17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Framsögum. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Áður en jeg fer að tala í málinu, vil jeg benda deildarmönnum á, að nokkrar villur hafa slæðst inn í þingskjal það í þessu máli, er útbýtt hefir verið hjer í deildinni; nokkrar af öftustu tölunum eru ekki rjettar, en leiðust er prentvillan »seglaútgáfa« í stað »seðlaútgáfa«.

Eins og háttvirt deild veit, þá hefir nefndin klofnað í tvent. Vill annar hlutinn veita ½ miljón króna, en hinn heila miljón. Íslandsbanki telur sig eiga rjettarkröfu til að gefa út svo mikla seðla, sem hann þarf, en meiri hlutinn lítur svo á, að hann hafi ekki rjett til að gefa út meiri seðla en 2½ miljón. Nú hefir Íslandsbanki rjett til að gefa út ákveðna upphæð í 30 ár, og þó ákveðið sje, að enginn megi gefa út gjaldmiðil á þessum tíma, nema Íslandsbanki, þá felst ekki í því nein skuldbinding um að veita honum aukinn seðlaútgáfurjett; því fer svo fjarri, og er það því algjört samningsmál.

Eins og menn muna, eru nú liðin 11 ár síðan seðlaútgáfurjetturinn var veittur, og reynslan hefir sýnt, að lögunum um stofnun Íslandsbanka er í mörgu óbótavant, því að lögin voru gjörð alt of einhliða. Venjulega eru lagðar kvaðir á þá banka, er hafa safa seðlaútgáfurjett, en í stofnlögum Íslandsbanka er engin skuldbinding lögð á bankann um það, að veita landssjóði t. d. neitt lán, eins og flestir aðrir seðlabankar verða þó að gjöra. Stjórnin verður því háð bankanum, í staðinn fyrir að bankinn ætti að vera háður henni. Það er venja með alla seðlabanka, að landsstjórnin skipi æðstu stöðurnar, og auk þess nýtur ríkið ýmissa hlunninda; eru þau hlunnindi oft fólgin í því, að bankinn láni ríkinu fje fyrir lægri vexti en hana tekur af öðrum lánum. Það er reyndar ákveðið, að bankinn borgi dálítinn skatt, en það munar minst um hann. Og þegar nú Íslandsbanki biður um rjett, sem hann á enga kröfu til, þú finst mjer sjálfsagt, að þing og stjórn gjöri kröfur í móti. Jeg ætla að nefna nokkrar af þeim kvöðum, sem hvíla á helstu seðlabönkum í Evrópu. Englandsbanki t. d. verður að lána ríkinu jafnmikið og seðlaútgáfurjetturinn nemur fyrir 2½%. Frakklandsbanki verður að lána ríkinu 180 miljónir franka, sem ekki eru afturkræfar á meðan seðlaútgáfurjetturinn stendur. Ríkisbankinn þýski verður að annast alla reikningsfærslu fyrir landið. Austurríkis- og Ungverjalandsbanki verður að lána landinu 60 miljónir marka rentulaust. Ítalíubanki er skyldugur að lána ríkinu 150 miljónir líra gegn 1% ársvöxtum. Noregsbanki er skyldur til endurgjaldslaust að hafa á hendi alla reikningsfærslu fyrir landið. Það verður Svíabanki einnig að gjöra, og enn fremur að lána landinu 1½ miljón tryggingarlaust.

Úr þessu þarf nauðsynlega að bæta, auk þess sem heita má, að stjórnin hafi ekkert eftirlit með bankanum.

Af því að ekki hvílir nein slík skyldukvöð á bankanum, er stjórnin svo að segja í vösum bankans. Þetta leiddi til þess, að landið varð að taka dýrt lán (7%) á sama tíma, sem bankinn gat ekki ávaxtað sitt fje nema fyrir 4½–5%. Og eins og jeg hefi áður sagt, er þetta einungis fyrir þá sök, að engin lagaskylda hvílir á bankanum gagnvart landinu til að veita lán, sem landið þarf að taka.

