28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Einar Jónsson:

Þegar jeg lít á fjárlögin. eins og þau koma nú frá háttv. Ed., þá verð jeg að segja að margt getur nú skeð. Jeg hefi nú setið á sex þingum og hefi jeg aldrei sjeð annað eins og háttv. Ed. hefir nú þóknast að fara með fjárlögin. Það er því ekki að furða, þótt háttv. þm. Nd. hafi komið n:eð margar brtt. Jeg ætla nú að minnast á nokkrar þeirra.

Jeg ætla þá að byrja á þeim stóra lið, Jökulsárbrúnni. Eins og háttv. deild er kunnugt, er þetta afarstór liður, sem, ef hann ýmist er feldur eða samþyktur, kemur ákaflega miklum glundroða á Stað við samning fjárlaga.

Það en óhætt að segja, að það er komin hefð á það, að brúuð sje ein stórá á hverju fjárhagstímabili, og jeg álít það ekki ofmælt, þó að jeg kalli það óforsvaranlegt að bregða þeirri venju. Við síðustu umræðu fjárlaganna hjer í deildinni, var ágreiningur um, hvora ána, Eyjafjarðará eða Jökulsá á Sólheimasandi, skyldi brúa, og það leit svo út, að Jökulsárbrúin hefði betri byr. En það dugar ekki að eyða tímanum í það að láta þær stangast; aðra hvora ána verður að brúa fyrst, því að það er að færast ofmikið í fang, að brúa þær báðar á sama fjárhagstímabilinu. En úr því að svo virðist, sem horfurnar fyrir Jökulsárbrúnni sje betri, þá á að byggja hana fyrst og svo Eyjafjarðárbrúna á eftir. En eins og jeg þegar hefi tekið fram, er það ekki forsvaranlegt að skilja við fjárlögin eins og þau koma nú frá Ed. Þessi háttv. deild hefir unnið sjer það til ágætis við þetta fjárlagasmíð sitt, að strika út hið þarfa og góða., en setja það ljelega og einskisverða í þess stað. Og allur sparnaðurinn, ef slíkt nafn á annars við, er svo einar 41 þús. kr. með öðrum orðum. þá hefir þessi háttv. Ed. eytt tugum þúsunda í óþarfa. Jeg ætla svo ekki að eyða fleiri orðum um Jökulsárbrúna, en eiga það undir sanngirni háttv. samdeildarmanna minna, hvort þeir samþykkja þenna lið. Jeg á annars bágt með að trúa því, að þeir þori að koma heim til sín, án þess þó að hafa unnið að minsta kosti eitt þarfaverk. Mig hefði nú langað til að fara nokkrum orðum um háttv. Ed. í sambandi við þetta máli, en af því að hún er ekki við, ætla jeg að spara mjer að skamma hana í þetta sinn.

Jeg ætla þó að fara nokkrum orðum um ofur auðþekt fingraför háttv. þm. Vestm. (K. E.) á fjárlögum, eins og þau koma nú frá háttv. Ed. Þessi hv. þingmaður hefir ekki gleymt að skara eld að sinni köku. Hann hefir lagt það til, að hækkað verði við símstöðina í Vestmannaeyjum úr 1800 krónum og upp í 2400 kr. Jeg ætla nú að eiga það undir sanngirni samdeildarmanna minna, hvort þeir samþykkja þessa hækkun við símstöðina þar, úr því aðrar símstöðvar eru ekki hækkaðar. Annars er óþarfi að fara út í Vestmannaeyjar til að finna fingraför þessa háttv. þm. þeirra.

Brtt. 861 er um dr. Alexander Jóhannesson, þar sem farið er fram á að sá liður falli burt, og tek jeg þá tillögu aftur, því að fjárlaganefndin hefir tekið hana upp.

Í brtt. 847 hafði jeg farið fram á, að fella burtu fjárveitinguna um þýðing á ritgjörð Guðmundar Björnsonar í Fánanefndarálitinu, en jeg tek hana líka aftur, vegna þess, að mjer er kunnugt um, að deildin er henni mótfallin og vil ekki beitast fyrir tillögum, sem ekkert fylgi hafa.

