28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) hefir borið fram tillögu á þgskj. 877, um lækkun styrksins til matreiðsluskólahalds á Ísafirði. (Guðm. Eggerz:

Hún er tekin aftur). Nei, er hún tekin aftur? Tillagan hefði getað komið sjer mjög illa, en úr því að hún er tekin aftur, þarf jeg ekki að segja meira um það mál.

Þá vil jeg taka undir það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að rjett sje, að styðja brtt. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), er fer í þá átt, að styrkurinn til dr. Helga Pjeturss verði látinn halda sjer, eins og hann var áður en frumv. gekk til Ed.

Við vitum það allir, að maðurinn, sem hjer á hlut að máli, er duglegur vísindamaður, sem hefir ritað margt, og mikið, í útlend tímarit, um jarðfræði lands vors, og þannig gjört Ísland þar kunnugt, að minsta kosti meðal jarðfræðinganna, og þó að hann hafi kent lasleika um hríð, þá ættum vjer ekki að láta hann gjalda þess, eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir bent á, heldur ættum vjer þvert á móti að reynast honum þá æ því betur.

Þá vil jeg nota tækifærið, til að láta þess getið, að jeg mun með atkvæði mínu, styðja brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (St. St ) um styrk til brúar á Ólafsfjarðarós, enda er hún í samræmi við það, sem áður hefir verið samþykt hjer í deildinni, og hygg jeg, að deildin muni ekki hverfa frá þeirri samþykt sinni. Mjer er og kunnugt um, að fjárlaganefndin hefir látið meðlimi sína hafa óbundnar hendur að því er þetta atriði snertir.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir enn á ný komið með brtt., þess efnis, að veita Oddnýju Pálsdóttur styrk, til þess að dvelja á heilshæli erlendis.

Ed. hefir felt styrk þennan niður, sem og fleira, en mjer virðist þó rjett, að taka hann nú upp aftur, og þá eigi hvað síst, er tillögumaður hefir nú fært styrkinn nokkuð niður.

Hjer er um sjúkling að ræða, sem getur ekki fengið heilsubót hjer á landi, og því beint skylt, að styðja að lækning hans erlendis, ef unt er.

Varhugavert þykir mjer það og, að Ed. hefir strikað burt lánsheimildina til áveitu úr Þjórsá yfir Skeiðin. Hjer er um fjöldamargar jarðir að ræða, sem myndu hafa stórgagn af þessari áveitu.

Vitaskuld verður lánið ekki veitt, nema fje sje fyrir hendi, og þar að auki áformað að veita það gegn 5% vöxtum.

Það er því útgjaldalítið, að samþykkja viðaukatillöguna, sem nú er borin fram hjer í deildinni, til að kippa þessu aftur í lag, og mun jeg því greiða henni atkvæði.

Þá mun jeg enn fremur styrkja brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), er að því hnígur, að styrkurinn til utanfarar kennara verði hækkaður upp í 1600 kr. og nái jafnt til barna- og unglingakennara.

Mjer er ekki kunnugt um, hversu hjer að lútandi ákvæði fjárlaganna hefir að undanförnu verið beitt í framkvæmdinni, en dylst eigi, að orðunin, eins og hún er í breytingartillögunni, tekur nú þó af allan vafa, þ. e. gjörir jafn-auðvelt, að nota styrkinn, hvort er um barna- eða unglinga-kennarana ræðir, og er þá og frá því sjónarmiði einnig mjög til bóta.

Jeg er eigi í neinum vafa um það, að það margborgar sig fyrir landið, að veita þennan styrk, og hann sem ríflegastan, því að við utanförina víkkar sjóndeildarhringur kennaranna, svo að þeir verða miklu hæfari til að gegna starfi sínu, en ella, og hafa þá og börnunum, og unglingunum frá mörgu að segja, er heim er komið, og vil jeg því mæla sem allra best með brtt.

Sama er að segja um tillöguna, sem kom fram í Ed. um fjárveitingu til Ragnars Lundborgs.