Hvað fjárflutningi frá útlöndum og til útlanda fyrir Landsbankann líður, þá hvílir engin skylda á bankanum þar um, hvorki hvað snertir flutning til eða frá landinu. Hann getur því tekið það sem hann vill fyrir það, og neitað að flytja fje, þegar honum sýnist.

Þá liggur það í augum uppi, að stjórn og þing gæti sett það upp, að hann fengi enga seðlaviðbót, nema hann leyfði, að Landsbankinn nyti þeirra að hálfu.

Annars er þetta mál svo illa undirbúið, að ekki getur verið um að ræða, að veita Íslandsbanka þennan rjett að svo stöddu. Meiri hluti nefndarinnar hefir hallast að því, að veita bankanum ½ miljón kr. aukningu á seðlafúlgunni um næsta fjárhagstímabil, í von um samkomulag á þeim grundvelli, en alls eigi af því, að hann telji það rjettmætt. En nú er sagt, að Íslandsbanka nægi ekki minna en heil miljón.

Hvað viðvíkur þeim kvöðum, sem hvíla á öllum seðlabönkum, þá hefir meiri hluti nefndarinnar ekki þorað að stynja því upp, að slík skilyrði yrðu sett, fyrr en hún heyrir undirtektir hæstvirts ráðherra og deildarinnar. Ástæðan fyrir því, að slík skilyrði eru ekki sett, er sú, að stjórnin ber sig að eina saman um þetta mál við Íslands- banka. Nú hefir þó Landsbankinn einnig skyldur, að uppfylla viðskiftaþörfina. Eðlilegast að báðir bankarnir uppfylli viðskiftaþörfina. Jeg tala um þetta frá almennu sjónarmiði, án þess jeg líti á það, hvort ráðlegt væri að gefa út meiri seðla. Það væri ekki nema eðlilegt að hugsa sjer það, að ef Íslandsbanki er í þröng, þá sje Landsbankinn það líka, og rjettast sje að bjarga báðum; yfirleitt að sníða gjaldmiðilsforðann eftir þörfum beggja bankanna.

En eins og Landsbankinn verður að miða viðskifti sín við sitt starfsfje, eins ætti Íslandsbanki að geta miðað þau við það fje, sem hann hefir úr að spila. Landsbankinn getur ekki gefið út neina seðla, þó honum liggi á. Hvað veldur því, að þingið hugsar ekki um að útvega honum hálfa eða heila miljón, til þess að bjarga sjer í dýrtíðinni? Nei, hann verður að byggja á sínu veltufje, eins og það er. Og því getur þá ekki hinn bankinn gjört það líka? Og hvers vegna er umhyggjusemin að eins fyrir þeim banka en engin fyrir landsins eigin stofnun ?

Það er auðvitað, að þegar viðskiftin aukast, þarf meira veltufje en venjulega, og þá vitanlega minna starfsfje, þegar viðskiftin teppast. Bent hefir verið á það, að ófriðarríkin sjái sjer ekki annað fært en að gefa út seðla, vegna vaxandi gjaldmiðils þarfar, en svo er ekki; þeir eru gefnir út til þess að draga gull almennings inn í bankana. Eins og menn vita, er það ekki þjóðartap, þótt seðlar brenni, en hina vegar er það tap, ef gull fer alveg forgörðum, t. d. í hernaði. Það fyrsta, sem þingið hefði þurft að gjöra í fyrra, þegar stríðið skall á, var að takmarka seðlaútgáfuna, ef það hefði verið hægt, í staðinn fyrir að auka hana, svo meiri mynt rúmaðist í landinu. Ef hjer væri í umferð t. d. ein miljón í gulli í staðinn fyrir seðla, mætti kaupa nauðsynjar fyrir það, án þess að láta landið taka lán. Vöruþurfendurnir mundu koma með gullið sitt, sem fyrirframborgun, er þá skorti vörur; þá væri verðmæti til í landinu til að kaupa fyrir. Danska stjórnin gat ekki skorast undan að láta landið fá slíkt gull og hefði ekki heldur gjört það. Það hefðu átt að vera fyrstu bjargráða ráðstafanirnar að tryggja landinu gull. En í stað þess var heimilað að gefa út meira af seðlum, þó að bankinn ekki notaði þá. Og eins er farið að enn. Eflaust mun það vera talið af fjárþröng, að bankinn er nú byrjaður á að nota þennan rjett. En hvaða banki mundi vera svo óhygginn að nota ekki starfsfje, sem hann gæti fengið fyrir 2%, þegar hann getur ávaxtað það fyrir 6% eða meira.

