28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Eins og háttv. deild er kunnugt orðið, þá var tekjuhallinn við 2. umr. orðinn 300,000 kr. Nú hefir mjer talist svo til, að brtt. þær, sem fram hafa komið síðan, hafi aukið hann um 70,000 kr. Jeg álít alls ekki rjett að auka tekjuhallann, og jeg skal taka það fram í því sambandi, út af því, sem jeg hefi heyrt utan að mjer, að jeg hefi alla ekki stutt að tekjuhallanum með því að greiða Jökulsárbrúnni atkvæði mitt. Hún verður sem sje ekki bygð, ef landið kemst í peningavandræði.

Jeg á brtt. á þgskj. 591, sem fer fram á, að 14000 kr. til Langadalsvegarins sjeu feldar í burtu. Nú sje jeg, að fjárlaganefndin stingur upp á því, að 7000 kr. sjeu feldar burtu annað árið. Jeg get vel verið þessu samþykkur og tek þá mína brtt. aftur.

Jeg skal svo leyfa mjer að minnast á örfáar brtt.

Ein þeirra fer fram á, að veittar sjeu, sjeu 5000 kr. hvort ár, eða 10;000 kr. alla, til eftirlits með bannlögunum. Jeg sæi alls ekki eftir þessu fje, ef jeg hjeldi að það mundi koma að notum, svo að áfengisflutningur í landið stöðvaðist, því mjer sem öðrum lögreglustjórum er það áhugamál, að landslögum sje fylgt. (Jón Magnússon: Heyr!). En jeg álít þessa fjárveitingu svo litla, að hún muni ekki koma að notum. Jeg vil ekki kasta þessum 10,000 kr. í sjóinn. Háttv. meiri hluti bannlaganefndarinnar hefir ekki gert neina grein fyrir því, hvernig hann hefir hugsað sjer að þessu fje skuli varið. Jeg skal nú gjöra grein fyrir því, að þetta getur ekki komið að neinum verulegum notum. Árið 1910 komu samkvæmt skýrslunum 1651 skip til landsins. Jeg bið menn að athuga, að þau 5 ár; sem sían eru liðin, hefir skipunum fjölgað að mun. Samkvæmt þessu væri hægt að verja liðlega 3 kr. til þess að passa upp á hvert skip, sem til landsins .kemur frá útlöndum. En nú verður vel að gá að því, að það er eins mikil þörf á að athuga þau skip, er ganga í innanlandssiglingum, eins og útlend skip. Ef það væri nú gjört, þá kæmu ekki nema nokkrir aurar á hvert skip. En eigi eftirlitið að koma að nokkru gagni, þá þarf að vera maður um borð í hverju skipi, bæði millilandaskipum og fiskiskipunum okkar, sjerstaklega trollurunum. Ef við hefðum ráð á því, þá væri vel farið. En jeg býst við, að til þess þyrftum við fje, er skifti tugum þúsunda króna.

Þá er enn einn liður, sem mjer kom mjög einkennilega fyrir að sjá í fjárlögunum, og hann er frá fjárlaganefndinni. Hann fer fram á að veita Aage Meyer Benedictsen 500 kr. til að gefa út á dönsku fánaritgjörð Guðmundar Björnsonar landlæknis. Það er margt skrítið, sem kemur fyrir á þessu þingi. Það væri nógu fróðlegt, að fá að vita það hjá nefndinni, hvera vegna hún vill gjöra ráðstafanir til þess að þýða þessa ritgjörð á dönsku. (Pjetur Jónsson : Það er búið að þýða hana). Jeg hjelt, að það hefði ekki verið tilgangur nefndarinnar, að þýða hana — á það mál, sem fæstir töluðu. Það hefði þá alveg eina eða öllu fremur átt að þýða ritgjörðina á færeysku. (Sveinn Björnsson: Eða hottentottisku). Já, eða þá það. En í alvöru talað hefði verið miklu nær að þýða þessa ritgjörð á ensku eða frönsku. Jeg sje ekki, að Alþingi hafi ástæðu til að taka íslenskar ritsmíðar og snúa þeim á dönsku í þeirri von, að einhver Dani ljeti svo lítið að lesa þær. Það væri kann ske rjett að prenta öll Alþingistíðindin á dönsku! Jeg hugsa, að þótt Danskurinn lesi þessa bók, þá veiti hún honum litlar upplýsingar um kröfur okkar um innlendan fána. Það borgar sig ekki, að fleygja í þá þessum 500 kr., því að sjálfstæði þessa lands á ekki að byggjast á skilningi Dana á okkar málum. Jeg vildi miklu heldur leggja 500 kr. fram, til þess að þessi ritgjörð yrði þýdd á eitthvert annað mál en dönsku, t. d. sænsku eða norsku, eða jafnvel færeysku.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á brtt. á þgskj. 595 frá háttv, sessunaut mínum, 1. þm. Rvk. (S. B.), um að lána Hjálpræðishernum 25,000 kr. til að koma upp gistihúsi og sjómannahæli hjer í Reykjavík. Jeg er algjörlega mótfallinn því, að hefta þannig fje viðlagasjóðs, og það því heldur, sem hann mun ekki hafa mikið handbært fje. Það kann vel að vera, að það væri þarflegt og heppilegt, að byggja þetta hús, en þá tel jeg það líka heppilegra, að bærinn hlypi undir bagga, en ekki landssjóður. Situr ekki háttv. sessunautur minn (S. B.) í bæjarstjórn? Hann ætti heldur að reyna að beita áhrifum sínum þar og fá bæinn til að styðja þetta fyrirtæki. (Sveinn Björnsson : Bærinn á engan viðlagasjóð). Jeg vil taka það fram, að það er svo víða í kauptúnum úti á landi, að það eru hrein og bein vandræði fyrir ferðamenn að fá gistingu. Reykjavík stendur miklu betur að vígi í þessu efni. Fátæk sýslufjelög hafa orðið að standa í ábyrgð fyrir 6000 kr. láni, til þess að hafa opið gistihús. Þegar fátæk sýslufjelög hafa ráðist í þetta upp á eigin býti, þá ætti Reykjavík ekki síður að geta það.

Þá vil jeg taka það fram, að því er strandferðirnar snertir og millilandaferðirnar, að jeg vil alls ekki minka þá styrki, sem til þeirra eiga að ganga. Jeg veit, að strandferðirnar eru mjög ónógar á ýmsum stöðum, eða með öðrum orðum, að viðkomur strandferðaskipanna á ýmsa staði eru alt of fáar og óstöðugar. Get jeg nefnt til þess ýmsa firði í mínu kjördæmi, svo sem Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík.