20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Framsm. minni hl. (Jón Magnússon):

Minni hluti nefndarinnar hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um brtt. þær, er fram eru komnar nú við þetta frv.

Um brtt. við 1. gr. er það að segja, að í sjálfu sjer væri ekkert á móti því að samþykkja hana, því að venjulega munu bankarnir koma sjer saman um það, sem hún fer fram á. Þó getur hún bakað nokkur óþægindi.

Um brtt. á þgskj. 453 er aftur á móti það að segja, að verði hún samþykt; þá verður það beinn kostnaður fyrir Íslandsbanka að gefa út seinni 500 þús. krónurnar. Jeg býst því ekki við, að hann sjái sjer fært að nota heimildina, nema með því móti að hækka útlánsvexti sína. Það kemur til af því, að sá helmingur seðlaupphæðarinnar, sem trygður er með gulli, gefur ekki meiri tekjur, en gulltryggingin kostar. Nú er talið, að kostnaðurinn við útgáfu seðlanna nemi 1% af allri seðlaupphæðinni. Þenna kostnað verður þá að borga af hagnaðinum við ógulltrygða helminginn, og nemur þá 2% af honum. Þegar þar við bætist 4% gjald til landssjóðs, þá hefir bankinn eftir fyrir áhættuna við útlán, sem alt af er nokkuð. Eini vegurinn fyrir bankann, til þess að nota heimildina verður því sá, að hækka útlánavextina.

Jeg held að hyggilegra hefði verið að fara þá leið, sem háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) vildi fara, að lækka upphæðina niður í 3/4 milljón. Fyrir bankann er það ekki svo mjög af atriði, hvort heimildin nær til ½ milj. eða heillar. Bankinn getur ætíð, sjer að skaðlitlu, gætt þess, að hafa eigi meira úti en svo, að hann þurfi eigi að greiða þetta hærra gjald, en það kæmi þá harðast niður á þeim, sem á peningunum þurfa að halda, harðast niður á viðskiftunum.

Jeg skoða brtt. svo, sem hún miði að því, að færa frumv. aftur í hið fyrra form, sem það hafði upphaflega.