19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

26. mál, mat á lóðum og löndum í Reykjavík

Frsmsm. (Guðm. Björnson) :

Þetta frv. var borið upp í háttv. Nd. í fyrra, en kom ekki hingað í deildina fyrr en undir þinglok. Nefndin, sem hjer var skipuð í málið, leit svo á, að svo margir gallar væru á frv., að ekki væri tiltækilegt, að samþykkja það, nema með miklum breytingum. Nefndin lagði því til, að vísa málinu til stjórnarinnar, svo að hún gæti undirbúið það sem best fyrir næsta þing, í samráði við bæjarstjórn. Nú hefir málið fengið góðan undirbúning, og hefir bæjarstjórnin tekið til greina allar bendingar, sem gefnar voru hjer í deildinni í fyrra, nema eina. Bæjarstjórnin vill ekki fallast á yfirmat, en nefndin hlýtur að halda fast fram þeirri skoðun, að yfirmat sje nauðsynlegt, því að oft geta verið mjög deildar meiningar um verðmæti þeirra eigna, sem um er að ræða. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþykt, en að bætt verði við það einni grein um yfirmat.