04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magn. Pjetursson):

Jeg hafði aldrei búist við, að allir gætu orðið sammála um allar till. nefndarinnar, enda hafa nú komið fram ýmsar aðfinningar við þær. En hitt gerðum við ráð fyrir að geta rjettlætt skoðanir okkar, og mun jeg nú reyna að hrekja andmæli þau, sem fram hafa komið við brtt. nefndarinnar við þenna kafla. Mun jeg tala eftir röð greinanna en ekki mælenda.

Hv. þm. Seyðf. (K. F.) andmælti 1. brtt. nefndarinnar, um að athugasemdin aftan við 1. lið 4. gr. falli burtu. Gat hann þess sínu máli til stuðnings, að hreppur þessi hefði orðið illa úti, og landssímastjóri væri því meðmæltur, að þessar eftirstöðvar af símaláni hans, 1500 kr., fjellu niður. En landssímastjóri hefir líka viðurkent, að fleiri hjeruð eigi slíka eftirgjöf skilið, og þótti því nefndinni rjett að bíða, þangað til öll slík mál yrðu tekin til rækilegrar meðferðar. — Hv. þm. Skagf. (J. B.) mun svara þeim athugasemdum, sem gerðar hafa verið við 2. brtt. Hann hefir tekið að sjer að verja í því efni nefndina, þar sem hann sem búfræðingur hefir best vit á jarðabótum. Þá mótmælti hv. 2. kgk. (Stgr. J.) og hv. 6. kgk. (J. Þ.) 3. brtt., um 5000 kr. fjárveitingu til aukins lögreglueftirlits vegna bannlaganna. Jeg vil taka það fram, að yfirleitt var gott samkomulag meðal nefndarmanna, en þetta atriði var þó helsti ásteitingarsteinninn. En þó að jeg sje ekki sjálfur hlyntur þessari fjárveitingu, þá get jeg skýrt frá, hvað fyrir meiri hluta nefndarinnar vakti. Þetta á að eins að vera tilraun til þess, hvort ekki sje hægt að sporna betur við innflutningi áfengis, en nú er gjörlegt, og varna tollsvikum, en hitt var áreiðanlega ekki meining meiri hluta nefndarinnar, að þetta eigi að vera byrjun til stærri fjárveitinga. Þá bjóst meiri hl. n. einnig við því, að þetta gæti orðið gróði fyrir landssjóð, þar sem aukið tolleftirlit myndi að líkindum fremur varna tollsvikum og þannig auka tolltekjurnar. Jeg vona að jeg lýsi því rjett skoðun meiri hluta nefndarinnar, þó það sje ekki mín skoðun. Þá er brtt. á þgskj. 728, frá sjávarútvegsnefndinni. Um hana hefi jeg það eitt að segja, að nefndin er henni meðmælt. og mun greiða henni atkvæði. — Hv. 2. kgk. (Stgr. J.) talaði móti brtt. viðvíkjandi athugasemdinni við 2. lið 12. gr., um að 300 krónunum, sem nú er varið til að leita læknis fyrir Árneshrepp, yrði varið til launaviðbótar handa væntanlegum lækni. Honum fanst nefndin vilja þar leggja inn á. undarlega braut, og furðaði sig þar að auki á, að hún skyldi vilja byrja á svo fámennu hjeraði. Já, mig furðar enn meir á þessum orðum hv. þm., því hvar ætti fremur að byrja á slíku, en í fámennu hjeruðunum? Ætti kann ske fyrst að veita launauppbætur í mannmörgu hjeruðunum, sem miklar aukatekjur gefa? Nei, það skil jeg ekki að nokkur taki undir. Enda var það einmitt aðalástæða nefndarinnar, hvað hjeraðið er fáment. Hvar mundi þörfin meiri en í slíkum hjeruðum. Erfiðleikarnir við að ná til læknis eru svo miklir í þessu hjeraði, að enginn getur getið því nærri, nema sá, sem þekkir til. Jeg veit dæmi til þess, að 2 menn hafa uppgefist við að ná í lækni, en hinn þriðji komst alla leið. Hvernig halda menn nú að hefði farið, ef nauðsyn hefði verið á að læknirinn sjálfur færi þenna veg þá aftur, og slíkt getur svo oft komið fyrir, einmitt að ómögulegt sje að ná í læknirinn, þó sjúklingarnir hafi fullar hendur fjár. Jeg vona að allir sjái, að hjer getur ekki verið að