28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sveinn Björnsson:

Jeg flyt hjer ásamt 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) brtt. á þgskj. 864. Hún er þannig til komin, að í Nd: var samþykt að veita tveimur póstum, Arna Gíslasyni og Bjarna Ketilssyni, eftirlaunastyrk, 300 kr. á ári hvorum. Ed. hefir ekki sjeð sjer fært að fallast á þetta, þ. e. a. s., hún hefir viðurkent, að það beri að veita þessum mönnum eftirlaun, en hefir fært þau niður um 100 kr. eða niður í 200 kr. til hvors. Jeg tel það illa farið, að þetta skuli hafa verið gjört í háttv. Ed. Mjer er ekki fullljóst af hvaða ástæðu deildin hefir gjört þetta, en hinu hygg jeg að megi færa rök fyrir, að þessir menn eigi fylstu sanngirniskröfu til þessarar litlu eftirlaunaupphæðar, sem Nd. ánafnaði þeim.

Jeg þekki vel ástæður Árna Gíslasonar. Hann hefir verið póstur 22 bestu ár æfi sinnar, en ljet af þeim starfa fyrir 10 árum. Þá var hann svo staddur, að hann hugðist mundu geta haft ofan af fyrir sjer, án þess að leita til landssjóðs. Hann hefir aldrei áður farið þess á leit að fá eftirlaun, þótt hann hafi átt fulla kröfu til þess. En nú þarf hann að fá styrk, því að hann hefir bæði mist efnu sín og heilsuna. Þessi maður hefir synt það, að hann ætlaði ekki að óþörfu að kroppa fje landasjóðs. Hann er þess fyllilega verður, að fá þessi eftirlaun, og það þótt hærri væru, þar sem hann hefir nú setið eftirlaunalaus í 10 ár. Ef hann hefði fengið vanaleg póstaeftirlaun, væri sú upphæð orðin 2000 kr. Hann á því fremur heimtingu á að fá þessar 300 kr., sem jeg hefi farið fram á að hann fengi, og það þótt hann lifði í 20 ár enn þá, sem varla verður reyndar, því að hann er kominn hátt á sjötugs aldur. Nú er svo komið fyrir honum, að hann þarf þessa fjár með, til þess að geta dregið fram lífið.

Jeg skal ekki vera margmæltari um þetta, en skal að eins geta þess, að með flytjandi minn (Þ. B.) hefir sagt mjer, að nokkuð líkt væri ástatt fyrir hinum póstinum, Bjarna Ketilssyni. Hann hefir verið póstur í 17–18 ár, er orðinn slitinn og heilsulaus sjálfur og auk þess er kona hana og börn heilsutæp. Þörfin á að úr kjörum þessara manna verði bætt er því mjög mikil.

Þetta er eina brtt. er mitt nafn stendur við, en jeg vil þó minnast örfáum orðum á einstaka fleiri brtt., er komið hafa fram.

Það er þá fyrst kolamálið. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir komið fram með brtt. á þgskj. 874 um að veita Guðm. bryggjusmið Guðmundssyni 12 þús. kr. lán úr viðlagasjóði, til þess að vinna kol úr Skorahlíðum. Enn fremur hefir hv. Ed. sett í 16. gr. fjárlagafrumvarpsins 25 þús. kr. fjárveitingu til kolanámurannsókna á Íslandi. Meiri hluti fjárlagan. Nd. er þeirrar skoðunar, að fella beri þessa fjárveitingu, en skora á stjórnina að undirbúa málið undir næsta þing. Jeg hefi ekki getað fallist á þetta, og skal jeg nú gjöra grein fyrir minni skoðun þessu viðvíkjandi.

Það láu tvær umsóknir fyrir þessu þingi, önnur frá Guðm. Guðmundssyni um 30–40 þús. kr. lán, hin frá námufjelagi Íslands, um 20 þús. kr. fjárveitingu til rannsókna á kolum. Umsókn þessi var þannig orðuð, að fje þetta yrði greitt aftur, ef námar fyndust, annars ekki.

