12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

47. mál, atvinna við siglingar

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og sjest af nefndarálitinu á þgskj. 265 og brtt. nefndarinnar á þgskj. 266, hefi nefndin leyft sjer að koma fram með allmerkar formbreytingar við frv., en engar efnisbreytingar. Nefndin taldi frumv. ekki vel fram sett, og leggur því til, að skifta því í flokka, og urðu því tilvitnanir að breytast. Hefi jeg svo ekki meira um þetta að segja, en vona, að menn skilji tillögurnar og geti áttað sig á þessu. En því verð jeg þó við að bæta, að komin er fram brtt á þgskj. 278, og er hún úr hörðustu átt, sem sje frá formanni nefndarinnar (G. E.), og hafði hann raunar skrifað undir nál. með fyrirvara. Þar er lagt til, að fella úr 2. gr. frv., sem jeg með leyfi hæstv. forseta skal leyfa mjer að lesa upp. Hann hljóðar svo :

»Rjett til að vera formaður á íslenskum vjelbát eða þilskipi, 6–12 lestir að stærð, hefir sá einn, sem leggur fram vottorð frá siglingafróðum manni, tilnefndum af yfirvaldi, um það:

a. Að hann þekki á áttavita.

b. Að hann þekki alþjóðareglur til að forðast ásiglingar:

Svo skal hann og sanna með vottorði læknis, að sjón hans sje ekki sjerstaklega áfátt, samkvæmt reglum, er stjórnarráðið setur.

Gegn þessum vottorðum fær hann skírteini frá yfirvaldi, er veitir honum rjett til að vera formaður á vjelbát eða þilskipi, 6–12 lestir á stærð.

Fyrir skírteini þetta greiðist ein króna, er greiðist í landssjóð«.

Menn hafa þá heyrt, hverjar kröfur eru gjörðar samkvæmt frv., til þeirra manna, sem trúað er fyrir 5–10 þús. kr. fjárhæð, og 4–6 mannslífum. Og þessi skilyrði vill nú háttv. 2. þm. S.- Múl. (G. E.) fella niður. Mjer er óskiljanlegt, hvernig menn, sem ráða vilja bót á slysförum, fara að koma með brtt. eins og þessa. Þetta eru þær allravægustu kröfur, sem hægt er að gjöra. Og mjer er sagt af sýslumanninnm í Vestmannaeyjasýslu, að þar fái enginn bátur að fara á sjó, nema formaðurinn fullnægi þessum kröfum.

Formaður nefndarinnar óttast, að ekki væri hægt að fá formenn á bátana, og að þeir yrðu að standa uppi, ef þessar kröfur væru svo strangar. Vjer nefndarmenn vorum þó að reyna að koma honum í skilning um, að vel geti hver maður lært það, sem hjer er heimtað, á einum degi, svo framarlega sem hann hefði ekki verið fermdur upp á stóra stýlinn í Balle, fræðin eða Faðir-vorið.

Sama athugasemd kom fram frá hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að hann bjóst við, að örðugleikar yrðu á því, að gjöra út báta um Ísafjarðardjúp. En svo hefir sagt mjer gagnkunnugur maður, sonur hans, Skúli S. Thoroddsen, að á þessu mundu engin vandkvæði verða.

Eins er það, að engir erfiðleikar ættu að vera á því, að fá vottorð, því að hvergi mun þurfa að fara lengra en hálfa dagleið eða svo, til þess að ná til siglingafróðs manns. Siglingafróðir eru menn kallaðir, þótt ekki hafi tekið próf. Fróðir eru kallaðir í daglegu tali menn, þótt ekki hafi próf tekið, t. d. ættfræðingar.

Meira hefi jeg ekki að segja, fyrr en tillögumaður hefir skýrt frá, hvað hann meinar.