ræða um neinn hagnað fyrir mig sjálfan. Jeg mundi þvert á móti hafa tekjumissi af því að læknir kæmi í hjerað þetta. En þegar mannslíf eru í veði, finst mjer að menn eigi ekki að horfa í smáskildinginn. Mannslífin eru sannarlega svo dýr vara, að það er ætið gróðafyrirtæki fyrir landið að verja nokkrum krónum til þess, þó ekki væri annað en bjarga svo sem einu mannslífi á ári. Það væri sannarlega hart, ef þingið neitaði um einar 300 kr. á ári, til þess að þetta hjerað geti sem fyrst fengið lækni, og jeg verð að segja það, að ef það er nánasarskapur hjá okkur nefndarm., eins og háttv. 2. kgk. komst að orði, að vilja ekki bæta 300 kr. á ári, við hálaunaðan embættismann, þá er það enn meiri nánasarskapur hjá honum, ef hann ekki vill veita 300 kr. á ári, til þess að vernda nokkur mannslíf, ef hann ekki vill gera sitt til að þeir fái sem fyrst lækni, sem annars oft og einatt verða hjálparlaust að deyja drotni sínum. Þetta er heldur ekkert annað en bráðabirgða-ráðstöfun. Launanefndin setst nú á rökstóla í vetur, og hygg jeg, að ekki geti farið hjá því, að hún veiti læknum í þeim hjeruðum; þar sem minstar eru aukatekjur, einhverja launaviðbót, ef þau hjeruð eiga nokkurn tíma að verða til, nema á pappírnum. Þá vil jeg minnast á brtt. þeirra hv. 6. kgk. (J. Þ.) og hv. 2. þm. K.-G. (K. D.). Þær eru svo skyldar, að jeg get talað um þær í einu lagi. Jeg vil taka það fram þegar í upphafi, að jeg, hlýt að tala hjer sem þingmaður og þá fyrst og fremst sem framsögumaður fjárlaganefndarinnar, en ekki sem kollega þeirra manna, sem hjer um ræðir. Jeg vil alls ekki neita því, að nauðsynlegt sje að hafa sjerfræðinga í ýmsum sjúkdómum hjer í Reykjavík, en hitt veit jeg líka, að til er önnur nauðsyn, sem áreiðanlega er meiri nauðsyn, og hún er sú; að sjá öllum hjeruðum landsins fyrir læknum. Nú vantar lækna í nokkur hjeruð, 1. sept. voru 7 læknishjeruð óveitt, en í 4 af þeim 7 voru settir læknar, en í 3 alls enginn læknir, og meðan ekki er ráðin bót á þessu læknaleysi út um land, þar sem nauðsynin er mest, þar sem mannslífin eru í voða vegna læknaleysis, (í Rvík er ekki slíku til að dreifa, þó sjerfræðinga vanti), þá finst nefndinni mjög varúðarvert, að styrkja unga lækna til þess að setjast hjer að í Reykjavík sem sjerfræðinga. Þessari skoðun, sem jeg nú ljet í ljósi, veit jeg, að landlæknir hefir einnig margsinnis haldið fram. Jeg vil tala svo alment um þetta, sem unt er, og brýna það fyrir nefndarinnar hönd fyrir hv. deild, að líta fyrst og fremst á þjóðarnauðsynina, fremur en hag einstakra manna eða bæjarfjelaga. Það vil jeg loks taka fram, að jeg álít báða þá menn, sem hjer er um að ræða, efnilega og duglega lækna. En hitt finst mjer mesta nauðsynin, að því verði afstýrt sem fyrst, að menn þurfi að deyja drotni sínum úti um sveitirnar, vegna þess að læknishjálp fæst ekki. Þá kemur brtt. hv. 2. þm. Gullbr.- og og Kjósarsýslu um að hækka styrkinn til sjúklinga með hörundsberkla. Nefndinni var ekki kunnugt um að nú væri nema um einn slíkan sjúkling að ræða, og við það væri þessi styrkur miðaður. En ef það er rjett, sem jeg nú hefi heyrt, að hjer sje um 2 sjúklinga að ræða, sem styrkja þurfi, þá eru slíkt alveg nýjar upplýsingar, og get jeg því ekki á þeim grundvelli mælt á móti þessari brtt., en nefndin mun að sjálfsögðu athuga þetta, og vildi jeg því skjóta því til hv. flm., hvort hann vildi ekki geyma till. til 3. umr. (Stgr. Jónsson: Jeg mæli með því að hún sje tekin aftur).

