21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

30. mál, vörutollaframlenging

Matthías Ólafsson :

Jeg er samdóma síðasta hv. ræðumanni (P. J.) um, að beinu skattarnir sjeu nauðsynlegir og æskilegir. En jeg gjörði það ekki að ágreiningsatriði í nefndinni, sökum þess, að jeg vildi ekki valda ruglingi á nefndarstörfum. Tel jeg verðtollinn betri, en færi ekki frekar rök að því nú, því jeg býst við að fá tækifæri til þess, að rökstyðja mál mitt betur síðar. Sá jeg ekki færi á að taka fyrir verðtollinn nú, en vil koma í veg fyrir, að slegið verði föstu um aldur og æfi að vörutollurinn eigi að haldast. Svo er og sú ástæða, að allar vörur eru nú í geypiverði, og tíminn þess vegna að mjer finst sjerlega óhentugur til þess, að leggja mjög hátt gjald á neytsluvörur landsmanna. Tel jeg annars þarflaust að fara fleiri orðum um verðtollinn í þetta sinn, vegna þess, að jeg mun á sínum tíma tala rækilegar um hana: Jeg vil annars geta þess, áður en jeg setst niður, að jeg skil ekki hvers vegna á að fjölga mönnum í nefndinni, sem um þetta mál fjallar, því jeg fæ ekki skilið annað en að 5 menn geti þar unnið eins mikið og sjö.