03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Magnús Kristjánsson:

Mjer hefir skilist svo af umræðunum, að í raun og veru væru meiri og minni hlutina sammála í aðalatriðunum. Báðir telja það sjálfsagða skyldu, að gjöra ráðstafanir til að forða landinu sem mest við skaðlegum afleiðingum ófriðarins. Þess vegna furðaði mig mjög á hitanum sem var í umræðunum áðan, þar sem ágreiningurinn var að eins um leiðina. En að minni skoðun er ágreiningurinn ekki meiri en svo, að vel mætti jafna; eftir því sem mjer hefir skilist, er það 2. málsgrein 3. gr., sem aðalágreiningnum hefir valdið, og mun jeg síðar víkja að því, hvernig jeg ætla, að greiða megi úr þeim ágreiningi.

Fyrir mjer hefir það mikla þýðingu, að hjer er að eins um heimildarlög að ræða, lög, sem þingið getur og ætlar sjer að hafa eftirlit með. Eins og hv. framsögum. meiri hlutans (S. B.) tók fram, er til þess ætlast, að skipa nefnd manna stjórninni til aðstoðar, og finst mjer það næg trygging fyrir því, að þessum heimildarlögum verði ekki beitt óheppilega.

Það kom fram við umræðurnar síðast, að hæstv. ráðherra hallaðist að tillögum meiri hlutana. Háttv. framsögumaður minni hlutans (Þ. J.) tók það fram, að minni hlutinn bæri fult traust til ráðherra í þessu máli. Þess vegna er mjer það ekki vel ljóst, hvað verulegt menn geta óttast. Og með því að gjöra lítið úr þessari nefndarskipun, velferðarnefndinni svo kölluðu, sje jeg ekki betur, en þingið sje hreint og beint að lýsa vantrausti á sjálfu sjer. Það mætti undarlegt heita, ef ekki væri unt að finna hjer á þingi 5 menn, sem veitt gætu stjórninni nægilega aðstoð í þessu efni. Jeg hygg því ekki, að ástæða sje til að óttast það, þótt frumv. verði samþykt, eins og það liggur fyrir. En mjer þykir það betur sama, að þingið standi sem einn maður í þessu máli, til þess að fyrirbyggja alla tortrygni, sem kvikna kann hjá þjóðinni.

Jeg skal þá skýra frá mínu sjónarmiði, hvað jeg tel helst gjörlegt til að sameina nefndarmennina. Jeg gat þess áðan, að aðalágreiningsefnið væri 2. málsgrein 3. gr., og mun jeg, nú reyna að sýna, á hvern hátt mjer virðist sem báðir nefndarhlutarnir geti komið sjer saman og jafnað ágreininginn. Mín skoðun er sú, að nefnd málsgrein mætti til samkomulags falla burt, vegna þess, að með 4. málagrein sömu greinar má ná því takmarki, sem til er ætlast, og þó svo, að fullnægt er minna hlutanum. Til þess að skýra þetta nánar, skal jeg taka það fram, að jeg sje ekki betur en að eftir 4. málsgrein sje vegur fyrir landstjórnina, til að koma alveg sama fram, — þeim tilgangi frumvarpsins að tryggja landinu nægar birgðir. Aðferðin ætti að vera þessi, að stjórnarráðið gæfi sem fyrst út fyrirskipanir til allra bæjarstjórna og sveitarstjórna á landinu, um að leita upplýsinga um það, hverra ráðstafana almenningur óskaði sjerstaklega frá hálfu hins opinbera, til þess að tryggja landinu nægar birgðir af innlendri nauðsynjavöru. Þegar svo þessi rannsókn hefir farið fram, og fengin er vissa um það, hve mikils væri óskað af vörunni, þá gjörir stjórnarráðið auðvitað ráðstafanir til þess, að eignarnámsheimildinni yrði beitt, ef á þyrfti að halda, og verður þá aldrei kyrsett meira en nauðsyn krefur. Hins vegar getur útflutningabann, ef það er ekki takmarkað að miklum mun, þannig, að það sje að eins bundið við lítinn hluta af öllu vörumagninu, orðið til mikils tjóns og óþæginda. Það hljóta allir að sjá, hve afar-ísjárvert það er, að hefta eðlileg verslunarviðskifti um skör fram, eins og nú er ástatt.

Auðvitað getur það komið fyrir, að fátæklingar geti ekki borgað undir eins, og kemur þá til sveitastjórnanna að ráða fram úr því, og leggja fram fje í bráðina; en ef til þess kæmi, þá má ekki skoða slík lán sem sveitaratyrk, heldur sem bráðabirgðalán, sem endurgoldin yrðu svo fljótt, sem auðið yrði.

Jeg þykist þá hafa bent á færa leið, sem báðir aðiljar ættu að taka til íhugunar. Jeg skal taka það fram, að það gæti orðið mjög svo hættulegt, ef hefta þyrfti útflutning í verulega stórum stíl; af því gæti stafað tjón, sem næmi hundruðum þúsunda eða jafnvel miljónum króna. Þess vegna er þessi leið, sem jeg hefi bent á, einföld og í alla staði heppileg.

Áður en jeg lýk máli mínu; skal jeg taka það fram, að í raun og veru held jeg, að ástandið í landinu sje að minsta kosti ekki lakara en fyrir einu ári.

Í fyrsta lagi hygg jeg, að lánsheimild sú, sem veitt var á síðasta þingi til vörukaupa, sje að nokkru leyti ónotuð. Í öðru lagi gjöri jeg ráð fyrir því, að Eimskipafjelag Íslands gjöri sitt til þess, að skipaferðir verði þannig lagaðar, að til ljettis megi verða, ef landstjórnin þarf að halda á skipum til flutninga á vörum, sem keyptar eru í þessu skyni.

Jeg skal taka það fram, að mjer hefir hálfvegis skilist svo á sumum, sem meiri hluti nefndarinuar vildi með tillögum sínum íþyngja landbændum og atvinnurekendum. Þetta hygg jeg ekki rjettlátt, og vildi feginn leggja eitthvað það til, sem girti fyrir þann misskilning. Hingað til hafa það verið kaupstaðirnir og kauptúnin, sem drýgstan hluta hafa lagt fram af landstekjunum, og vona jeg, að það hlutfall haldist framvegis, svo sem verið hefir hingað til, enda væri óviðfeldið, ef landbændur gætu með rökum sagt, að á þá væru skattarnir lagðir, þegar í harðbakkann slægi. Jeg vona þá, að þessi misskilningur hverfi.

Jeg kom ekki fram með brtt. í þetta sinn, af því að jeg bjóst við, að nefndarhlutarnir mundu leita að ná samkomulagi. (Sveinn Björnsson: Það hefir verið reynt). Jeg veit ekki, hvort þeir hafa tekið þessa leið til íhugunar.

Um brtt. þær, sem fram hafa komið, skal jeg að eins geta þess stuttlega, að með brtt. á þgskj. 101, get jeg ekki greitt atkvæði, vegna þess, að hún beinlínis takmarkar 1. málsgr. 3. gr., þótt hún sje stíluð við 2. málsgr., en úr 1. málsgr. má síst draga.

Þá eru brtt. frá minna hlutanum á þgskj. 113.

1. brtt. get jeg ekki verið samþykkur, af því að hún gjörir ráð fyrir, að útflutningur verði ekki að neina leyti takmarkaður.

2. brtt. get jeg ekki heldur fylgt, vegna þess, að þótt slíkt geti átt við á sumum stöðum, á það aftur á móti ekki við á öðrum stöðum. Og býst jeg við, að háttv. þingmenn skilji, við hvað hjer er átt.

3. brtt. get jeg heldur ekki fallist á, af því að meinlaust er að veita heimildina. Ef ekki er til fje, nær það ekki lengra.

Fleira hefi jeg ekki að segja að þessu sinni. Vona jeg, að háttv. þingmenn skilji, að þótt jeg beri fult traust til stjórnarinnar og Velferðanefndarinnar, þá álít jeg rjett að fara varlega, og að eignarnámaheimild 4. málsgr. 3. gr. sje næg til að ná tilgangi frumv., ef rannsóknir fara fram í tíma, og vona jeg, að þá rætist betur úr en á horfðist.