Hæstv. ráðherra mintist á till. okkar um að fella burt styrk til fábjánans, og fanst lítil ástæða vera til þess. Það, sem fyrir okkur vakti með því, var, að hættulegt væri að gefa þannig fordæmi vegna síðari tíma. Jeg skal ekki vjefengja það, að illa standi á fyrir þessum manni, en það eru lítil meðmæli; það stendur illa á fyrir fleirum. Ef maður þessi á svo örðugt uppdráttar, sem ráða mátti af orðum hæstv. ráðherra, þá mundi sýslufjelag hans ekki muna um að skjóta saman þessum 400 kr. handa honum. (Ráðherra: Það hjálpar kannske um það, sem á vantar). Og þá þessar krónur líka, en setur ekki landsjóð eða þingið í þann vanda að gera sjer mannamun.

Þá er brtt, við 13. gr., sem mest hefir hlotið andmælin, og mátti við því búast, því þar er um mest að ræða.

Fyrst talaði hv. 2. kgk. þm. um Eyjafjarðarárbrúna, og jeg get tekið undir flest af því, sem þm. sagði, er hann talaði um nauðsyn hennar, og eins kröfu þá, er hún ætti til að ganga á undan öðrum stórbrúm. Jeg get líka tekið undir það fyrir mitt leyti, að jeg felli mig vel við niðurröðun landsverkfræðingsins á þessum stórbrúarbyggingum, enda hlýtur hann að bera best skyn á það og hafa mest rannsakað það mál. En annað mál er það, hvort nú sje rjett að ráðast í þessa stórbrú (Eyjafjarðarárbrú) á næsta fjárhagstímabili. Hæstv. ráðherra tók það fram í ræðu sinni, og leit á málið frá sömu hlið og nefndin, og hafði þar um mörg þau sömu orð, eins og jeg hafði í minni fyrri ræðu, og er jeg honum þakklátur fyrir það. En svo jeg snúi mjer aftur að Eyjafjarðarárbrúnni, þá er gott að hv. 1. kgk. er svo bjartsýnn og vonar svo góðs um fjárhaginn á komandi árum.

Það kom í ljós hjá honum, að það var að eins fjárhagurinn, sem kom honum til þess að leggja til, að brú þessi yrði skilyrði bundin, en mjer finst að hann hefði átt að athuga að 75 þús. nægja alls ekki til brúar yfir Eyjafjarðará, eins og nú stendur; fyrir þá peninga kæmist hún ekki nema út á miðja ána. Hann hefði því eins vel átt að bæta við þeirri athugasemd, að brúin skyldi því að eins byggjast að hún færi ekki fram úr 75 þús. Þá gat verið meining í þessu. Járn, trje og allar byggingarvörur hafa stórum hækkað í verði, og einnig skipaleiga. Seglskipaleiga hefir stigið (úr kr. 20 pr. smál, í kr. 30) nú á síðasta mánuði, og eftir því, sem landsverkfræðingurinn skýrir frá, þá mundi sú hækkun, sem að eins leiðir af hækkuðu flutningsgjaldi, nema 2–3. þús. kr. við Jökulsárbrúna, en þær tvær stórbrýr, sem hjer um ræðir, legg jeg nokkuð að jöfnu. En þetta er þó minsti liðurinn. Skil jeg tæplega hvaða hygginn búmaður það væri, sem færi að byggja núna, þegar augljóst er, að hann getur bygt miklu ódýrar eftir örfá ár. Flestir mundu bíða heldur. Allt þetta á við báðar þessar stórbrýr, sem hjer eru til umræðu.

Kem jeg því næst að því, sem háttv. þm. Húnv., (G.Ó.) sagði viðvíkjandi Húnvetningabrautinni. Þar kom fram dálítill misskilningur hjá hv. þm., að mjer fannst, að honum fanst betra að fella niður tillagið síðara árið, heldur en að leyfa að fresta allri brautinni í bráð, ef örðugur yrði fjárhagur. Að nefndin hefir lagt svo til, er að eins af velvild, því við lítum svo á, að fjárveiting annað árið myndi ekki koma að neinu gagni, því ef brautin kemur ekki að og frá brúnni, þá er brúin mjög svo gagnslítil minsta kosti sem akbrautabrú. Brúin hefðum við einnig átt fremur að leggja til að feld yrði, sökum efniskostnaðar, en þá var gagnslítið að láta fjárveitinguna standa síðara árið. Jeg þóttist vera hlyntur Húnvetningum, og einmitt þess vegna fanst mjer þetta ráðið að leyfa að fresta brautinni — og brúnni —, ef á þyrfti að halda, heldur en vera að klípa af fjenu, því jeg vona að svo fari, að ekki þurfi á heimildinni að halda, svo Húnvetningar fái brú sína og braut á rjettum tíma. Þarna er þó möguleiki, en ef minkuð var fjárveitingin, þá var enginn möguleiki til til að fá unnið fyrir það fje, sem af var dregið, hversu mikið fje sem var í landsjóðnum.

