21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

30. mál, vörutollaframlenging

Björn Kristjánsson:

Jeg bjóst nú ekki við, að þurfa að standa upp í þetta sinn, þar eð jeg bjóst við að umræðum um þetta yrði frestað, uns hitt frv. um verðtoll kæmi á dagskrá. En jeg vil taka það fram, að jeg mun leggja á móti því, að verðtollsstefnan verði ofan á og nái fram að ganga í staðinn fyrir vörutollsstefnuna. Jeg læt mjer ekki ant um að færa ástæðu nú frekar fyrir máli mínu, vegna þess, að jeg býst við, að fá tækifæri til þess að skrifa rækilegt nefndarálit um þetta á sínum tíma, svo að háttv. þingmenn geti gjört sjer það ljóst, að ekki er hægt að koma hinni stefnunni við, og hún því óframkvæmanleg á þessu landi, og hætt við að hún myndi af sjer leiða ýmiskonar siðspilling.

En um vörutollslögin er það að segja, að jeg hygg að allir lögreglustjórar munu vera mjer samdóma í því, að eftir þeim muni kaupmenn eiga afarerfitt með að smeygja sjer undan tollgreiðslu. Með hinu mótinu yrði afarauðvelt að koma sjer hjá tollgreiðslu.

Það eitt út af fyrir sig, að innheimtum. á að byggja tollinnheimtuna á innkaupareikningum kaupmanna, gjörir þessa tollálöguleið alveg óaðgengilega. Það mætti þá úr því lögheimila, að menn alment megi opna annara manna brjef. Það er helgur rjettur kaupmanna, að fá að halda sínum verslunarsamböndum út af fyrir sig, enda er slíkt nauðsynlegt, og skil jeg ekki í því, að háttv. þingmenn ljái því fylgi sitt, að raska þessari friðhelgi verslunarbrjefa. Loks er og það, að verðtollur verður ætíð mismunandi hár árlega, eftir því sem varan stendur eða fellur, og því ekki hægt að gjöra um hann ábyggilega áætlun. Það er því ekkert rjettlæti, að leggja ákveðið gjald, 3%, á vöruna, því ekki er heldur hægt að fá neina vissu fyrir því, að kaupmenn leggi tollinn á vöruna samkvæmt lögunum, 3%. Þeir munu leggja tollinn á eftir geðþótta og eftir því, sem samkeppnin heimtar, á sumar vörur engan toll, á aðrar miklu hærri toll en lögin ætlast til o. s. frv.

Alt annað mál er að leggja á einhverja beina skatta, því að það er framkvæmanlegt, þó að vísu sjeu margar lykkjur á þeirri leið, uns svo langt sje komið, að verulega fari að muna um þær tekjur. Mjög mikill vafi er á því, hvort rjett væri að taka landssjóðstekjur með beinum sköttum. Mjer er kunnugt um, að sum önnur lönd sneiða hjá því, t. d. Canada. Kunnugur maður þeim efnum hefir sagt mjer, að þar fái landssjóður allar sínar tekjum með óbeinum sköttum. Það hefir verið talað um, að óbeinu skattarnir væru afar dýrir, að kaupmenn legðu svo mikið á tollinn, en slíkt er fjarstæða, enda geta hv. þm. kynt sjer það, þótt ekki væri nema með því að lesa blaðaauglýsingar. Geta þeir á þeim sjeð, hvort tollvörur eru ódýrt seldar. Þeir leggja vanalega lítið á tollvöruna, og þá ekkert á tollinn. Er það sökum þess, að oft er þeim gefinn frestun á tollgreiðslunni og að þeir því oft eru búnir að selja vöruna áður en þeir hafa borgað tollinn.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um málið að sinni. En í nefndinni mun jeg gjöra grein fyrir skoðun minni á hinum ýmsu tollleiðum, fasteignatollinum, vörutollinum og verðtollinum. Jeg vona að hv. deild velji síðan þá leiðina, sem þjóðinni er hollust, þá leiðina, að tekjurnar komi sem beinas í landsjóð, án þess að siðspilla kaupmannastjett landsins.