21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

30. mál, vörutollaframlenging

Eggert Pálsson:

Jeg hafði ekki búist við miklum umræðum um þetta mál, á þessu stigi þess, sjerstaklega vegna þess, að frumvarpið um verðtollinn liggur alls ekki fyrir enn, og hefir ekki verið athugað í næði til hlítar. Jeg bjóst við því, að umræður manna um það, hvorri tollstefnunni þeir fylgja fremur, myndi bíða að minsta kosti 3. umræðu þessa máls, þegar verðtollsfrv. lægi jafnframt fyrir deildinni. Þá hafði jeg því hugsað mjer að gjöra grein fyrir stefnu minni í þessu máli, líkt og aðrir.

Að því er snertir beinu og óbeinu skattana, þá hefi jeg áður látið það uppi hjer á Alþingi, að jeg hallast meira að óbeinu sköttunum en þeim beinu, og það af gildum og góðum ástæðum. Vjer vitum það allir, þegar um gjöld er að ræða, þá er það ávalt viðkvæmt mál fyrir gjaldendur, hvernig sem gjöldunum er fyrir komið. En reynslan sýnir það tvímælalaust, að menn finna miklu sárar til þess, sem þeir þurfa að gjalda beint heldur en óbeint, og þeir geta meira eða minna lagt á sig sjálfir eftir eigin geðþótta. Allir kannast t. d. við þá almennu skoðun hjer á landi, að í Ameríku sjeu engin gjöld; þar sje ekki verið, eins og hjer, að knýja menn og pína með sköttum, þó það ætti öllum að vera vitanlegt, að þar er ekki síður goldið til almennra þarfa en hjer. En þar eru allir, eða því sem næst allir, skattar óbeinir en ekki beinir. Það er sem gjörir allan mismuninn. Fyrir þær sakir hefir Ameríka staðið og stendur enn í meðvitund fólksina sem frelsisins land gagnvart þeim löndum eða þjóðfjelögum, sem byggja meira á hinu beina skattafyrirkomulagi. Beinu skattarnir eru og verða mönnum ávalt sárastir þyrnar í augum. Og þess vegna hallast jeg fremur að óbeinu sköttunum, að jeg tel rjett, að fara þá leiðina, sem vinsælli er í þessum efnum.

Það er nú sýnt, að hjer verður ekki undan því komist, að samþykkja það frumvarp, sem hjer liggur fyrir, eða þá annars kostar að samþykkja eitthvað nýtt í þess stað. En væri nú að því ráði horfið, að breyta til, þá mundi verðtollurinn að sjálfsögðu koma fyrst af öllu til greina. Jeg verð nú að segja fyrir mitt leyti, að þar sem jeg hefi alt af hallast fremur að verðtolli, þá þykir mjer ilt að greiða atkvæði með þessu frumvarpi, vörutollsfrumvarpinu, meðan jeg veit ekki hvort verðtollsfrv. verður felt, eða ekki. Mjer þykir leitt að binda atkvæði mitt þannig fyrirfram. Jeg hefði því fremur kosið, að verðtollshv. hefði komið til atkvæða á undan þessu frumv., svo að hægt hefði verið að sjá afdrif þess, áður en þetta frv. kom til atkvæða, því ef verðtollsfrumv. hefði ekki náð samþykki deildarinnar, þá hefði jeg með fúsu geði getað greitt þessu frumv. atkvæði mitt, til þess að landsjóður lenti ekki í vandræðum af fjárskorti, heldur en nú á meðan jeg veit verðtollsfrv. verandi á lífi.

Annars tel jeg rjett, að við þessa umræðu verði það látið koma skýrt fram, hvorri stefnunni menn vilja heldur hallast að, í framtíðinni, verðtollinum eða vörutollinum. Það er leitt, að þurfa að vera að burðast með þetta mál á hverju þinginu eftir annað. Nú er farið fram á, að framlengja vörutollslögin til ársloka 1917. Má svo búast við því sama á næsta fjárlagaþingi, og svo koll af kolli. Þetta er mjög óheppilegt. Jeg tel miklu rjettara, að menn reyni að komast að fastri niðurstöðu í þessu máli, svo að ekki þurfi að miða þessi tollalög við hvert fjárhagstímabil út af fyrir sig og syngja sama sönginn á hverju þinginn eftir annað.

Þar sem sakir standa þannig, sem jeg hefi lýst, þá mun jeg helst kjósa að fylgja dæmi háttv. þm. Ak. (M. K.), að greiða ekki atkvæði um málið að svo stöddu, en bíða þangað til jeg hefi sjeð, hvað nefndin leggur til að gjört verði við verðtollafrv., bæði meiri og minni hluti hennar, því fyrir klofningi sýnist nú þegar mega gjöra ráð, eftir því sem vindurinn hefir við þessa umræðu blásið.