07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Ráðherra:

Jeg á eina brtt. við fjáraukalagafrumv. á þgskj. 241. Hún er þannig til komin, að 5. okt. síðastliðinn skrifaði prófessor Björn M. Ólsen stjórnarráðinu og fór fram á, að það hlutaðist til um, að hann fengi 200 kr. árlega launaviðbót frá 1. okt. 1914 að telja, á sama hátt og þeir prófessorarnir Jón Helgason og Lárus H. Bjarnason. En með því að prófessor B. M. Ólsen kemst ekki undir orðin í lögum nr. 36. 30. júlí 1909, 2. gr. 3. málsgr., hefir stjórnarráðið ekki sjeð sjer fært; að láta útborga honum þessa launaviðbót. Hins vegar er þetta aldraður maður og alls góðs maklegur, því að hann er einhver mesti vísindamaður íslenskur, eins og kunnugt er. Á hann því fullkomna sanngirniskröfu til launaviðbótar á sama hátt og fyrnefndir embættisbræður hans. Fyrir því hefi jeg leyft mjer að bera fram þessa brtt. Mjer er óhætt að herma það, að háttv. fjárlaganefnd hefir tekið þetta til greina, nú þegar hún er að ganga frá fjárlagafrumv. Jeg þarf ekki að taka það fram, að þetta er ekki fjárspursmál fyrir prófessorinn, heldur »princip«-spursmál, að hann sje ekki settur skör lægra en hann á skilið.

Viðvíkjandi c-lið í brtt. á þgskj. 225, skal jeg taka það fram, að jeg ber ekki brigður á niðurstöðu háttv. fjárlaganefndar, að fyrv. sýslumaður Skúli Thoroddsen hafi verið meðhöndlaður harðar en embættisbræður hans, sem fengu lausn frá embætti um líkt leyti og hann. Jeg skil þó tillögu háttv. fjárlaganefndar svo, að hún vilji ekki að öllu leyti taka til greina kröfu Skúla Thoroddsens, því að mjer skilst, að hann vilji, að eftirlaunin verði árlega 2000 kr., eða í minsta lagi 1800 kr., en fjárlaganefndin leggur til að þan verði kr. 1752,54. Skúli Thoroddsen mun fara fram á þessa hærri upphæð í því skyni, að hann fái þannig uppbót á því, sem honum hefir verið vangreitt undanfarið. Með því fororði, að eftirlaunin verði reiknuð kr. 1752,54 nú og eftirleiðis, get jeg fyrir mitt leyti greitt atkvæði með þessu.