Þjóðbankinn danski áleit 1902, að eigi mætti veita leyfi til að gefa hjer út meira af seðlum en 1½ miljón. Hann hafði rjett fyrir sjer; hann ætlaði sem sje fyrir mynt í umferð. Samkvæmt rannsókn minni 1914, komu einar 10 kr. í landssjóð allt árið í löglegri gullmynt og í Landsbankann 3805 krónur í dönsku gulli. Þetta ætti að vera nægilegt til að sýna að landið er gjörtæmt af hreinni mynt, og að seðlarnir eru búnir að rýma nálega öllum verðmætum gjaldmiðli úr landi, en bankaskuldabrjef komin í staðinn, sem hvergi eru gjaldgeng, ef Danir komast í stríð, t. d. við Þýskaland, nema hjer innanlands.

Og fyrir hvað ætti landið þá að kaupa sjer vöruforða, ef samböndin heftust við Evrópu? Seðlarnir, sem verða nú alls 4¼ milj., ef einni miljón er nú við bætt, eru í því tilfelli einkis virði, nema til viðskifta innan lands. Enginn kaupmaður í Vesturheimi mundi taka seðlana. sem gilda borgun á vörum, ekki einu sinni með stór-afföllum.

Jeg verð að tala um helstu atriðin í þessu máli, því að það ríður á að menn fái sem bestar upplýsingar um það, sem upplýsa þarf. Og mjer finst það vera skylda mín, bæði sem þingmanns og bankastjóra, að upplýsa málið, eftir því sem mjer er unt.

Mjer hefir virst menn halda, að bankarnir megi gefa út eins mikið af seðlum og viðskiftaþörfin krefur. Þetta er alveg gagnstætt hugsun manna, er vit hafa á, í öðrum löndum. Þar er aukin seðlaútgáfa því að eina leyfð, að trygging sje fyrir því, að minsta kosti sje sjeð fyrir jafn miklu af mynt í umferð með meðal fólks, eins og seðlum, og er hún þá alt af ströngum skilyrðum bundin. Til þess að sýna það, að viðskiftaþörfin er ekki mælikvarðinn, nægir að vísa til samanburðar til skýrslu þeirrar, er nefndaráliti okkar fylgir. Þar sjest það, að í Englandi eru gefnir út seðlar, er nema kr. 10,85 á hvern mann í landinu, í Þýskalandi kr. 6,87, Austurríki kr. 5,25, Rússlandi kr. 4,33, Finnlandi kr. 4,59 og í Noregi kr. 14,36, en á Íslandi nú yfir 27 kr. á mann. Halda menn nú að viðskiftaþörfin sje minni í þessum löndum en hjer? Við skulum taka Noreg, þar sem hæst upphæð kemur á mann. Hann flytur hjer um bil jafn mikið út og við, en auk þessa eru þar miklu meiri siglingar og iðnaður en hjer. Samt eru Norðmenn svo varkárir, að þeir segja: »Meira má ekki gefa út, nema þess gjörist brýn þörf, og þá því að eins, að borgað sje 6% af þeirri upphæð, sem fer fram yfir það, sem trygt er«. Meðalvextir þar eru 5%. Það er þannig dýrara að nota seðla, en það getur samt komið sjer vel í fjárþröng. Þetta virðist mjer nóg, til þess að sýna það, að alment er ekki litið svo á, að viðskiftaþörfin sje mælikvarðinn fyrir seðlaupphæðinni, og allra síst að láta seðlaútgáfurjettarhafa ákveða, hvort þörfin sje fyrir hendi eða ekki.

