04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Finnbogason :

Jeg á eina breytingartillögu við þenna kafla og vil nú mæla með henni. Hún er á þgskj. 741 og fer fer fram á að. veittar verði 14000 kr. til þokulúðurs á Dalatanga, gegn því, að annarsstaðar að komi það, sem á vantar. Háttvirtir þm. Norðmýlinga hafa hreyft þessu máli við fjárlaganefndirnar, en þær hafa ekki tekið það upp, hvernig sem á því stendur, og háttv. Nd. hefir ekkert sint því. Jeg hefi því leyft mjer að koma málinu á framfæri hjer í þeirri von, að háttv. Ed. taki því betur en háttv. Nd.

Öllum er kunnugt, að hvergi eru tíðari þokur hjer við land en við Austurland. Hitt er og kunnugt, að sigling er mikil fyrir Austurlandi, fiskimið ágæt og hafnir enn betri, ef þær finnast fyrir þoku. En ekki er það sjaldgæft, að skip nái ekki til hafnar þar, en verða að láta reka á reiða tímum saman — vegna þoku. Enginn vafi er á því, að full þörf er á þokulúðri austanlands.

Jafnframt vil jeg benda á það, að vitaumsjónarmaðurinn hefir ótvírætt látið í ljós þá skoðun, að fyrsti þokulúður á Íslandi eigi að rjettu að koma á Dalatanga. Þessu til sönnunar get jeg að eins vísað til skjala þeirra, er liggja fyrir þinginu um málið.

Vitaumsjónarmaðurinn hefir gjört áætlun um, að þokulúðurinn muni kosta um 20000 kr. Auðvitað er hún ekki nákvæm, og getur lúðurinn vel kostað eitthvað talsvert meira — en naumast minna, því sjaldan kosta fyrirtækin minna en áætlað er. Sje miðað við þessa áætlun, má ætla, að sveitarfjelögin, sem hlut eiga að máli og boðið hafa fje til lúðursins, verði að leggja fram þriðjung eða meira. Og jeg þykist viss um að þau gjöri það meðánægju. Svo mjög óska menn eftir lúðrinum.

Jafnframt vil jeg leggja áherslu á það, að sú regla er heppileg og heillavænleg, að leggja fje úr landssjóði móti fje frá þeim, sem vilja koma á fót hjá sjer einhverju þarfafyrirtæki. Og því meiri ástæða er til þess fyrir landssjóð að gjöra þetta, sem hann varðar málið meira, en hlutaðeigandi fjelög minna. Nú eru vitar vitanlega landsfyrirtæki, og ætti þingið því að taka tveim höndum tilboði sveitarfjelaga um að hjálpa til að koma því í framkvæmd. Ekki er víst að svo vel verði eftir boðið, ef landið notar ekki tækifærið nú til að þiggja þá hjálp, sem boðin er til að koma upp þessum þokulúðri.

Enn vil jeg benda á það, að ekki er ætlast til að verkið verði framkvæmt, nema nægilegt fje sje fyrir hendi í landssjóði; vona jeg því að háttv. deild samþykki þessa tillögu mína hljóðalaust.

Svo vil jeg fara fáum orðum um brtt. háttv, nefndar við 4. gr. fjárlagafrumvarpsins. Þar leggur háttv. nefnd til, að feld verði 1500 kr. upphæð, sem háttv. Nd. hefir samþykt og á að vera uppgjöf símalána til Búðahrepps í Suður-Múlasýslu.

Fyrir þinginu liggja skjöl um þetta mál. Og með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp örfá orð úr brjefi símastjórans um það. Honum farast svo orð :

„Eftir því, sem mjer er kunnugt, hefir Búðahreppur lagt hlutfallslega mest af öllum hreppum til talsímasambands, og er því — einnig þar sem línan nú verður framlengd til Hornafjarðar — nokkur ástæða til að koma tillagi þessa hrepps í hlutfall við tillög þau, sem á seinni árum hefir verið krafist við svipaðar kringumstæður.

Jeg skal því leyfa mjer að mæla með því, að af nefndri skuld verði gefið eftir alt að 2000 kr. . . .“

Þetta virðist mjer sanngjarnlega mælt og með öllu rjett.

Nú hefir þó háttv. Nd. að eins viljað gefa upp 1500 kr. En nefndin hjer vill ekkert gefa upp. Lengi getur því versnað.

Vænti jeg þess, að háttv. þingdeildarmenn — utan nefndar — verði henni betri í þessu máli og felli því breytingartillöguna.

Jeg skal svo ekki tefja deildina lengur að sinni. Vil að eins minna háttv. þingdeildarmenn á að samþykkja þokulúðurinn á Dalatanga, um leið og jeg sest niður.