Jeg þykist vita, að sumir hjer í deildinni sjeu þessari fjárveitingu mótfallnir, en þegar þess er gætt, að nú stendur yfir heimsstyrjöld, og að mikið hefir, af sumum stórveldanna, verið um helgi rjettinda smáþjóðanna talað, þá er síst að vita, hvað verður, er til friðarsamninganna kemur, að heimsófriðnum loknum; — fer og, sem eðlilegt er, að mun eftir því, hvaða þjóðir enn bendlast við ófriðinn.

En ekki er því að neita, að svo gætu atburðirnir, í heims ófriðnum, þó skipast, að það gæti þó ef til vill haft sína þýðingu, að hafa mann erlendis, sem þekkir mál vor, og vill oss af heilum hug vel.

Hver veit, nema sú aldan rísi þá og, að ófriðnum loknum, að rjett sje, að smá-þjóðernin fái þá öll að njóta æ fulls þjóðarsjálfstæðis, ekki síður,en þjóðirnar, sem fjölmennari eru.

Gæti eigi hugsast, að einhverir yrðu þeir atburðir, er orðið gætu þess valdandi?

Siðfræðilega skoðað, vitum vjer og, að því smærri, sem þjóðin er, því rjetthærri er hún, og á hún að vera, alveg eins og hver einstaklingurinn er og æ því rjetthærri, sem hann er vesalli — sbr. þar því ljótara einatt að leika hann illa, og þá því ábyrgðar-meira.

Annað mál, að að svo er nú ástandið í heiminum enn að vísu, að hann tekur hjer — sem víðar — alt öfugt, þ. e, lætur þann æ lúta, sem máttar-minni er, gjörist honum æ níðingurinn, og notar sjer bolmagn sitt, eða hnefarjettinn.

En hvað sem þessu líður nú öllu, og án þess að vilja hjer orðlengja þetta frekar, mun jeg þó fyrir mitt leyti greiða atkvæði með því, að fjárveitingin til Ragnars Lundborg fái að standa.

Þá á jeg enn eftir að minnast á fjárveitinganna til »brimbrjótsins« í Bolungarvík.

Eins og kunnugt er, hefir Nd., er málið var rætt hjer um daginn, komist að þeirri niðurstöðu, með 17:8 atkv., að veita ætti í þetta skifti 10,000 kr. hvort árið til þessa fyrirtækis.

Vjer verðum og, í þessu sambandi, að gæta að því, að á móti þeim 22 þús., sem Bolvíkingar munu þegar hafa fengið úr landssjóði til »brimbrjótsins«, hafa þeir nú þegar lagt fram 27–28 þús. kr., ef eigi meira, — man það eigi svo glögglega nú á svipinn, sem skyldi, og hefi eigi þau plöggin hjer við höndina.

Jeg treysti háttv. deild til þess, að breyta ekki atkvæði sínu í þessu efni, þrátt fyrir tiltektir Ed., enda skal jeg og í þessu sambandi leyfa mjer að minna á ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.) hjer í deildinni um daginn, þar sem hann benti á, að sjálfsagt væri, að næsta þing kæmist að einhverri fastri niðurstöðu um það, hvernig haga skuli fjárbeitingum til bryggju og hafnargjörða yfirleitt, og að tekið væri þá og jafnframt til yfirvegunar, hvort eigi væri rjett, að láta landssjóð að einhverju leyti njóta tekna af slíkum fyrirtækjum, leggi hann fjeð til, eða þó megnið af því, fram.

En fráleitt verður þá niðurstaðan sú, að ætla hjeruðum, að leggja fram neitt líkt því, sem Bolvíkingar hafa nú þegar á sig lagt.

Í trausti til þess, að háttv. þingmenn standi við atkvæði sín, hefi jeg því og látið farast fyrir, að koma fram með tillögu um lánsheimild til framhalds brimbrjótnum, og samkvæmt því, er Ed. ætlar hjeraðsbúum að leggja fram móti landssjóðsstyrknum, en sem jeg annars hefði neyðst til að gjöra, þ. e. bæri jeg eigi enn fyllsta traust til orðheldni virðulegra samdeildarmanna minna í máli þessu.