28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Björn Hallsson :

Jeg er með því marki brendur, eins og fleiri, að eiga brtt. við fjárlagafrv., en þær eru ekki margar, og jeg ætla mjer ekki að fara að eltast við allan þann sæg brtt., sem hjer liggur fyrir.

Jeg á brtt. á þgskj. 887 við 13. gr. B. VIII., sem fer fram á, að fjárveitingin til Miðfjarðarárbrúarinnar í Skeggjastaðahreppi verði flutt yfir á fyrra árið.

Jeg skal leyfa mjer að geta þess, að jeg hefi komið fram með þessa tillögu í samráði við verkfræðing landsins. Það á að byggja brú yfir Djúpá í Ljósavatnsskarði, og ætlast landsverkfræðingurinn til, að þær verði báðar samferða og að sömu menn vinni við þær.

Það er ekki nema eðlilegt, að hlutaðeigendur í Norður-Múlasýslu vilji fá þessa brú sem fyrst, í staðinn fyrir þá sem fjell ofan í ána í vor. Jeg vona að háttv. deild samþykki þessa tilfærslu, það því fremur, sem feld var hjer í deildinni um daginn tillaga frá okkur þingmönnum Norður-Múlasýslu, um að landið skyldi kosta brúna að öllu. Nú er ekki farið fram á að veita nema 7000 kr. til hennar, gegn því, að það sem á vantar komi annarsstaðar frá. Nú verða Norðmýlingar í annað sinn að leggja til þessarar brúar, og er þá ekki nema sanngjarnt, að þeir fái landssjóðstillag fyrra árið, svo brúin komi nú sem fyrst að notum, því að landssjóður átti að kosta brúna að öllu leyti. Það er sanngjarnt, að flytja þessa upphæð yfir á fyrra árið, þar sem svona stendur sjerstaklega á, og auk þess mun efni að sumu leyti vera til, t. d. trje, sem þarf að hafa við steypuna, og skemmast þau því við að liggja lengi. Við allar brúargjörðir verður líklega ein athugasemd í fjárlögunum um það, að stjórnin hafi heimild til að færa brýr, sem eru á f. á: á seinna ár, og er þar af leiðandi þeim mun minni ástæða til að hafa á móti þessu.

Þá er önnur brtt. sem jeg vildi minnast á. Hún er ekki frá mjer, heldur frá háttv. fjárlaganefnd. Hún leggur til, að feld sje burtu fjárveitingin til þokulúðurs á Dalatanga eystra. Háttv. Ed. samþykti þessa 1–4 þús. kr. fjárveitingu með miklum meiri hluta. Eftir því sem vitamálastjórinn hefir sagt mjer, mun þokulúður þessi kosta um 20 þús. kr. Í þingbyrjun skrifuðum við þingmenn Norður-Múlasýslu háttv. fjárlaganefnd Nd. um þennan lúður, en fengum enga áheyrn, enda var mikill sparnaðarandi ríkjandi í þinginu framan af, þótt hann sje að ýmsu leyti farinn að dofna nú.

Ef mig minnir rjett, þá hefir Þorvaldur Thoroddsen sagt frá því í Íslandslýsingu sinni, að á Austfjörðum sjeu um 200 þokudagar á ári. Getur það verið góð bending um, hver þörf sje á slíkum lúðri, enda hafa heyrst háværar raddir meðal sjómanna þar eystra, um að fá þokulúður á Dalatanga, og hafa þeir sagt, að þeir vildu leggja eitthvað af mörkum til þess. Á fundi, sem við þm. Norður-Múlasýslu áttum með kjósendum í Seyðisfjarðarhreppi, kom það í ljós, að menn vildu leggja fram alt að 1/3 kostnaðarins, eða 6000 kr., ef lúður þessi yrði settur við vitann. Það má benda á það, að á þessum stöðum er mikil sigling, bæði skipa, sem koma beint upp til landsins og sömuleiðis fiskiskipa, og er því þörfin hjer mikil. Þar sem þessi tillaga hefir fengið svo góðar undirtektir í háttv. Ed., vildi jeg mega vona, að svo yrði einnig í þessari deild. Að vísu fengum við, jeg og háttv. samþingismaður minn, ekki ríflegar undirtektir hjá fjárlaganefndinni í byrjun þings. Hún sá sjer ekki fært að sinna beiðni okkar, en óvíst að hún hafi staðið sem einn maður gegn þessari fjárveitingu. Þá voru allar neitanir bygðar á þeim forsendum, að alt ætti að spara, bæði vita og annað, sem með nokkru móti væri hægt að draga. Nú eru vitarnir komnir aftur inn í fjárlögin, og væri þá rjettast að lúðurinn yrði látinn fylgja með, þar sem líka heimild verður til fyrir stjórnina að fresta öllu eftir fjárhagsástæðum.

