15.07.1915
Neðri deild: 7. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Flutningsm. (Jón Jónsson) :

Eins og kunnugt er, samþykti þingið 1913 lög um stofnun Landhelgissjóðs Íslanda. Þetta eru mjög góð lög og vel hugsuð af þinginu, að stofna sjóð í þessu skyni. Nú hefi jeg, ásamt öðrum þingmanni, leyft mjer að bera fram frv. um breytingar á þessum lögum, þess efnis, að hækkað verði tillag landssjóðs til sjóðsins. Jeg vil benda á, að nú virðist sjerstök ástæða til að hækka tillagið, þar sem gjöra má ráð fyrir, að sektir fyrir landhelgisbrot verði litlar fyrst um sinn. Vegna ófriðarins er svo lítið um útlenda botnvörpunga hjer við land. Jeg veit ekki hvort sektirnar hafa verið nokkrar á þessu ári, en jeg hygg, að þær hafi verið mjög litlar. Árið 1914 voru tekjur sjóðsins, auk landssjóðstillagsins ca. 39 þús. kr. Er sjóðurinn nú raunar 49 þús. kr.

Jeg býst við, að allir sjeu sammála um það að æskilegt væri, ef við á sínum tíma, gætum sjálfir tekið að okkur strandvarnirnar. Það er ilt, að þurfa að vera upp á Dani komnir með þær líkum þar sem það er vel kleift fyrir okkur að annast þær sjálfir ef hyggilega er að farið og fje til þess safnað smátt og smátt. Það er búmannlegri aðferð, heldur en að taka lán til þess. Þetta hefir sjálfsagt verið meiningin með lögum 1913, en jeg býst við, að bið verði á, að þau nái tilgangi sínum, ef þau verða látin standa óbreytt eins og þau eru 5 þús. kr. á ári eru litlar tekjur fyrir sjóð sem jafn stór þarf að verða og þessi sjóður einkum ef sektirnar, sem í hann eiga að renna verða nú lengi litlar. Það má ef til vill segja, að með frumv. sje farið fram á nokkuð hátt tillag, einkum nú á þessum tíma, þegar talsverðir erfiðleikar eru á bjargræði manna. En jeg lít svo á, að þetta sje svo stórt mál og mikils varðandi fyrir landið, að í þetta megi ekki horfa. Jeg hefi þá trú, að landsmenn hugsi svo hátt, að þeir mundu jafn vel ekki kvarta, þó að beinn nýr skattur yrði lagður á þjóðina í þessu augnamiði. Ef til vill má vinna þetta upp á einhverjum lið fjárlaganna, þó að það sje raunar vafasamt, því að þarfirnar eru margar. En hvernig sem verður hagað, þurfum við aldrei að standa með kinnroða frammi fyrir kjósendunum vegna þessarar ráðstöfunar á landsfje. Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið, en vona að það fái góðar undirtektir.