26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

43. mál, verðlag á vörum

Framsm. (Þorleifur Jónsson) :

Eins og sjest á nefndárálitinu á þgskj. 84, hefir öll nefndin orðið sammála um það að nauðsynlegt sje, að landsstjórnin hafi sjer við hönd menn, sem ákveðið geti vöruverð, ef nauðsyn krefur á þessum ófriðartímum. Nefndin býst við því, að nefnd sú, sem skipuð var í þessu skyni í október, í fyrra, hafi gjört töluvert gagn, og er það eiginlega augljóst þegar af því, að henni hefir þótt þess þörf, að halda niðri verði á vissum vörum. En þess ber að gæta, að slík nefnd verður að geta fylgst vel með og gripið í taumana með snarræði, því annars er hætt við, að ráðstafanir hennar komi ekki fyrr en eftir dúk og disk. Jeg er ekki að segja, að svo hafi verið, en sögur eru þó til um það, að vissar ráðstafanir, sem hún gjörði til verðlækkunar á vöru, hafi eigi komið til framkvæmda, .fyrr en mikið var upp gengið af vörunni, sem um var að ræða. Það gefur og að skilja, að örðugt muni vera fyrir slíka nefnd, að komast í Samband við alt landið, þegar hún situr hjer í Reykjavík. Hún þyrfti að hafa í samvinnu við sig áreiðanlega menn út um alt land, sem hún gæti náð til í síma, því að skriftir stjórnarvaldaleiðina ganga of seint, þegar svo stendur á.

Þingnefndin þykist nú vita það, að verðlagsnefndin muni yfirleitt hafa gjört það sem hún gat, til þess að kynna sjer vöruverð. Og svo er vandi að sigla hjer milli skers og báru, því það er áríðandi, að ráðstafanir slíkra nefnda hefti sem minst samkepnina. Í það verður ætíð að fara varlega; það er þingnefndinni einkar ljóst, og það veit hún, að verðlaganefndin hefir gjört. Að vísu hefir þótt bóla á því, að almenningur hafi haft það álit, að lítið þýddi að setja ákveðið vöruverð, af því að seljendur hafa víðast hvar fylgt hámarkinu, eða því sem næst. En þrátt fyrir þetta er hins vegar ekki gott að segja, hve hátt sumar vörutegundir gætu hafa stigið, ef engin nefnd hefði verið til að taka í taumana, og því er það mikið vissara að hafa slíka nefnd framvegis. Menn þurfa að vita af henni, vita að hún sje til.

Það liggur nú í augum uppi, að það er hægra fyrir svona nefnd að ákveða verðlag á útlendri vöru en innlendri, ef þess skyldi þurfa, og því eru sumir nefndarmenn í vafa um það, hvort verðlagsnefndin gæti sett verðlag á innlendar vörur. Það yrði vandi, og eins og sagt er í nefndarálitinu, þá er nefndin þeirrar skoðunar, að ekki geti komið til mála, að lækka verð á innlendri vöru, sem gengur kaupum og sölum í landinu; frá því sem hún gengur í útlöndum, að minsta kosti ekki aðalútflutningsvörum landsmanna; á meðan ekki þarf vegna matvælaskorts að banna útflutning á þeim. Það er hægt að búast við því; eftir hljóðinu, sem nú er í bæjum og þorpum, að ef við höfum verðlagsnefnd og gefið er í skyn, að ákveða megi verðlag á innlendri vöru, þá muni verða hrópað til hennar, ef kjöt t. d. selst á 45–50 aura pundið erlendis, og sagt sem svo: Nú skuluð þið setja hámark á kjötverðið, og það er hæfilegt, að það verði eina og það var í fyrra. Þetta má auðvitað ekki eiga sjer stað. (Skúli Thoroddsen: Því má það ekki?) Það er meiningarlaust að setja hömlur á verð á innlendri vöru, nema á sama hátt og á hinni útlendu. Ef seljandi setur gegndarlaust verð á vöru, miðað við það, sem fyrir hana fæst í útlöndum, eða það, sem hún er keypt fyrir þaðan, þá verður að setja ákveðið hámark, sem ekki má fara upp fyrir. En í hinu tilfellinu, hvað snertir útflutningsvörur, þá verða framleiðendur að sætta sig við það, þegar þær lækka í verði, og eins verða aðrir að sætta sig við það, þegar þær hækka. Menn vita ekki heldur; hve lengi sú hækkun kann að standa. Það er ekki einu sinni víst, að hún haldist til hausts, þetta er alt á svo hverfanda hveli. Um þetta er nú einn af oss nefndarmönnum að vísu á nokkuð annari skoðun en við hinir, og býst jeg við að hann lýsi henni.

Ef til þess skyldi koma; að ákveða þyrfti verð á innlendri vöru; þá ættu þar að vera með í verki að minsta kosti tveir menn úr framleiðenda hóp, sem kunnugir væru öllum málavöxtum. Það er ekki svo að skilja að þeim þyrfti að bæta við nefndina beinlínis, og get jeg þessa af því, að menn út um land gætu haldið, að hjer væri verið að fara fram á eitthvað, sem kostaði einhver ósköp. Jeg skal í því sambandi taka það fram, að nefndin í þessu máli hefir gjört fyrirspurn til stjórnarinnar um kostnað við verðlagsnefndina og fengið það svar, að hann hafi alls orðið 300 kr., og hafa kr. 246;86 af því gengið í símagjöld og þess háttar, en kr. 55,14 eru enn í sjóði. Á laun hefir aldrei verið minst. Af þessu geta menn nú sjeð, að þessi nefnd hefir ekki orðið kostnaðarsöm, og þótt ekki sje við því að búast, ef til vill, að þessi væntanlega nefnd geti unnið fyrir ekki neitt árum saman, þá yrði kaup hennar aldrei fúlga, sem gjörði svo mikið til eða frá, að fælast þyrfti menn frá henni þess vegna:

Að þessu öllu athuguðu leyfi jeg mjer að leggja það til, að frumvarpið verði samþykt með þeim formála, sem nefndin hefir haft í áliti sínu.