19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

27. mál, ullarmat

Steingrímur Jónsson:

Það er rjett sem háttv, framsögumaður (J. B.) gat um, að Kaupfjelag Þingeyinga hefir gjört tilraunir til að bæta ullarverkunina.. Fyrir rúmum 30 árum sendi það mann til Englands, til þess að kynna sjer hver ráð væru vænlegust til að bæta ullarverkunina. Sendimaður þessi kom með ýmsar leiðbeiningar og ritaði ritgjörð um málið. Voru leiðbeiningar hans prentaðar og sendar út, og hegðuðu Kaupfjelagsmenn sjer eftir þeim. Afleiðingin varð sú, að ullarverkunin varð betri en áður, en jafnframt ljettist ullin, eins og háttv.1. kgk. þm. (E. B.) gat um að hún mundi gjöra.

Þessi betur verkaða ull frá kaupfjelaginu og eins ull frá Örum & Wulffs verzlun í Húsavík, er var svipað eða eins vel meðhöndluð, varð bráðlega meira eftirspurð á markaðinum, og seldist nú hin síðari árin nokkru hærra verði. En verðmunurinn var svo lítill, að menn töldu það efamál, að þessi vöruvöndun borgaði sig. Þá var það að Kaupfjelag Þingeyinga tók upp á því, að flytja út óþvegna ull, og eins gjörði þá um sama leyti Kaupfjelag Borgfirðinga. En Kaupfjelag Þingeyinga hætti því strax aftur; um Kaupfjelag Borgfirðinga veit jeg ekki. Það reyndist svo, að þá fyrst keyrði um þverbak með álitið á ullinni ytra, því óþvegna ullin var í mjög litlu áliti, skemdist og var slæm. Og útflutningurinn á óþveginni ull, reyndist enn vandasamari en útflutningur á þveginni ull, því ef óþvegin ull er send út, þá þarf alveg sjerstaklega góða meðferð á ullinni strax frá byrjun. Sú skoðun hefir því rutt sjer til rúms þar norður frá, að ef ullin á að vera góð verslunarvara, þá þarf að vanda þvott hennar sem allra mest. En það er fyrirsjáanlegt, að með frjálsum samtökum næst það ekki, svo dugi, því þó að 30–50 þúsund pund af ull sjeu vel þvegin og meðhöndluð á allan hátt, þá gætir þeirra of lítið á heimsmarkaðinum og er jafnvel á stundum ekki nóg til að fullnægja þörfum eins kaupanda. Verður þá ullarverðið lægra, miðað við gæði meginhluta ullarinnar.

Fyrir því, er það ríkjandi skoðun í Þingeyarsýslu, að ullarvöndun sje nauðsynleg, og eigi hún að verða að verulegu gagni, þá þurfi ullarmat, og fyrir því glöddust menn þar, er þeir heyrðu, að hr. Sigurgeir Einarsson var á sama máli.