03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

51. mál, sparisjóðir

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi ekki verið svo heppinn, að fá nokkurn af háttv. meðnefndarmönnum mínum með mjer, svo að jeg ræ hjer einn á báti.

Afstaða mín byggist aðallega á því, að jeg vil að sparisjóðirnir leiki við sem lausastan taum. Ef þeir gjöra það, hafa að nokkru leyti bankastörf á hendi, þá leiðir af því, að eftirlitið með þeim þarf jafnframt að vera þeim mun tryggara, en þar álít jeg, að hinir aðrir hlutar nefndarinnar hafi ekki viljað búa nógu vel um hnútana.

Þegar jeg lít á nefndarálit þeirra, þá get jeg ekki sjeð, hver bót ætti að vera að þessu frumv., eins og þeir vilja hafa það, önnur en samræmi í bókfærslu og skjalaformi. Auk þess hafa margir sparisjóðir þegar áður komið á hjá sjer slíkri reglu, svo að breytingin yrði sama sem alls engin frá því, sem nú er.

Annars skal jeg ekki vera langorður um ástæður þeirra. En þar sem þeir segja, að stofnendur sjóðanna sjeu víða á lífi enn, þá er engin trygging í því til frambúðar. Þeir góðu menn deyja áður en langt um líður.

Brtt, við 7. gr. er mjer þyrnir í augum. Áður var það regla, án þess að löggjöf eða landstjórn hefði þar nokkur afskifti af, að stjórnir sparisjóða gætu engin lán fengið úr sínum sjóði, og það er töluverð trygging í þessu. Nú vilja tveir af háttv. meðnefndarmönnum mínum leyfa sparisjóðastjórnendum þetta, ef þeir geta fengið 2/3 hluta viðstaddra atkvæða með því og sett bara eitthvert fasteignarveð fyrir láninu, en sjálf á stjórnin að ákveða, hvernig veðið er. Það sjá allir, að þetta gefur betra tækifæri en áður var, til þess að koma við fjárglæfrum. Setjum nú svo, að ábyrgðarmenn einhvers sparisjóðs sjeu 21 að að tölu, og 14 af þeim mæti á aðalfundi. Ef stjórnin fær nú 8 af þeim til þess að heimila sjer lántöku, þá getur hún eftir þessu fengið alt handbært fje sjóðsins að láni með samþykki þessa eina rúma þriðja hluta ábyrgðarmannanna. Og hugsast gæti það þó, að í ráði væri að nota það fje í talsvert áhættumiklar »spekúlatiónir«. Jeg hefði ef til vill getað fallist á það, að heimila stjórnendum lán, ef það hefði verið takmarkað, hve mikill hluti sjóðsins það mætti vera, og heimtað að allir ábyrgðarmenn samþyktu, eða að minsta kosti 2/3 hlutar, þeirra; þá hefði jeg álitið þetta nokkurn veginn trygt.

En sjerstaklega skiftir þó máli um aðaleftirlitið, sem gjört er ráð fyrir í frumvarpi stjórnarinnar og framkvæma á af hennar hálfu. Jeg tel að það myndi verða stórum mun tryggara með því, að hafa til þess einn vissan mann. Aðrir vilja nú, að stjórnin fái bankafróðan mann til að líta eftir þessum þrem eða fjórum sjóðum, sem eiga 100 þús. kr. og þar yfir. Nú hefir háttv. framsm. þess hluta af nefndinni (G. H.) komist að því, að sú reynsla er fengin erlendis, að litlu sjóðunum er engu síður hætt en hinum stærri, og það er líka eðlilegt. Stærri sjóðirnir hafa ráð á betri mönnum og mega fremur við skakkafalli en hinir. Í nefndaráliti á þgskj. 155 er því haldið fram, að ekki myndi vera mikið varið í ókunnugan mann til þessa starfa. Vitanlega yrði hann ókunnugur þegar hann byrjaði, en með því að þetta yrði föst staða, þá yrði hann það ekki allajafna, nema hann væri þá gjörsamlega óhæfur. Hann yrði einmitt smám saman kunnugri starfsemi sparisjóðanna en nokkur annar maður á landinu.

Um það ráðið, að fá bankamanninn, er það að segja, að óvíst er að hann fáist framvegis. Bankastjórar Landsbankans, sem nú eru, segja jú, en það nær ekki langt fram í tímann. Ef bankastjórarnir eiga að ráða yfir mönnum sínum, þá er ómögulegt að neyða þá til að lána þá, og það er óvíst, að næsta bankastjórn vildi gjöra það. Hún gæti alt eins vel sagt sem svo, að hún hefði nóg að gjöra handa sínum mönnum og vildi alls ekki lána þá. Allra síst er nokkur trygging í þessu fyrir því, að sami maðurinn hefði þá starfann á hendi ár eftir ár.

Jeg legg það til, að þetta frv. sje samþ. eins og það kom frá háttv, stjórn; með þeim breytingum einum, sem er að finna á þgskj. 149. Jeg vil taka það fram, að um þetta mál hafa nú þegar fjallað þrír ráðherrar. Að vísu hefir núverandi hæstv. ráðherra ekki búið það undir þetta þing, en hann hefir þó ekki fundið ástæðu til að kippa umsjónarmanninum burt, þótt hann viti, að rífist hefir verið um það atriði undanfarið, og jeg er honum samdóma um það, að það sje eina heppilega leiðin, og jeg sæi ekki eftir því, þótt laun þessa umsjónarmanns væru hækkuð. En svo jeg tali í alvöru, þá sje jeg ekki betur en 3 þús. kr. ættu að vera nóg. 12 hundruð kr. fast og svo dagpeningar, 5 kr. á dag, þar sem jeg gjöri ráð fyrir; að maðurinn yrði meiri hluta ársins á ferðalagi.

Eitt er það, sem báðir háttv. meiri hlutar virðast hafa gleymt, og það er það, að þótt maðurinn væri fenginn til láns hjá banka, þá myndi hann eins fyrir því kosta eitthvað að öllu sjálfráðu, og það er hvergi tekið fram, að stjórnin megi verja neinu fje í þessu skyni.

Jeg legg nú þetta mál undir háttv. deild og vona, að hún sje búin að sjá það, eftir alt þetta þref, að annað hvort tjáir ekki að tefja tímann lengur með þessu, eða þá að það verður að samþykkja frumvarpið sem næst því, sem hæstv. stjórn hefir frá því gengið.