21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

30. mál, vörutollaframlenging

Magnús Kristjánsson :

Þegar verðtollsfrumv. var á ferðinni, þá lýsti jeg skoðun minni á því, og jafnframt á þessu máli, og vil ekki endurtaka það nú, sem jeg þá sagði. Jeg stend upp í þetta skifti mest til þess, að gjöra grein fyrir atkvæði mínu. Má það vel vera að ýmsum háttv. þingmönnum þyki undarleg afstaða mín til málsins. Það er í stuttu máli að segja, að jeg er mótfallinn vörutollslögunum, eina og þau eru nú. Sjerstaklega álít jeg flokkun vörunnar óhafandi, og með þeim ýmsar skyldur lagðar mönnum á herðar, sem þeir alls ekki ættu að bera; t. d. er það nálega ómögulegt fyrir skipstjóra að fullnægja skilyrðum laganna með slíku fyrirkomulagi; uppskipun getur naumlega átt sjer stað tafarlauat á sumum stöðum, nema með því móti, annaðhvort að tollur sje greiddur fyrirfram, eða þá að skipstjórar taki á sig ábyrgð á greiðslunni. Þetta óeðlilega fyrirkomulag m. fl., gjörir það að verkum, að jeg get tæpast greitt atkvæði með því, að það haldist. Á hinn bóginn sje jeg ekki að hægt sje, að kippa þessu í burtu, nema með því, að nema lögin úr gildi og setja annað í staðinn, og lægi þá að sjálfsögðu næst að taka upp verðtollinn. En þar sem jeg sje fram á, að það muni verða felt, þá hefi jeg ásett mjer að greiða ekki atkvæði um framlengingu vörutollalaganna að þessu sinni, í þeirri von að eitthvað betra megi finna, sem geti komið í þeirra stað.