Einn háttv. þm, hefir haft orð á því, að það gæti tæpast heitið forsvaranlegt, að þingmenn kæmu heim, án þess að hafa gjört ráðstafanir til að eitthvert stórvirki yrði gjört, eins og t. d. að brúa einhverja stórá landsins. Jeg get fallist á, að það sje rjett, ef fært er að byggja eina stórbrú á hverju fjárhagstímabili. En það getur staðið svo á, að slíkt sje ómögulegt, annaðhvort af því, að fje sje ekki fyrir hendi, eða af því, að efni sje dýrt eða ófáanlegt. Og þessar ástæður eru einmitt fyrir hendi um Jökulsárbrúna, eins og brjef landsverkfræðingsins ber með sjer. Jeg tel því hyggilegt að fresta smíði þeirrar brúar, þar til það er vel framkvæmanlegt, og mun því greiða atkvæði á móti henni.

Það er gott að heyra hve mikill sparnaðarmaður háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) er, eða að minsta kosti vill vera, þegar hann heldur ræður hjer í deildinni. En það er orðið dálítið hlægilegt, að heyra hann alt af vera að stagast á sama nafninu. Nafn Dr. Guðm. Finnbogasonar er nú orðið aðalefnið í sumum ræðum þessa háttvirta þingmanna. Ef því nafni væri hætt við sliti, þá er jeg hræddur um, að það væri nú farið að mást af öllum þeim eltingaleik. Það sem mest hneykslar háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.), er sú hugsun, að bak við þessa fjárveitingu liggi það, að gjörðar sjeu tilraunir til að bæta vinnubrögðin í landinu. Held jeg þó að þessum háttv. þingmanni veitti ekki af að læra vinnubrögð.

Jeg get tekið undir það, að mjer fellur ekki hvernig efri deild hefir orðað þennan lið. Jeg tel það samt orðaleik hjá þeirri háttv. deild. En jeg veit að það sama vakir fyrir Dr. Guðmundi Finnbogasyni, hvernig svo sem það er orðað í fjárlögunum, og er því nokkurn veginn sama um nafnið, þótt mjer hefði þótt viðkunnanlegra að orða liðinn eins og hann var áður, sem sje »til tilrauna að bæta vinnubrögð«, eins og vakti fyrir Búnaðarfjelaginu og þessari háttv. deild hingað til.

Jeg sje ekki, að það þurfi að hneyksla neinn, þó að tilraunir sjeu gjörðar til að bæta vinnubrögð í landinu; það er góð hugsun, og þarf ekki að vera svo mikið, sem vinst, til þess að fjárveitingin borgi sig, sjerstaklega þar sem hún í raun og veru er ekki nema 4800 kr. yfir fjárhagstímabilið, eins og sýnt hefir verið fram á.

Annars finst mjer nú mál til komið að hætt sje að þvæla um þennan útgjaldalið. Hvort sem þessi tilraun hepnast eða ekki, þá finst mjer hún þess verð, að þetta sje reynt, þótt varið sje til hennar þessari upphæð. Málið er mikils vert, og Dr. Guðm. Finnbogason þess verður, að hann fái einhvern tíma tækifæri til að sinna því, sem hann hefir búið sig undir, en ekki kúra í bókasafni alla æfi.