19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

27. mál, ullarmat

Framsögumaður (Jósef Björnsson) :

Jeg skal taka það fram, út af orðum hv. 1. kgk. (E. B.) að jeg er honum fullkomlega sammála um að það, sem hjer verður að hafa fyrir augum, er sú verðhækkun, sem búast má við, eftir betri verkun og mat á ullinni. En fyrst og fremst er það, að vörur hækka yfirleitt í verði, þegar farið er að vanda þær betur, ekki í hlutfalli við það, sem betri vöruvöndun hefir kostað, heldur oft nokkru frekar. Það er undantekning, ef reynslan verður hjer önnur en með aðrar vörur. Ef matið leiðir til betri verkunar á ull, vona jeg að háttv. 1. kgk. geti orðið nefndinni sammála um, að sá kostnaður, sem til þess fer, muni borga sig, og verða til beins hagnaðar fyrir sauðfjáreigendur. Og mjer er óhætt að segja, að Sigurgeir Einarsson lítur þannig á málið. Það má vera, að það sje rjett, sem háttv. 1. kgk. sagði, að það væri öðru máli að gegna um fisk og síld en um ull, því að ill verkun á ull stæði til bóta. En jeg held að fullyrða megi, að íslensk ull hafi stundum verið svo illa verkuð, að það hafi verið ómögulegt að bæta það, t. d. þegar hún hefir verið svo illa þur, að hitnað hefir í henni. Það má vera, að sandur og mold og önnur óhreinindi, sem í ullinni eru, verði hreinsuð úr, en sumar skemdir á ullinni eru þannig vaxnar, að þær standa að skoðun nefndarinnar ekki til bóta, og er nefndin því þeirrar skoðunar, að mat á ull verði til bóta, eins og á fiski og síld. Háttv. 1. kgk. talaði um að þær tilraunir, sem gjörðar hefðu verið, hefðu ekki leitt í ljós, að hagnaður væri að betri verkun á ull. Jeg skal benda á, að kaupfjelag Þingeyinga hefir lagt sig eftir betri verkun á ull um langan tíma og hefir víst komist að þeirri niðurstöðu, að það borgi sig. En það vill svo vel til, að við höfum hjer í deildinni mann, sem getur sagt um, hver reynslan er í þessu efni. Jeg held að það þurfi ekki að óttast, að verðið hækki ekki svo, að nemi kostnaðinum við verkunina og nokkru um fram, svo að hagur verði að beinlínis. Og jeg get líka búist við, að þetta leiði til óbeins hagnaðar. Jeg skal benda á, að það hefir ávalt reynst svo, að þegar vara hækkar í verði, þá leitast framleiðendurnir við að framleiða sem mest af vörunni. Ef verð á ull hækkar, þá lít jeg svo á, að íslenskir fjáreigendur muni fara að leggja meiri stund á, að hafa gott ullarfje. Og eitt er það, sem kemur í ljós, þegar farið er að meta ullina, en það er mismunurinn á ullargæðunum. En nú er því svo varið, að ullin er mjög misjöfn að eðli og gæðum, ekki að eins í ýmsum hjeruðum landsins, eða sjerstökum sveitum, heldur jafnvel hjá sama manninum. Þetta myndu menn smám saman kappkosta að laga. Og í engum vafa er jeg um, að bæði er hægt að gjöra fjeð ullarmeira en nú er og fá ull þess jafnari að öllum gæðum. En kaupendur ullar leggja mikla áherslu á, að ullin sje sem jöfnust að gæðum, og liggja því hjer hagsmunir á bak við, sem vert er að taka tillit til, og ullarmat ætti að stuðla til að náist.