Þá er brtt. 848, um Dr. Helga Jónsson grasafræðing, sem fer í þá átt, að lækka hann úr 1800 kr. og niður í 1500 kr. Þegar þeir nafnarnir, Helgi Jónsson og Helgi Pjeturss fóru hjeðan úr deildinni, voru þeir jafnir, báðir í 1800 krónum. En nú hefir háttv. efri deild þóknast að setja Helga Pjeturss niður í 1000 kr. Jeg hefi því komið fram með þá breytingartill. að lækka Dr. Helga Jónsson niður í 1500 kr. og aðra brtt. um að hækka Helga Pjeturss upp í 1500 kr., því að jeg vil alls ekki láta hann gjalda þeirrar vanheilsu, sem kann að hafa hamlað honum frá því, að inna svo mikið verk af hendi, sem skyldi, því jeg hefi með öðrum orðum tilhneigingu til að hafa nafnana jafna. Það er þó að minsta kosti gaman að lesa ýmislegt eftir Helga Pjeturss, en jeg hefi aldrei sjeð neitt skemtilegt eftir Helga Jónsson.

Svo er það brtt. 849. Þar er það einhver Jakob Jóhannesson, sem á að fara að semja íslenska setningafræði. Það getur svo sem vel verið, að jeg hefði nú skrifað fallegri setningu, ef hann hefði kent mjer, þegar jeg var ungur. En af því að jeg býst ekki við, að hann kenni mínum strákum neitt gott, þá legg jeg það til, að þessi liður falli burtu.

Þá er að brtt. 850. Ja, sú þykir mjer nú dálítið undarleg og líkleg til að vera komin frá Vestmannaeyjum. Vestmannaeyinga vantar sem sje vatn og hata ekki dugnað í sjer til að finna nokkra aðra lind en landssjóð. Jeg þekki bændur, t. d. á Rangárvöllum, sem þurfa að fara tveggja tíma leið, til þess að ná sjer í hvern dropa af neytsluvatni, sem þeir þurfa með. Og nú vilja Vestmannaeyingar fá 5000 kr. til þess arna. Jeg ráðlegg þeim heiðruðu Vestmannaeyingum að nota regnvatnið sitt hægðarleikur að hafa regnvatnsbrunna við hvert einasta hús og taka alt það vatn, sem af þaki hússins kemur. Jeg segi eindregið nei við þessari fjárveitingu; það er ekki gott að vita, hversu margir kunna að koma á eftir; ekki eru öll vatnsból þægileg, og allir þeir, sem hafa við slæm vatnsból að búa, ættu þá að fara til þingsins til að fá vatn í grautinn sinn. Mitt vatnsból er ekki nógu þægilegt, enda þótt jeg hafi hreina og tæra uppsprettulæki nálægt bænum. En þó mundi jeg ekki fara til þingsins í því skyni að fá það lagað, nema því að eins að það þætti alveg sjálfsagt; ekki þætti mjer neitt að því svo sem, þótt landið leiddi vatnið inn í bæinn til mín. Annars finst mjer að Vestmannaeyingar gætu sparað sjer að senda inn á þingið bæði vatnsbeiðnina og þingmanninn, sem er hreppapólitíkus.

Jeg hefi ekki komið fram með neina brtt. um þessar sálarfræðilegu rannsóknir. Frá mínu sjónarmiði hefir frv. þetta breytst mjög mikið í Ed., þar sem hún fer fram á, að styrkurinn sje veittur til sálarfræðisrannsókna í stað þess; sem Nd. vildi veita hann til vinnuvísinda, sem jeg hafði hugmynd um að gæti komið að nokkrum notum; get ekki verið með sálarfræðislegum rannsóknum, sem eru gripnar úr lausu lofti.

Annars hygg jeg, að Ed. hafi farið illa að gagnvart þessum manni, sem er allra góðra gjalda verður, með því að vera að grauta nokkuð í frv. eins og það kom frá Nd. síðast, því að það er ekki sama hver skilyrðin fyrir fjárveitingunni eru. Ekki get jeg fallist á tillögu háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), því hún er hvorki hrá nje soðin.

Jeg býst nú við, að mönnum þyki jeg vera orðinn nógu langorður í þetta sinn, en jeg kann .nú að koma að einhverju af þessu síðar meir.