12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

59. mál, vélstjóraskóli í Reykjavík

Guðmundur Eggerz:

Háttv. þm: Dal. (B. J.) er búinn að taka það fram, sem jeg ætlaði að segja. Jeg kæri mig ekkert um, að Alþingi eða stjórnin fari að gjöra ráðstafanir til þess, að íslenskir vjelstjórar geti fengið atvinnu í Danmörku. Jeg vildi miklu heldur að þeir fengju atvinnu í einhverju öðru landi. Það getur verið, að þetta særi danskar tilfinningar háttv. framsm. (M. Ó.). Ef Íslendingar vilja endilega fara til Danmerkur að afloknu vjelfræðiprófi, ættu þeir hæglega að geta fengið sjer tilsögn í dönsku, án þess að þeim sje gjört að skyldu að læra dönsku í skólanum.

Háttv. framsm. gæti sjálfsagt tekið að sjer að kenna þeim að babla nóg til þess, að geta fleytt sjer í »sjóara«-málinu. Jeg er annars hissa á þessu uppþoti í deildinni út af jafn meinlausri tillögu og þessi tillaga mín er. Og jeg sje ekki hvað það kemur þessu máli við, sem háttv. framsm. (M. Ó.) sagði, að jeg hefði ekki getað orðið lögfræðingur, ef jeg hefði ekki kunnað dönsku. Það er þó spor í íslenskuáttina, að nú er hægt að taka próf í lögfræði á íslensku, án þess að þurfa til þess að kunna eitt orð í dönsku. Annars skal jeg taka það fram út af þessu, að þegar háttv. framsögumaður (M. Ó.) sá tillögu mína, blánaði hann og þrútnaði af reiði, og sagði að það væri tilgangur minn, að setja á sig danskan stimpil. Úr því að gjört er ráð fyrir að kenna ensku líka, þótti mjer það nóg. En ef endilega ætti að kenna eitthvert annað tungumál en ensku, þá vildi jeg alveg eins, að það væri franska eða þýska, eins og danska. Jeg leyfi mjer að óska, að nafnakall verði haft um tillöguna, fyrst þessi þytur hefir verið gjörður út af henni.