21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

30. mál, vörutollaframlenging

Bjarni Jónsson :

Málshátturinn gamli: »Svo bregðast krosstrje sem önnur trje«, datt mjer í hug, er jeg heyrði hv. þm. S.-Þing. (P. J.) tala, og lýsa yfir því, að hann vildi ekki styðja verðtoll á þessu þingi. Reyndar er þetta ekki í fyrsta sinni, sem jeg verð fyrir vonbrigðum, að því er framkomu manns snertir, í ýmsum málum, en þá þykir mjer slíkt ætíð leitt. Þó gladdi það mig að þeir háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) og V.-Ísf. (M. Ó.) lýstu yfir því, að þeir væru fylgjandi þessari stefnu. En mjer finst einkennilegt, að þeir skuli ekki treysta sjer til þess, að koma málinu í framkvæmd á þessu þingi. Nú er þó skamt liðið á þingtímann, og finst mjer einnig sem meir ríði á því, að vanda sig sem best en að geysast sem harðast, enda er enginn sem segir: »Flýttu þjer«. Efast jeg ekki um, ef þingmenn vildu leita sjer upplýsinga um málið, þá gæti þetta þing gengið svo frá því, að vel mætti við una. Kemur þar til hjálpar, að þingið 1912 bjó svo vel í hendurnar á þessu þingi, að ekki þarf að taka langan tíma fyrir háttv. þingmenn, að kynna sjer málið til fulls. Og ekki treysti jeg stjórninni neitt betur til þess, að ganga vel frá frumvarpinu heldur en Alþingi. Jeg skal og geta þess, að mjer finst sem einnig mætti fara þá leið, að samþykkja bæði frumvörpin á þessu þingi. Mætti þá útbúa það þannig, að verðtollurinn kæmi þá er vörutollurinn gengi úr gildi. (Hannes Hafstein: »Den Tid den Sorg«). Já, hverjum degi nægir sín þjáning, myndi háttv., þingmaður viljað hafa sagt. Það er nú svo, en óvíst tel jeg þó, að betra sje að geyma þau vandaverk til morguns, sem hægt er að gjöra í dag. Annars veit jeg að háttv. þm. (H. H.) á eftir að bæta fyrir gjörðir sínar í þessu máli 1912, er hann lagði á móti því frumvarpi, sem í raun og veru var honum miklu kærara, en með því, sem hann hafði skammað allra manna mest. (Hannes Hafstein: Þetta er ekki satt). Jú, það er áreiðanlegt. (Hannes Hafstein: Nei). Jú, það er nú satt samt.

Jeg hefi annars heyrt, að mjer hafi verið bætt í nefndina fyrir hæversku sakir, og er jeg þakklátur fyrir, enda skal jeg lofa því; að verða þeim ekki alt of þungur í skauti.