17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Framsögum. minni hl. (Jón Magnússon):

Jeg get ekki látið hjá líða, að svara háttv. framsögum. meiri hlutans (B. K.), þó að þess gjörist að vísu ekki mikil þörf, því að margt af því, er enn er deilt um, hefir komið áður fram í umræðunum.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (B. K.) hefir látið þess getið, í umræðunum um þetta mál, að ríkin leggi stundum ýmislegar kvaðir á bankana. Það kemur fyrir, en efasamt er það, að rjett sje að telja það eiginlega kvöð, þótt reikningsfærsla og peningagreiðslur fyrir ríkisssjóði sjeu falin banka. Það má má ske eins vel telja

það hlunnindi. Hvað snertir flutning á fje landa á milli, þá er það aukaatriði. Mjer finst það vera smávægilegt, og bankar ættu að geta komið sjer saman um þann flutning.

Um það, að Landabankinn eigi að fá rjett til að auka seðlaútgáfu sína, ef Íslandsbanka verði veittur rjettur til að auka sína fúlgu, er auðvitað hægt að segja sem svo við Íslandsbanka: Þú færð ekki neitt, nema Landsbankinn fái það sama. Það mætti setja þetta skilyrði. Þetta væri gott, ef hjer væri að eins um þörf Íslandsbanka að ræða, en það er vegna viðskiftaþarfarinnar, sem við viljum að seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka sje aukinn. Enda býst jeg við því, að hvaða banki sem væri vildi ógjarna, að öðrum banka væru veitt þau rjettindi, er honum einum ber. Og sú kenning háttv. framsm. meiri hlutans (B. K.), að viðskiftaþörfin fari eftir því, hvernig banki sníði viðskifti sín, er vitanlega röng.

Háttv. framsm. meiri hlutana (B. K.) hjelt því fram, að það væru ekki seðlar, sem viðskiftaþörfin þarfnaðist, heldur veltufje. Jeg veit ekki betur en að seðlar sjeu veltufje. Enda er það vitanlega rangt, sem háttv. framsm. meiri hlutans sagði í fyrra, að seðlarnir væru verðlaus pappír. Það er að vísu rjett, að til viðskifta við önnur lönd nægja ekki seðlar, en innanlands eru þeir góðir; jafngóðir gulli, og alls ekki verðlausir.

Það er alveg satt, að seðlaaukningarrjetturinn var ekki notaður í fyrra að fullu. En hvernig stóð á því? Það var af því, að um hálf miljón útlendra seðla var flutt inn. Nú skal jeg játa það, að jeg er ekki bankafróður, eins og háttv. framsm. meiri hl. (B. K.) segir, en jeg hefi athugað að nokkru leyti bankafyrirkomulag og ekki rekið mig á, að nokkur banki flytji inn seðla annars ríkis og noti þá. Það á sjer stað, að einstakir menn flytji með sjer erlenda seðla, og erlendir seðlar geta gengið dálítið manna á milli, en að bankar gefi »út yfir diskinn« erlenda seðla, það hygg jeg hvergi eigi sjer stað, nema hjer.

Jeg skal aftur minnast á »kútterana«, af því að háttv. framsm. meiri hlutans (B. K.) gaf ástæðu til þess. En jeg sje ekki eftir því fje, sem varið var til þeirra, enda þótt skútuútgjörðin mistækist sumum í fyrstu. Með »kúttera«kaupunum tel jeg að hafi verið byrjuð hin stórkostlega framför, sem síðar hefir orðið á sjávarútvegi okkar Íslendinga. Það var ekki nema eðlilegt, að menn rækju sig eitthvað á fyrst. En það hefir sýnt sig, að af árekstrinum höfum vjer lært. Betur að menn hefðu ekki of fljótt orðið kjarklausir. Jeg vildi að við ættum nú »kútterana«, sem við keyptum og síðan voru seldir til Færeyja, til þess að láta þá stunda fiskveiðar nú; það myndi svara kostnaði.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (B. Kr.) talaði um, að sparisjóðsfje hafi safnast meira en vanalega í bönkunum, síðan á nýári. Þetta kemur auðvitað, eins og háttv. framsögumaður meiri hlutans sagði, af því, að innlendar afurðir hafa hækkað í verði og menn því átt hægar um fje.

