03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Eggert Pálsson:

Það eru nú orðnar þegar æðilangar umræður um þetta mál, en jeg verð þó að segja nokkur orð, út af því, er hæstv. ráðherra hjelt, að 2. og 3. grein frumvarpsins væri óþörf. Mjer getur ekki annað virtst en að tillagan sje á rökum bygð, enda er ekki annað líklegra. Hann hefir oft lagt skynsamlega til um margt, sem hans er von og vísa, enda má ætla að hann sem lögfræðingur hefði opnara auga en við hinir fyrir hinni formlegu og lagalegu hlið, bæði þessa máls og annara. En í þessu máli hygg jeg þó, að honum muni skjöplast.

Hæstv. ráðherra lýtur svo á, að óumflýjanlegt samband sje á milli útflutningsbannstillögunnar og eignarnámstillögunnar. Mjer er algjörlega ómögulegt að sjá nokkurt samband þar á milli. Jeg get ekki betur sjeð en að eignarnámsheimildin geti staðið út af fyrir sig, án þess að nokkurt útflutningsbann sje á undan gengið. Ef háttv. deild samþykkir tillöguna um eignarnámsheimildina, en fellir tillöguna um útflutningsbannsheimildina, er öllu sambandi slitið þar á milli, og stjórninni heimilt að beita að eins eignarnáminu einu út af fyrir sig.

Ef litið er á málið frá hálfu framleiðenda, þá bíða þeir vitanlega engan skaða við það, að landsmenn sjálfir neyti vöru þeirra, ef þeir fá með því móti sama endurgjald fyrir hana og þeir geta fengið með því, að flytja vöruna út. Hitt er annað mál, að ef útflutningsbannið er látið haldast nokkurn tíma, þá hlýtur það að verka svo á verð vörunnar, að það lækkar. Þegar útflutningsbannið er komið á, er um tvent að gjöra. Annað hvort hrúgast varan á verslunarstaðina, og af því leiðir, að verðið lækkar, eða varan flytst ekki á verslunarstaðina, er haldið kyrri heima fyrir, og getur það haft illar afleiðingar. Tökum t. d. kjötframleiðsluna. Ef svo færi, að menn þyrðu ekki að reka fje sitt í kaupstaðina til slátrunar, mundu menn freistast til að setja óvarlega á, en það gæti aftur leitt til fellis. Hvað fiskinn snertir, liggur það opið fyrir, að kaupmenn mundu ekki þora að bjóða framleiðendum neitt í fiskinn, ef þeir ættu útflutningsbann í vændum.

Jeg vil ekki að gripið sje til þessara örþrifaráða, fyrr en öll önnur sund eru lokuð. Og sem betur fer erum við enn ekki svo illa farnir.

Mjer er sama þó að sagt sje, að nágrannaþjóðirnar hafi gjört þetta. Menn verða að líta á það, að þær hafa ekki gjört það ótilneyddar, eins og ætlast er til að við gjörum, heldur hafa þjóðirnar sem í ófriðnum eiga, að meiru eða minna leyti, neytt þær til þess. Ef litið er til Dana, þá hafa þeir lögleitt útflutningsbann mest fyrir það, að Englendingar hafa þröngvað þeim til þess. Til þess hefir ekki komið hjer hjá okkur, og vonandi kemur aldrei til þess. Hluturinn er sá, að engin hætta er á því, að við komum afurðum okkar beint til þeirra þjóða, sem í ófriðnum eiga, nema Englendinga einna. Þær verða að ganga í gegnum hlutlaust land eða England, Það gæti raunar hugsast, að Þjóðverjar vildu fegnir hefta útflutninga hjeðan til Englands, en hins vegar er mjög lítil hætta á, að þeim tækist það. Það skyldi þá helst vera með neðansjávarbátum. Með öðrum hætti er það ekki hugsanlegt.

Jafnvel þó svo færi, að stjórnin beitti ekki þessum lagaákvæðum, mundu þau verða, eins og jeg hefi sýnt fram á, skaðleg öllu viðskiftalífi landsins, ef þau standa í lögunum, af því að menn findu sig aldrei örugga um, að þeim yrði ekki þá og þegar beitt. Jeg vildi því helst, að ekkert væri átt við að innleiða þau. En hina vegar tel jeg mikla bót að þeim takmörkunum, sem minni hluti nefndarinnar hefir lagt til, að settar verði fyrir framkvæmd laganna. Sje stjórninni heimilað, að banna útflutninginn takmarkanalaust, þá getur enginn vitað fyrir, hvernig hún eða Velferðarnefndin kunna að haga sjer í þessu efni.