Bæði hv. þm. Húnav. og hv. 2 kgk. þótti illa farið með Langadalsveginn, og kváðust ekki geta greitt atkvæði með nefndinni, nema trygging væri fyrir að hann kæmist yfir mestu ófærurnar, en það veit jeg með vissu, að hvort sem veittar verða 5 eða 7 þús. til hans, kemst hann ekki svo langt. Það sem fyrir nefndinni vakti, var að ef eitthvað væri haldið áfram að veita til vegar þessa, þá myndi það verða til þess, að Laugdælingar ömuðust síður við póstinum, þó hann stundum yrði að fara óleyfilega stigu. En mundu á hinn bóginn geta skilið að að eins erfiðir tímar og sparnaður ylli því, að ekki væri meira til vegarins veitt en á yfirstandandi fjárhagstímabili.

Þá þótti hv. 2 kgk. þm. illt að við skyldum færa niður Grímsnesbrautina, og sömuleiðis hæstv, ráðherra. Fanst þeim það sama og að setja allar vegagjörðir landsins aftur um fleiri ár. Lækkunin nemur 14 þús.kr. Verkfræðingur landsins gjörir ráð fyrir að braut þessi verði búin 1923, og við getum engan háska sjeð stafa af því, þó henni sje seinkað um 1 ár, þegar fje er af skornum skamti, en alls ekki að allar vegagerðir í landinu frestist fyrir Grímsnesbrautina. Viðvíkjandi orðum hæstv. ráðherra um þetta, þá get jeg skýrt frá því, að nefndin tók ekki þessa ákvörðun, sökum vanþekkingar á málinu, heldur einmitt af því að hún hafði svo mikinn kunnugleiks, að vita það, að engin stórvandræði gætu af því hlotist, þó nokkuð

væri minna unnið á braut þessari en gert er ráð fyrir, eða nærri því eins mikið og í núgild. fjárl. stendur.

Þá hafa nokkrir þm. ámælt nefndinni vegna Norðurárdalsvegarins. Jeg get tekið undir það, að hann er nauðsynlegur vegna þess, að hann er ein aðalæðin milli Suður- og Norðurlands og Vesturlands, en hjer er engin knýjandi nauðsyn sem stendur. Þessa leið má þó vel komast, eins og verið hefir. Við höfum ekki heldur lagt til að fella hann niður, til þess að koma neinu að í staðinn, en þá fyrst vorum við ámælis verðir, ef við hefðum gjört það vegna einhvers, sem ef til vill var alls ekki eins nauðsynlegt að koma að, eða einhverju fyrir okkar kjördæmi. En hjer rjeð sparnaður einn og ekkert annað.

Þá er brtt. hv. þm. Gullbr. og Kjósarsýslu (K. D.), sem fer fram á 18 þús. kr. til sýsluvegar, í stað 20 þús. kr., en nefndin hefir lagt til að til þeirra væru að eins veitt 15. þús. kr. Við höfum ekki krukkað þar í neina sjerstaka vegi, en okkur fanst ekki rjett að láta þá eina halda fullum fjárveitingum, frekar en þjóðvegina. Þessar 5 þús. muna engu þegar litið er á allar þær beiðnir til akfærra sýsluvega, sem fyrir liggja. Við höfum ekki lækkað við neinar sjerstakar sýslur, og finst smásmuglegt að draga að eins 2 þús. kr. af; annaðhvort varð það að vera 5 þús. eða ekkert. Sýsluvegunum er sannarlega ekki vandara um að bíða, heldur en flutningabrautum og þjóðvegum.

Hæstv. ráðherra sagði að síst væri ástæða til að fresta vegagjörðum þar, sem engar. brýr væru, er hefðu aukinn efniskostnað í för með sjer, og er það rjett, enda hafði jeg áður tekið það fram. Engar ástæður álit jeg til að óttast atvinnuleysi fyrir þessa sök, þó vegagjörðum sje frestað, enda munu bændur segja alt annað. Fólkið hangi ekki yfir þeim og biðji um vinnu, heldur miklu frekar þeir yfir fólkinu, svo þeir munu sannarlega geta veitt vegagjörðarmönnum nokkrum atvinnu.