Það hefir verið vitnað í England, og sagt, að þar væru tjekkar notaðir í stað peninga. En hvers vegna eru þeir notaðir svo mikið þar? Það er vegna þess, að tiltölulega er gefið svo lítið út af seðlum. Hjer höfum við nóg af þeim og höfum ekki þurft tjekka. Við ættum að mínu áliti að nota tjekka meira en við gjörum, og Landsbankinn hefir reynt að koma því á, að menn notuðu heldur tjekka, í staðinn fyrir að taka stórar fúlgur út úr bönkunum og senda út um land.

Hvað er það þá, sem veldur því, að löndin gefa ekki meira út af seðlum en þau gjöra? Ekki er það viðskiftaþörfin. Hún er þar meiri en hjer. Nei! Það er af því, þeir vita, að það er hættulegt, Það getur verið sama og að slá »falska mynt«. Annars er það undarlegt, hvað menn tala mikið um þessa viðskiftaþörf hjer. Vita menn hvað hún er mikil? Ef jeg gengi að hverjum þingmanni hjer og spyrði hann, hve mikil þörf hann áliti að væri fyrir hendi, þá býst jeg við, að flestir svöruðu, að þeir hefðu ekki hugmynd um það. Ef þeir aftur á móti nefndu einhverja tölu, þá er jeg sannfærður um það, að þær yrðu jafn margar og þingmennirnir eru. Með öðrum orðum: Þeir hafa ekki hugmynd um það. Þetta sýnir, að þessi viðskiftaþörf er ekkert annað en slagorð. Þörfin fer mestmegnis eftir því, hvernig menn haga sjer í viðskiftum sínum. Einn notar of mikið fje, og fer því á höfuðið, vegna þess, að hann kann ekki með það að fara. Kútteraútgjörðir hjer á landi eru gott dæmi upp á þetta. Menn keyptu mikið af skipum, fengu þau fyrir gott verð og alt gekk vel fyrst framan af, meðan bestu sjómennirnir voru formenn, en af því skipunum fjölgaði of ört, voru teknir liðljettingar á skipin og útgjörðin tapaði. Það var boðið svo hátt í bestu mennina, að útgjörðin þoldi það ekki. Mestu dugnaðarmenn, vel stæðir, fóru á höfuðið. Það er hægt að nota of mikið af peningum. Það er sjálfsagt, að framleiðslan aukist, en hún verður að eflast hægt og hægt á eðlilegan hátt. Botnvörpuútgjörðin hefir gengið vel til þessa, en það getur svo farið, að menn auki hana of fljótt, neyðist til þess að taka viðvaninga á skipin, en við það fer alt á höfuðið. Okkur er það hollast, að framfarirnar gangi hægt, að eitt fyrirtækið fæði eðlilega annað af sjer með innunnum arði og bankarnir aukist af fje, sem þjóðin leggur upp.

Í Landsbankann hefir síðan á nýári safnast 700 þús. kr. í sparisjóð. Vitanlega liggur það nokkuð í því, að menn fá hærra verð fyrir afurðir sínar en áður, en það sýnir jafnframt, að menn eru ekki eins tæpir með fje og látið er.

Það er eins með bankana og fjelög eða einstaka menn. Þörfin fer eftir því hvernig þeir versla. Sje fje ódýrt, þá voga menn meira. Þeir geta grætt á því, en geta líka farið á höfuðið. Það er svo margt, sem taka verður til greina, þegar verið er að ræða um gjaldmiðilslán til bankanna, bæði hvernig viðskiftunum er hagað, hvernig stjórnin er o. fl. o. fl.

Jeg skal svo ekki þreyta menn á lengri ræðu. Jeg þyrfti að segja talsvert meira, en sleppi því að þessu sinni, Jeg vil að eins taka það enn þá einu einn fram, að meiri hluti nefndarinnar vill leyfa bankanum að halda þessari ½ miljón í 2 ár, meðan líkur eru til að ófriðurinn haldi áfram, en hlýtur að mæla á móti aukningu, nema nýr samningur verði gjörður viðvíkjandi fyrirkomulagi bankans, viðskiftum hans við landið sjálft og Landsbankann.