20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Framsögum. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Brtt. frá mjer á þgskj. 446 er borin fram og orðuð eftir samráði við báða hluta nefndarinnar, svo að jeg gæti í rauninni sparað mjer að tala í þetta sinn.

Jeg skal samt taka það fram, að þótt tillagan sje ekki víðtækari en hún er, eða gangi í aðra átt, þá hefi jeg þó í engu breytt skoðun minni á seðlaútgáfu hjer á landi; því fer fjarri.

Út af því sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) spurðist fyrir um það, hver hagur Landsbankanum væri að tillögu minni á þgskj. 446, þá skal jeg geta þess, að þar er ekki um verulegan peningalegan hag að reeða, en þægindi eru bankanum að þessu fyrirkomulagi, án þess þó að Íslandsbanka sje nokkurt verulegt tjón að.

Úr því að jeg stóð upp, skal jeg taka það fram, að tillagan á þgskj. 453 er ekki bygð á sama grundvelli, sem önnur lönd byggja á í þessum efnum, eins og skýrt hefir verið tekið fram hjer í deildinni, svo skýrt, að það ætti að liggja jafn skýrt fyrir deildarmönnum eins og að 2 og 2 eru 4. Jeg hefði getað búist við, að numið hefði verið burt gjaldið af fyrri hálfu miljóninni, en lagt 5 eða 6% á síðari hálfu miljónina, sem ógulltrygð er, og er það í samræmi við stefnu annara þjóða. En jeg tel alveg sjálfsagt, að byggja á þeirri þekkingu og reynslu, sem vjer getum fengið frá öðrum þjóðum í slíkum málum, sem Alþingi ber alt of lítið skyn á.