03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

51. mál, sparisjóðir

Framsögum. (Guðm. Hannesson:

Jeg get verið stuttorður um þetta mál. Jeg býst við, að skoðanir manna á aðalatriðum þessa frumv. sjeu þegar ákveðnar, svo að löng ræða hafi ekki mikla þýðingu.

Samkomulagið í nefndinni hefir eins og fyrri reynst afar bágborið. Nefndin hefir klofnað í þrent, þrátt fyrir allar samkomulagstilraunir.

Fyrir okkur háttv. l. þm. N.-Múl. (B. H.) vakti það aðallega, að ólíklegt væri, eftir allar stælurnar um þetta mál á seinasta þingi, að frv., sem viki í nokkru verulegu atriði frá því, sem samkomulag varð að lokum um á seinasta þingi, næði nú fram að ganga. Þetta er því ólíklegra, þar sem allir þm. eru þeir sömu og í fyrra. Breytingar þær, er við viljum gjöra, eru litlar, snerta engin aðalatriði, en eru þó að okkar áliti til bóta. Í fyrra virtist samkomulag um það, að eitthvert eftirlit yrði að vera með sjóðunum, og skyldi stjórnarráðið láta athuga nokkra þeirra árlega. Þetta ákvæði virtist okkur nokkuð ónákvæmt og höfum við því stungið upp á því, að stjórnarráðið skyldi láta athuga alt að 5 sjóði árlega. Aðalatriðið er auðvitað það, að allir sparisjóðir geta búist við eftirliti á hvaða tíma sem er. Auk þessa aðhalds að sparisjóðsstjórnendum, þá gefur þetta jafnframt þeim mönnum, sem óánægðir kynnu að vera með stjórn einhvers sparisjóðs, tækifæri til þess að fá málið athugað, með því að gefa stjórnarráðinu vísbendingu í þá átt.

Þá er eitt atriði í frumvarpi stjórnarinnar, sem jeg get ekki skilið, að verði til bóta. Það er ákvæðið um að varasjóður sje hafður í verðbrjefum. Í fyrsta lagi er það nokkuð teygjanlegt, hvað liggur í orðinu verðbrjef, og enn fremur er reynsla fengin fyrir því ytra, að sjóðirnir hafa oft beðið svo mikið tjón af því, að hafa varasjóð sinn í verðbrjefum, að þeir hafa verið neyddir til að stofna sjerstaka varasjóði, til þess að bæta upp tjónið af »kurs«-falli verðbrjefanna. Hjer á landi er heldur ekki hægt að búast við því, að fljótfært sje að koma verðbrjefunum í handbært fje. Jeg hygg því, að það mundi reynast heppilegra, að leggja fjeð inn á innlánsskírteini, svo að hægt sje að losa það, þegar þörf gjörist, miðað við venjulegar inn- og útborganir.

Jeg ætla ekki að tala mikið um hin nefndarálitin, sem fram hafa komið. Að eins skal jeg geta þess viðvíkjandi brtt. á þgskj. 155, að jeg taldi það í fyrra vafalaust, að minni hætta væri á því, að litlu sparisjóðirnir þyrftu eins eftirlits með og hinir stærri. Þess vegna vildi jeg þá takmarka eftirlitið, svo að það næði að eins til þeirra sjóða einna, er næmu 100 þús. kr. eða meira. Jeg býst nú við, að jeg líti eins á þetta mál nú. Þó hefi jeg nýlega lesið um það í útlendu tímariti, að við rannsókn á enskum sparisjóðum hafi það komið í ljós, að þörfin hefði reynst talsvert meiri á því, að rannsaka hina smærri sjóði. En raunar býst jeg ekki við, að þessi niðurstaða hafi mikla þýðingu fyrir íslenska sparisjóði, vegna þess að útlendir sparisjóðir hafa svo margfalt meira fje til umráða, og t. d. ½ miljón kr. sjóður mundi kallaður lítill þar.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á nál. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) á þgskj. 149, þar sem það er talið óvarlegt, að sparisjóðsstjórnendur megi sjálfir taka eða ábyrgjast lán í sínum sparisjóði. Flestum held jeg hafi þó þótt þetta hart, ef þeir setja til tryggingar fasteign með 1. veðrjetti, og það, sem gjörði, að við fjellumst á þetta, var bæði það, að við töldum það hættulaust, þegar svo væri um búið, sem mælt er fyrir í brtt., og eins hitt, að okkur þótti það ósanngjarnt, að stjórnir sparisjóðanna, sem vinna verk sitt í þeirra þarfir fyrir ekki neitt, skuli einar vera alveg útilokaðar frá því, að fá nokkur lán úr þeim.

Hjer rakst jeg á dálítið í þgskj. 149 á bls. 3. Þar er sagt, að sögur berist af einum sjóði, er sagt sje, að sje tæpt staddur. Jeg veit ekki hvað satt er í þessu, og vona að það sje orðum aukið. En mjer datt í hug í þessu sambandi, að vert sje að hugsa út í það, að í löggjöf Frakka er lögð ströng hegning við því, að ófrægja sparisjóði. Og þegar þetta mál liggur nú fyrir hjer þing eftir þing, og það getur ekki orðið án þess, að svona sögur beri á góma, þá virðist það í mesta máta æskilegt, að það gæti lokist á þessu þingi, svo þingið að minsta kosti yrði ekki til þess að ófrægja sparisjóði vora ár eftir ár.