11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

25. mál, rafmagnsveitur

Ráðherra:

Jeg hef leyft mjer að koma fram með tvær brtt. við frv., eins og Ed. hefir skilið við það. Mjer þykir vænt að heyra, að háttv. frsm. (B. S.) telur nefndina munu geta fallist á þær. Í frumv. var upphaflega til skilið, að einkaleyfi mætti veita til 30 ára. Ed. hefir fært þetta hámark niður í 15 ár. En eftir samtali mínu við einn verkfræðing hjer í bænum, sem sjerstaklega hefir fengist við þetta mál, hefi jeg talið rjett að bera fram fyrri brtt. mína á þgskj. 234, um að færa ákvæðið um einkaleyfistímann í samt lag aftur. Verkfræðingurinn sagði, að það gæti verið óheppilegt, að einkaleyfi mætti ekki veita til lengri tíma en 15 ára, því að það gæti orðið til þess, að menn treystu sjer ekki til að ráðast í stór fyrirtæki í þessari grein. Hins vegar liggur það í augum uppi, að ekki þarf ávalt að veita einkaleyfi til svo langs tíma, þó að heimild sje til þess, þegar sjerstakar ástæður mæla með því, og verður þá ekki sjeð, að þetta ákvæði þurfi nokkurn skaða að gjöra.

Síðustu málsgr. 6. gr. frumv. hefir Ed. breytt þannig, að yfirmatsnefnd skuli að eins skipuð 3 mönnum, eða ekki fleiri mönnum en undirmatsnefnd. Mjer þykir andkanalegt, að ekki sje ríkar bú- ið um yfirmatsnefndina, því að ef svo er, getur yfirmatið, eftir eðli sínu, ekki veitt meiri tryggingu en undirmatið. Síðari brtt. mín á þgskj. 234 miðar til þess að kippa þessu í lag.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að brtt. mínum verði vel tekið í háttv. deild.