04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Framsögum. (Guðm. Hannesson) :

Það er í rauninni eðlilegt, að slík fyrirspurn komi fram, og hefði mjer ef til vill verið skylt að gjöra nánari grein fyrir þessu atriði.

Það munu allir skilja, að mikill verðmunur hlýtur að vera á landi, sem metið er að eins til grasræktar, og dýrum húsastæðum. Það kom til tals í nefndinni, að ákveða hámark verðsins, en þótti ekki hyggilegt, því þá hefðu landeigendur ef til vill notað sjer það, og krafist að minsta kosti þeirrar upphæðar.

Aðalatriðið er þetta, að stjórnin kaupi ekki land, nema það sem metið er sem tún; með öðrum orðum, kaupi ódýrt land, en ekki þar sem hússtæði er. Því er þetta óákveðna orðalag, til þess að engum sje gefið undir fótinn. Auðvitað eru blettirnir margir, sem hægt er að nota, en til þess að ákveða, hvar besti staðurinn sje, verður að taka grafir á nokkrum stöðum, en þetta þótti nefndinni rjettast að fela stjórninni.