19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Jón Magnússon:

Að því er snertir upphæð legkaupsins, þá er jeg alveg á öfugri skoðun við hæstv. ráðherra. Jeg álít, að ekki hafi einungis verið ástæða til að færa það niður, heldur hefði að rjettu lagi átt að fella það alveg burtu. Að vísu gjörði jeg þetta ekki að ágreiningsefni í nefndinni. Jeg sá mjer það ekki fært. En jeg hygg, að það sje auðsjeð hverjum manni, að Reykvíkingar eru hjer beittir stakasta misrjetti gagnvart öðrum landshlutum. Því að annarstaðar þurfa menn hvergi að greiða legkaup. Síst hafði jeg vænst þess, að hæstv. ráðherra yrði á móti því, að færa legkaupið niður, því að þó að það yrði gjört, yrði það samt sem áður hærra en gjört var ráð fyrir í frumv. stjórnarinnar. Jeg skal ekkert um það segja, hvernig Reykjavíkursöfnuður tekur þessu, að þurfa einn af öllum söfnuðum landsins að gjalda legkaup. En ekki er það óhugsandi, að hann segði við landssjóð, að hann mætti halda prestunum og kirkjunni, söfnuðurinn skyldi sjálfur sjá fyrir sjer. Jeg er ekki að segja að söfnuðurinn gjöri þetta. En víst hefði það getað komið fyrir í öðrum söfnuðum á þessu landi, að þeir kærðu sig ekki um þjóðkirkju með þessum skilyrðum.

Til hins er nokkur ástæða, að takmarka upphæðina við 10 þús. kr., þar sem ætla má, að hægt sje að fá nægilega stórt land til garðsins fyrir þá upphæð. Jeg tel heppilegt að gjöra ráð fyrir nýjum kirkjugarði, og hann ætti helst að vera austan bæjar. Ef bærinn vex mikið úr þessu, er miklu heppilegra að garðarnir sjeu tveir, annar vestan bæjar og hinn austan, þó að vegalengdirnar hjer sjeu vitanlega ekki miklar.