03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Sigurður Sigurðsson:

Spurningu minni um það, með hvaða verði ætti að greiða framleiðendum þær vörur, sem lagt væri haft á, og seldar hjer, hefir framsögumaður meiri hlutans (S. B.) svarað frá sínu sjónarmiði. Svarið er það, að þær yrðu seldar þeim mun lægra verði hjer, er kostnaðinum við útflutning vörunnar næmi. Svo vildi hann gjöra ráð fyrir því, að markaðurinn hjer, t. d. í Reykjavík, mundi færa verðið enn meira niður. Hann hefir þar ef til vill haft vörumatanefndina bak við eyrað, sem skipuð er tómum Reykvíkingum. Með þessu svari lætur þá framsögum. meiri hlutans (S. B.) greinilega í ljós, að hann ætlist til, að varan verði seld lægra verði en hægt er að fá fyrir hana á erlenda markaðinum. Jeg þakka háttv. þm. (S B). fyrir þessa sjaldgæfu hreinskilni hans. Meiningin er auðsæ. Það á að taka sama sem fje úr vasa framleiðenda og stinga að Sveini Björnssyni og öðrum bæjarmönnum eða kaupstaðabúum þeim, sem hafa ráð á að kaupa. Þarna kom það í ljós, sem háttv. þm. (S. B.) hefir einlægt verið að fela undir umræðunni.

Mjer hefir skilist svo á háttv. framsögum. meiri hlutans (S. B.) og hæstv. ráðherra, að þeir leggi ekki mikið upp úr því, að kaupa útlendar vörur fyrir landsjóðs hönd. Það eiga að vera ýmsir annmarkar á því, að geyma vörurnar o. fl. Og það er búist við því, að þær vörur verði alldýrar, því að vitanlega gjöra menn ráð fyrir því, að þær hækki frá því, sem nú er. Því vil jeg benda á annað. Samkvæmt frumv. er stjórninni heimilað að taka alt að 1 miljón króna lán til að kaupa vörur fyrir í útlöndum. Hví má ekki eins nota þessa heimild til þess að kaupa innlendar vörur eða matvæli með markaðaverða? Hver munur er á því? Það sýnist liggja beint við, að þetta yrði gjört, ef nauðsyn krefði.

Hæstv. ráðherra hefi jeg fáu að svara. Spurningu minni um það, hvernig ætti að framkvæma bannið, svaraði hann á þá leið, að útflutningsbann mundi miðað við fjölda þeirra, sem ætti að tryggja með útflutningsbanninu. Jeg er hræddur um, að þar gæti orðið handahóf og að ekki verði gætt allrar rjettsýni, vegna ókunnugleika stjórnarinnar, eða vegna þess, að henni væru gefnar skakkar og hlutdrægar upplýsingar.

Það hefir verið sagt, að Danir og aðrar þjóðir hafi lagt bann á útflutning afurða sinna. En jeg hygg, að það hafi verið meira á pappírnum en í framkvæmdinni, að minsta kosti fram að þessu.

Það sannast á háttv. framsögumanni meiri hlutans (S. B.), að hann lætur sjer fyrst og fremst ant um kjósendur sína, enda hjelt hann við fyrra hluta þessarar umræðu, eina af þessum alkunnu lofræðum um Reykjavíkurbúa. — Hann taldi þá ekki vera á mösulbeinunum; þeir væru ekki þurfamenn, heldur þvert á móti. Þeir önnuðust þurfamenn annarra sveita, og ælu önn fyrir sjúklingum utan af landinu. En jeg vil minna hann á, að þetta hefir verið endurgoldið aftur, svo sem lög standa til, og meira getur hann ekki heimtað. Hitt er kunnugt, að því hefir verið beitt ósleitilega upp á síðkastið, að reka fólk úr bænum af ótta við það, að það kynni að verða þurfandi.

En það væri nær, og á það ætti hv. framsögum. meiri hlutans (S. B.) að líta, að útvega bæjarmönnum meiri atvinnu en nú á sjer stað. Þótt þetta komi ekki beint málinu við, þá er það augljóst, að minstur hluti verkfærra manna hjer í bænum getur fengið atvinnu innan bæjarins, en verður í þess stað að leita í burtu — austur, norður og vestur, — til þess að fá sjer eitthvað að gjöra. Fyrir því mætti segja, gagnstætt því, er 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði, að Reykjavík lifði mest á öðrum hjeruðum landsins.

Þar sem háttv. framsögum. meiri hl. (S. B.), sem er maður gamansamur og meinfyndinn, var að segja, að jeg ætti erfitt með að gjöra upp á millí verkamanna og bænda, þá er þar til að svara því, að illa situr á þeim, sem heima á í brothættu glerhúsi, eins og hann, að vera með slíkar hnútur til annarra. Hann er alt af að vega salt milli verkamanna annars vegar og embættismanna og hinna efnaðri manna hins vegar, og öll framkoma hans í þessu máli bendir á það, að efnamennirnir hafi orðið yfirsterkari og eignast hug hana og hjarta.