Guðmundur Guðmundsson hefir bæði eytt tíma og fje til rannsókna þarna vestra. Er talið að hann hafi í vor hitt svo gott lag, að tilvinnandi sje að vinna þar kol. Hann hefir tekið sýníshorn af þessum kolum og hafa þau reynst að vera góð brúnkol, óblandin leir. Það er því enginn vafi á því, að þarna hafa fundist kol, ef nóg er af þeim, sem gætu orðið nothæf og munað um, en því miður liggur þetta ekki þannig fyrir, að hægt sje að segja, að hjer sje um námu að ræða. Kolalagið er 12 cm. að þykt. Og mjer sagði maður, dr. Helgi Jónsson, er nýlega farðaðist á þesssum slóðum þar vestra og skoðaði lagið, að það gangi inn í fjallið, en ekki sje hægt að sjá hvort það þykni er innar dragi.

Í vor sneri þessi maður sjer til velferðarnefndar og stjórnar, og fór fram á að landssjóður keypti dálítið sýnishorn af þessum kolum. Stjórnin pantaði þá hjá honum 60 tonn, til að komast að raun um hversu nothæf kolin væru. Jeg held að þessi 60 tonn sjeu ókomin enn, en það stafar af því hversu erfitt er að lenda þarna vestra og erfitt að vinna kolin.

Þetta er það, sem um námuna er að segja, og ef litið er óvilhöllum augum á málið, þá sjer hver maður, að þetta er ekki rannsakað til hlýtar. Það er því misskilningur, að ekki sje hægt að fá hjer brúkleg kol, ef gengið er að greftinum með eitthvað handa á milli, þó hins vegar sje óvíst hversu mikið af kolum þarna kann að vera. Þetta gæti því orðið til þess að bæta úr því háa verði, sem á kolum er nú.

Nú er tilgangurinn sá, að Guðmundur Guðmundsson fái lán úr viðlagasjóði, en þó sú lánaheimild sje veitt, þá getur hann ekki fengið fjeð fyrr en eftir 1. jan. 1916; en það væri nokkuð seint og auk þess er undir hælinn lagt hvort fjeð yrði þá til, gæti jafnvel farið svo, að aldrei á næsta fjárhagstímabili yrði hægt að lána fjeð, enda þótt lánsheimildin sje samþykt.

Jeg bendi á þetta, til þess að sýna fram á, að ólíklegt er að þetta kæmi að liði nú í haust, eins og ýmsir halda.

Hin beiðnin var frá Námufjelagi Íslands. Það hefir líka eytt tíma og peningum í kolanámurannsóknir, en ekki fundið góða kolanámu.

En að hvorutveggju athuguðu, þarf meira fje til rannsókna, og þar sem þetta mál þykir mikilsvert, þá vil jeg að þingið skiljist ekki svo við, að það gjöri ekkert í því að athuga og rannsaka þetta mál, og það nú þegar.

Hin eina rjetta leið er að fela stjórninni sjálfri að sjá um, að rannsóknirnar fari fram. Hvar hún ber niður, ræður hún sjálf. Ef til vill verður það hjá Guðmundi, og ef til vill annarsstaðar; því vil jeg að stjórnin ráði.

Mjer hefir heyrst það á háttv. deildarmönnum, að málið sje svo mikilsvert, að skylt sje að hreyfa því. En sumir af meðnefndarmönnum mínum eru þeirrar skoðunar, að undir þessum erfiðu kringumstæðum sje ekki ástæða til að veita fje í þessu skyni, enda telja þeir óvíst, að fjeð sje nægilegt; um það vanti upplýsingar.

Það er rjett, að þetta er ekki nákvæmlega áætlað, en þeir, sem einhverja nasasjón hafa af slíkum fyrirtækjum, eru vissir um, að áreiðanlega fari ekki meira en 5 þús. kr. til verkfræðings, 10 þús. kr. í verkfærakaup, og þá eru eftir 10 þús. kr. í verkalaun. Þessi upphæð virðist því nægileg. Þeim, er vilja fresta framkvæmdum í þessu efni, má benda á, að menn finna nú mjög til þess háa verðs, sem er á kolum. Ósk þeirra er því, að rannsakað sje hvort kolanámur sjeu í landinu. Yrði sú raunin á, þá má ganga að því sem vísu, að þá fengist eldsneyti með vægara og sanngjarnara verði. Og við vitum ekki nema ástandið verði enn hörmulegra með haustinu og þaðan af verra næsta haust á eftir. Væri þá ekki sárt að þurfa að naga sig í handarbökin fyrir það, að hafa nú ekkert gjört í þessum málum.

