20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Bjarni Jónsson:

jeg greiddi atkvæði með þþví á dögunum að bankinn fengi heimild fyrir einni miljón. En um það hefi jeg ekki getað sannfærst, að bankanum geti staðið nokkur hætta af því, þótt hann greiddi nokkru hærra gjald af síðari helft þeirrar upphæðar. Það getur aldrei komið til, að bankinn noti heimildina nema örlítinn tíma árs, og aldrei nema þegar þörf er til, eftir því sem viðskiftin kalla að. Jeg hefi skilið svo beiðni bankans, að hann ætlaði sjer ekki að gjöra þetta að gróðafyrirtæki, heldur til þess að ráða fram úr þörfum manna. Það getur þá aldrei skaðað bankann, að greiða 4% af upphæðinni þann tíma, sem hún er notuð. Þar á móti er gagnið auðsætt fyrir landsmenn og slíkt hið sama vansæmdin, að fá seðla frá útlöndum. Það er auðvitað misjafnt, hve mikið er af seðlum úti á hverjum tíma, og jafnauðvitað, að ekki er greitt hundraðsgjald, nema fyrir þann tíma, sem seðlar eru úti.

Jeg skal nota tækifærið, til þess að taka það fram, að nauðsyn ber til þess, að vjer eignumst þessa stofnun, sem nú er að mestu í eigu útlendra hluthafa, og því óíslensk. Frumvarp var hjer fyrir þinginu fyrir nokkrum árum, þess efnis, að koma í vorar hendur umráðum þessa banka. Það stefndi í rjetta átt. Því væri vert fyrir stjórnina að taka til athugunar til næsta þings, hver tök væru á að kaupa bankann: