03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Matthías Ólafsson:

Það er í rauninni búið að tala nóg um þetta, en jeg get þó ekki stilt mig um að segja nokkur orð. Mjer skilst, að þeir, sem talað hafa á móti tillögum meiri hl., hafi verið að berjast við sinn eiginn skugga, nefnilega þar sem þeir hafa talað um, að meiri hl. ætlaðist til að leggja ákveðið verð á þá vöru, sem eftir yrði í landinu. Þeir hafa þar verið að berjast við óvætti, sem ekki er til, því að frumv. gefur ekki tilefni til þess. Þeir eru flestir á þeirri skoðun, að rjett sje að gjöra ráðstafanir til, að nægar matbirgðir verði til í landinu, en þeir vilja ekki að það sje íslensk vara, heldur útlend, svo að jafnvel sjómennirnir eiga ekki að fá að neyta þeirrar kraftfæðu, sem þeir sjálfir afla.

Það hefir ekki verið minst á eina vörutegund, sem sje haustullina. Það gæti farið svo, ef ekki væri til heimild fyrir stjórnina til að hefta útflutning á haustull, að ekki fengist einu sinni næg ull í vetlinga handa sjómönnunum. Það væri fróðlegt að sjá, hvernig sjósóknin gengi, ef sjómenn gætu ekki fengið vetlinga.

Annað hafa menn athugað, hvort ódýrara væri hveiti frá Vesturheimi, með því verði, sem þar er á því, eða íslenskar matartegundir. Mjer er það mikið efamál, hvort hveiti sje betra til manneldis en nautakjöt. Jeg hygg, að menn vilji alment engu síður en jeg, að við tryggjum okkur fyrst og fremst að nægar matarbirgðir sjeu til í landinu, og þar næst, að framleiðendurnir verði fyrir sem allra minstum skaða. Jeg hefi alt af hugsað mjer, að þeir fengju sæmilegt verð fyrir sína vöru. Það er hægt að sanna, að íslensk matvara hefir verið seld hjer dýrara verði en fengist hefir fyrir hana í útlöndum. Þannig hefir t. d. smjör oft og tíðum verið selt hærra verði hjer, heldur en bændur hafa á sama tíma fengið fyrir það í Englandi.

Jeg verð að halda því fram, að þótt það sje sjálfsagt, að byrgja landið sem best með útlendri kornvöru, þá sje hitt enga síður nauðsynlegt, að halda eftir landinu nokkru af þeirri matvöru, sem landið sjálft framleiðir. Jeg get ekki sjeð, að neitt af því, sem sagt hefir ver- ið á móti þessu, hafi verið á verulegum rökum bygt. Það getur enginn haft neitt á móti því, að landsstjórnin gjörir ráðstafanir til að tryggja það, að nógur matur sje til í landinu, en að ætla sjer þá fyrst, þegar íslenski maturinn er farinn burtu, að tryggja sjer útlenda vöru eftir á, það er sama sem að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. Setjum svo, að við værum í dag búnir að kaupa þrjá skipsfarma af matvælum í Ameríku, en ekki væri hægt að fá skip, fyrr en í lok þessa mánaðar. Verðið á vörunni væri ránverð og leigan á skipunum líka. Þó við værum nú búnir að kaupa þessa vöru, þá er enga sönnun hægt að fá fyrir því, að hún kæmi hingað nokkurn tíma. Skip geta farist á skemri leið, og það þó ekki sje á ófriðartímum. Við verðum að hafa sterkar gætur á, að ekki verði flutt of mikið út úr landinu af matvöru, sem við framleiðum sjálfir.

Það hefir verið spurt, hver borgaði fyrir þá, er ekkert hefðu að láta fyrir hana? Það er auðvitað landið, þegar einstakir menn geta ekki sjeð um sig.