Viðvíkjandi peningahliðinni vil jeg benda á það, að á þessu ári eru flutt inn 60 þús. tonn og kostar hvert 25 krónum meira en vanalega. Verðhækkunin er því alls 1½ miljón kr. 1/60 hluti af þessu borgaði fyllilega þá peninga, er hjer ræðir um.

Þá skal jeg minnast fáum orðum á brtt. frá háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) á þgskj. 898, þar sem hann fer fram að frestað verði að setja miðstöðvarhita í Holdsveikraspítalann, vegna verðhækkunar á efni. Það lá fyrir fjárlaganefnd Nd. þegar frá upphafi umsókn um þessa fjárveitingu, og þar skýrt frá því, hvers konar hörmung þessir vesalingar, sem þar eru, hafa átt við að búa, vegna þess, hve eldfærin hafa verið vond. Þeir hafa jafnvel heldur kosið að sitja skjálfandi í vetrarkuldanum, heldur en þola reyk og stibbu þá., er fylti alt húsið, ef í ofnana var lagt. Nefndin sjer sjer ekki fært að taka þetta upp hjer vegna sparnaðar, en mælti með því, að ráðin yrði bót á þessu í næstu fjárlögum. En nú hefir háttv. Ed. tekið svo mikið tillit til þessa fólks, að hún vill að fjeð sje veitt nú þegar, svo að þessir aumingjar kveljist ekki lengur. Jeg vil því mæla með því, að Nd. fylgi Ed. að málum í þessu, fyrst hún hefir tekið fjárveitinguna upp í fjárlagafrumvarpið, ekki síst þar sem verðhækkunin nemur þó ekki meira en 3–4 þús. kr. Þá virðist varla vera gjörandi að horfa í þann skilding, þegar svona stendur á.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á brtt. frá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á þgskj. 866, þar sem farið er fram á, að feld sjeu burtu skilyrðin í athugasemdinni aftan við flóabátana. Strandferðanefnd Nd. tók upp þessi skilyrði, vegna þess, að henni virtust þau nauðsynleg til að safna skýrslum, er gjöra það unt að gjöra sjer grein fyrir, hvort ástæða sje til að styrkja þessar ferðir. Ef nokkurt vit á að vera í þessu, verður stjórnin að hafa eitthvað við að styðjast. Nefndin leggur því til, að brtt. verði feld.

Út af ummælunum um Mentaskólann, vil jeg láta þess getið, að jeg, sem annars er með því að reyna að takmarka aðsókn að skólanum, var ekki þess sinnis að taka styrkinn nú sem stendur af fátækum nemendum. En jeg lít svo á, að það þurfi að reyna koma að nýju skipulagi á skólann, koma á skólagjaldi fyrir efnaða nemendur, en frípláss væru handa þeim fátækari, og þeir einir fengju styrk, er væru verulega efnilegir. Nefndin getur alveg fallist á tillögu háttv. þm. Dal. (B. J.). Hún lítur svo á, að rjett sje að nota skólagjald til þess að styrkja fátækari nemendur.

Jeg hefði gjarnan viljað minnast á fleiri atriði, og helst hefði jeg viljað hafa tækifæri til þess að fara í gegnum allar breytingartillögurnar og mæla með og móti, eftir því sem jeg lít á þær, eins og sumir háttv. deildarmenn tíðka nú. En þess er enginn kostur, og verð jeg því að láta atkvæði mitt nægja um hverja einstaka þeirra.

Að endingu vil jeg geta þess, af því að jeg man ekki eftir, hvort komið hafa fram upplýsingar um það, að nefndin leggur til að aðstoðarfje þjóðmenjavarðar verði hækkað um 200 kr. Ástæðan an til þess er sú, að það má skoða afráðið, að málverkasafn landsins, er geymt hefir verið hjer í Reykjavík, verði falið honum til umsjónar, raða því og semja skrá yfir það. Þetta virðist því í alla staði vera sanngjarnt, þar sem þessi maður er kunnur að því, að vera slíku starfi vel vaxinn og er samviskusamur og vandvirkur. Enda er þetta gjört til þess, sé almenningi gefist kostur á að hafa safnsins einhver not.