Þá talaði háttv. framsögum. meiri hl. B. Kr.) um það, að vöruskiftaverslun væri orðin mikil í landinu. Ef það er, þykir mjer það mjög sorgleg fregn, í stað þess, að vörurnar sjeu seldar gegn peningum. Jeg hjelt að vöruskiftaverslun væri að hverfa eða að mestu horfin.

Háttv. framsögum. meiri hl. (B. Kr.) sagði, að bankinn þyrfti að borga 16 milj. kr., ef hann ætti að leggja fje til allrar verslunar landsins. Þetta er ekki rjett, því að bankinn þarf ekki að greiða

þetta í einu; það skiftist. (Björn Kristjánsson : Viðskiftin vaxa). Það er alveg rjett, en jeg tel það heppilegt fyrir innanlandsviðskifti, ef bankinn gæti stutt þau sem mest.

Háttv. framsögnmaður meiri hlutans var mjög fyndinn, þar sem hann var að tala um endalausa skrúfuna, er verið væri að gjöra með þessu. Jeg skal ekkert um þetta segja, en mjer skilst, að ekki sje gott að segja, hvort endirinn á endalausu skrúfunni sje hálf eða heil miljón.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (B. K.) sjer ekki, að það sje svo mikill munur á skoðunum meiri og minni hl. í niðurstöðunni — ætti því ekki að vera mikið deilumál, eins og hann sagði — en niðurstaða meiri hlutana fer í mótsögn við forsendurnar. Hann sagði, að stjórnin væri ekki skyld til að rannsaka bankann, en úr því að talið er nauðsynlegt að hafa eftirlit með bankanum, þá verður hún að hafa það eftirlit á hendi, og sje reglugjörð bankans í einhverju áfátt, þá hefir landstjórnin í hendi sinni að laga það.

Þá gat háttv. framsögum. meiri hlutans (B. K.) þess, að þýska reglan hafi ekki verið framkvæmd hjer. En uppfylli bankinn það, sem lögin heimta, þá er ekki hægt að krefjast meira. Það er ekki ólíklegt, að nú sem stendur sje meiri peningaþörf en endranær, þar sem innlendar vörur eru dýrar, og líka vegna þess, að mikið af vörum er nú selt »frítt um borð«, en það útheimtir meiri peninga en þegar beðið er eftir borguninni þar til varan er seld, eins og oft hefir átt sjer stað.

Jeg hefi ekki skrifað hjá mjer spurningar háttv. þm. Dal. (B. J.) en þær voru eitthvað á þessa leið : Í fyrsta lagi, hvort ekki væri hættulaust að gefa út 250,000 krónum meira en meirihlutinn vill, tryggingarlaust. Jeg get vitanlega svarað hv. þm. Dal. (B. J.), því eð jeg hefi ekki komið auga á það, að landinu stafaði nein hætta af þessu.

Hin spurningin var um það, hvort ekki mætti krefjast 5% vaxta p. a. af seinni ¼ miljóninni, og gengju vextirnir í landssjóð. Jeg skal ekkert segja um það, hvort þingið vill setja þetta skilyrði, og þó að það gjörði það, þá væri óvíst hvort bankinn vildi ganga að því. (Bjarni Jónsson: Vill minni hlutinn setja þetta skilyrði?). Minni hlutinn hefir ekki haft ástæðu að taka afstöðu til þessa. Þetta hefir ekki komið til orða, hvorki hjá meiri eða minni hlutanum.

Annars mun háttv. framsm. meiri hl. (B. K.) færari um að greiða úr spurningum um háttv. þm. Dal. (B. J.).