21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

29. mál, Akureyrarhöfn

Flutningsm. (Magnús Kristjánsson) :

Það ætti ekki að þurfa langa framsögu í þessu máli. Það hefir verið vandlega undirbúið af bæjarstjórninni á Akureyri, og er hún að sjálfsögðu málinu best kunnug. Ástæðurnar til þess, að þetta frumv. kemur fram, eru þær, að það hefir komið í ljós, að talsverðir erfiðleikar eru á að koma í framkvæmd ýmsum mannvirkjum til hafnarbóta á þessum stað, og lítur helst út fyrir, að þeir örðugleikar fari vaxandi. Þessir örðugleikar stafa af því, að mikill hluti strandlengjunnar, sem að höfninni liggur, er eign einstakra manna, eða rjettara sagt, útlendra auðmanna og fjelaga, sem eðlilega hugsa mest um eiginn hag. Það er alls ekki tilgangurinn, þó að þetta frumv. næði fram að ganga, að þröngva kosti þessara manna um skör fram. En aðaltilgangurinn er sá, að lög verði sett, er myndi nokkurs konar undirstöðu undir reglugjörð,. er væntanlega verður samin síðar við víkjandi ýmislegu, snertandi hafnarmál kaupstaðarins. Jeg býst við, að deildin álíti þetta eðlilega og heppilega ráðstöfun, og finn jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða um málið að sinni, en leyfi mjer að vænta góðra undirtekta háttv. deildar. Jeg sje ekki ástæðu til að setja málið í nefnd, en hygg, að það geti sem best gengið áfram sinn gang án þess. Þó hefi jeg orðið var við, að sumir háttv. deildarmenn telja það heppilegra, og í rauninni hefi jeg ekkert á móti því, þótt jeg hins vegar telji það óþarft.