28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson):

Það er ekki margt, sem jeg þarf að segja í þetta skifti.

Mjer dettur ekki í hug að lá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) það, þótt hann haldi fram þessari kröfu sinni um, að styrkurinn til brimbrjóts í Bolungarvík verði veittur án skilyrðis um framlag í móti. Að eins þykir mjer það furða, að hann skuli nú vilja gjöra þetta að kappsmáli milli deildanna. Mig furðaði þó enn þá meira á háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að hann skyldi enn þurfa að vera að klifa svo mjög á þessu máli. Hjer er æði mikið í húfi fyrir fjárveitingarvaldið. Jeg hygg, að honum yrði þetta ljóst, ef honum yrði falið að fara kringum alt landið, og kynna sjer alt það, sem gjöra þarf í lendinga- og hafnabótum, þegar hann sjer hve yfirdrifið það verkefni er, og hvað skamt það nær, sem þingið getur gjört í þessum efnum. Þessi fyrirtæki eru svo löguð, að það hlýtur að fara nokkuð mikið eftir hagsmununum á hverjum stað, hvort eitt fyrirtækið skuli vera látið ganga fyrir öðru, og ef hagamunirnir mæla með fyrirtækinu, þá eru það hagsmunir þeirra, sem að standa, þeirra, sem sjerstaklega standa sig við að leggja á sig álögur, vegna fyrirtækisins. Ef því t. d. notendur brimbrjótsins í Bolungarvík standa ekki við að leggja fram fje til hans til jafna við landssjóð, þá get jeg ekki með neinu móti sjeð, að hann borgi sig fyrir landið. En ef landið tekur hann nú að öllu leyti á síma arma, þá er það háskalegt fordæmi, og afardýrt fyrirtæki.

Jeg hefi ekki mikið viljað tala um styrkinn til Búnaðarfjelaganna. Mjer fellur illa, ef farið verður að etja kappi um þetta við háttv. Ed. Jeg held að bændur gætu gjört sjer það til sóma, að vægja í kröfum að þessu sinni. En jeg þykist sjá, að þeir ætli sjer að halda þessu til streitu, en það tel jeg þeim miklu fremur til minkunar en til gagns.