07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsöguim (Pjetur Jónsson):

Það var rjett til getið hjá hæstv. ráðherra, að fjárlaganefndin gat ekki fullkomlega fallist á kröfu Skúla Thoroddsen. Það varð að samkomulagi í nefndinni, þar sem hann sjálfur var viðstaddur, þó að hann auðvitað greiddi ekki atkvæði í þessu máli, að taka kröfu hans til greina á þann hátt, sem tillaga okkar ber með sjer, með því skilyrði, að allar kröfur frá hans hendi væru þar með niður fallnar. Með þeim fyrirvara er það, að fjárlaganefndin leggur þetta til. Þetta er ekki af því, að nefndin hafi ekki góðan vilja á því, að rjetta hlut viðkomandi manns. Heldur var ekki lengra gengið, með tilliti til þess, að Skúli Thoroddsen komst á unga aldri á eftirlaun, og með þeim atvikum, sem mörgum eru kunnug. Jafnframt veitti Alþingi honum þá uppreisn, að hann mátti hrósa sigri og vera vel sæmdur af. Má með sanni segja, að hann, maður á besta aldri, hafi verið eins vel settur með 1500 kr. eftirlaun, og þó að hann hefði haldið embættinu með fullum launum. Hins vegar vildum við veita honum þá viðurkenningu, að hann hefði fullan rjet til eftirlaunanna upp frá þessu, og gekk okkur miklu fremur það til, heldur en að við teldum hann muna svo mikið um þetta fjárhagslega.