsl. Því líst mjer vel á þessa tillögu um nefnd til að útbýta styrknum, og tel þar með fengna talsverða tryggingu fyrir því, að rjett verði úthlutað.

Í samræmi við þetta er það, að jeg hefi ekki borið fram tillögu um námastyrk til Kjarvals málara, sem að dómi listamanna þykir fara sjerstaklega vel

með liti og hugmyndir. Hann er maður stórhuga í listinni, en er enn að læra og á þroskaskeiði; en hefir ótvíræða gáfu, sem óhætt er að styrkja. Enn vantar hann styrk í 1–2 ár, til þess að ljúka námi. Hann hefir sjerstaklega huga á því, að mála myndir úr íslenskri sögu og þjóðsögu. Þetta er að skoða sem meðmæli til stjórnarinnar og ráðuneytis hennar um styrk til handa þessum manni. Slíkt hið sama vil jeg leggja meðmæli mín með öðrum ungum manni, Brynjólfi Þórðarsyni, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) leggur til að styrkja. Jeg segi það mitt álit á þessum manni, að hann er sjaldgæfilega efnilegur maður, og vænti jeg, að stjórnin muni eftir honum, þegar kemur að úthlutun.

Úr því að háttv. framsögum. (P. J.) er hjer nærstaddur, nota jeg tækifærið til að lýsa undran minni á því, hvernig háttv. framsögum. tók í styrkveitingu til Benedikts Þorkelssonar. Mjer koma þau orð mjög á óvart, því að mjer er sagt, að maðurinn hafi lengi lagt stund á kenslu, en sje nú gamall og hrumur, en vilji ekki komast á sveit, og er von, að gömlum kennara þyki ilt sveitarlima brennimarkið. En þótt það sje fátækrastyrkur, sem Alþingi úthlutar, þá getur verið sómasamlegt að þiggja þann styrk; að minsta kosti þykir embættismönnum svo, þeim er eftirlaun fá, er engin skyldu vera. Fjárlaganefnd hefir með rjettu lagt það til, að öðrum kennara sje veittur 800 kr. styrkur, meðan hann er veikur; hann er einn af þeim fáu mönnum, sem Alþingi hefir farist vel við, og er það algjörlega mjer að skapi, en þá því síður ætti að sjá eftir þessum fáu krónum handa manni, sem ella mundi missa mannrjettindi sín, því að, sem miður fór, komst það ákvæði inn í nýju stjórnarskrána, að mannrjettindin eru minna verð en horkindarstyrkur.

Þá vík jeg að tillögu minni um styrkveiting til Einars Jónssonar. Ef tillögur þingmanna um að setja nöfn manna inn í fjárlögin ná fram að ganga, þá má það aldrei sjást í fjárlögum, að Einari sje boðnar 1500 kr., því síður sem ekkert fje er nú í fjárlögum ætlað til þess að kaupa verk hans. Hann verður að minsta kosti að fá svo mikið, að hann geti haldið áfram meðan stríðið er, og ólíklegt er að keypt verði af honum, og má skoða þetta sem hallærisráðstöfun.

Að niðurlagi skal jeg geta þess, að jeg tel það blett á Alþingi í hvert skifti, sem jeg heyri minst á bitlinga, sníkjur og öll hin illu nöfn, sem heyra má á þingi og utan þings, manna á milli. Því að hvað vakir fyrir þeim, sem sækja um styrki? Þótt gengið sje gegn um allar bænarskrár til þingsins, þá er varla ein einasta, sem ekki mundi verða sint; og ætti það líka skilið, ef fjárhagurinn leyfði. En þeir, sem eru svo hepnir að verða fyrir áheyrn þingsins, eiga þeir það skilið, að vera kallaðir betlarar? Nei, jeg verð að segja, að þeir sjeu mestir höfðingjar þessa lands; þeirra gjafir eru allar höfðinglegastar, því að þeir fórnfæra sjálfum sjer þegar frá æsku fyrir fagrar hugsjónir, og ofurselja sig fátækt og mörgu illu, til þess að halda uppi sóma þjóðar sinnar. Nei, það er sannarleg þjóðarsmán, að þetta nafn skuli hafa komist á, og skömm ef menn leyfa sjer að bera í munni eftirtölur á þessum litla styrk, sem veitur er í slíku skyni. Því ef nokkrir menn á Íslandi geta þolað samanburð við þá menn, er nú ganga fram á vígvöllinn og falla þar í valinn fyrir fósturjörðina, þá eru það íslenskir vísinda- og listamenn. Því að þeir leggja orku sína, vonir sínar og líf sitt í sölurnar gegn litlu fje, háði, hrakyrðum og bríxlyrðum frá golþorskum og ýsuhausum.