Kem jeg þá að brtt. við 13. gr. C. Er þá fyrst brtt. hr. þm. Barð. (H. K.), að hann óskar eftir 12 þús. kr. í stað 9 þús. til Breiðafjarðarbáta. Jeg get skýrt frá því, að nefndin hefir athugað þetta, og kallað Nielsen framkv.stjóra á, tal við sig. Hann skýrði frá því, að það gæti orðið sparnaður að því að hækka tillag til Breiðafjarðarbáta, meður því, að þá gætu sparast ferðir strandferðabátanna til Búðardals og Gilsfjarðar. Þetta er rjett, ef landsjóður á að bera væntanlegan tekjuhalla, sem yrði á strandferðunum, en þá verður að taka það fram, að Breiðfirðingar mega ekki krefjast meira en þessara 2 ferða strandbátanna, og mun þá nefndin koma með brtt. um þetta. Það sem nefndinni kom á óvart, var að beðið var um styrk til Breiðsfjarðarbáta. Hún bjóst að eins við einum bát. og mun því koma með brtt. að í stað báta komi báts. (Hákon Kristófersson: Hvernig á þá að fara með norðurhlutann ?) Ef vandræði verða úr því, þá ætti samgöngumálanefndin að athuga það mál, en við erum auðvitað fúsir til að taka öllum rökum, sem fram koma. Nefndin leggur því til að brtt. hv. þm. Barðstrendinga sje samþykt.

Þá kem jeg að brtt. hv. 6. kgk. (J. Þ.) um vjelabátsferðir á Hvítá. Nefndin hjer hefir haldið sjer við gjörðir samgöngumálanefndarinnar, enda þótt Nd. hafi vikið frá þeim. Nefndinni finst ekki ástæða til að styrkja vjelbátsferðir þarna meira en 300 kr. á ári, ekki síst þegar þess er gætt, að hjer er um þau hjeruð að ræða, sem ágætar landleiðir hafa. Mjer er kunnugt um að kaupmenn sumsstaðar hafa þann sið að flytja vörur til kaupendanna, þeim að kostnaðarlitlu; býst jeg við að eingöngu sje um þess konar vöruflutninga að ræða. En landsjóður á þó sannarlega ekki að sjá sem mönnum fremur en öðrum fyrir því, að fá vörur sínar kostnaðarlaust heim í hlað. En jeg skil tæplega að mikið dýrara sje að flytja um Hvítá, heldur en á sjó. Fyrir norðan veit jeg til að 100 pd. eru flutt 3 vikur sjávar fyrir 25 aura, og sje jeg ekki að Borgfirðingar væru ekki sjálfir færir um að borga slík útflutningsgjald, eða þó meira væri. Hvað er það á við löngu lestaferðirnar, sem sumir verða að hafa, sem ekki geta varpað allri sinni áhyggju á landsjóðinn og sagt honum að flytja heim til sín? Er því engin ástæða til að styrkja bát þenna, ekki síst af því að flutningabraut liggur alveg meðfram ánni öðrum megin, og þegar brúin kemur á Hvítá, þá þarf bátsins alls ekki. Nefndin getur því ekki fallist á þessa brtt.

Nefndinni hefir verið álasað fyrir að hafa lækkað við vitaumsjónarmanninn, frá því sem stjórnin hafði ætlað honum. Okkur gekk þar ekkert sjerstakt til, annað en að beiðnir hafa komið svo margar til þingsins um launaviðbætur, að tæplega væri ástæða til að taka þessu sjerstaklega, en í þessu máli vildi nefndin halda fast við laun þau, sem þessi maður hefir haft, sem voru 3700 kr., en hins vegar hefir hún ekkert á móti því að færa þetta saman í eina upphæð, eins og er í núgildandi fjárlögum.

Jeg vil geta þess, að við eigum ekki sök á því, þó ekki sje rjett sundurliðað í frv., því að við höfum fengið það svona frá háttv. neðri deild.

Viðvíkjandi því, sem við höfum krukkað í skrifstofuhaldsféð, er það að segja, að það átti einungis að vera bending um að reyna að spara, því kostnaðurinn virtist vera fullmikill. Það var ekki tilgangurinn að láta manninn sitja í myrkri, eins og hæstv. ráðherra sagði, en við vildum að reynt væri að útvega ódýrara húsnæði. Okkur blöskraði sem sje, að húsnæði fyrir þessa skrifstofu skuli eiga að kosta 50 kr. á mánuði, og er harla ótrúlegt að ekki megi láta sér nægja nokkuð ódýrara húsnæði. Þá kem eg að brtt. á þgskj. 741 um þokulúður á Dalatanga, sem háttv. þm. Seyðf. (K. F.) hefir komið fram með. Jeg hefi litlu við það að bæta, sem hann sagði um málið. Nefndin álítur þetta nauðsynjamál, og leggur til að eins verði farið með það og fjárveitingu til nýrra vitabygginga — sama skilyrðið verði látið gilda. Það sem sérstaklega ræður því, að nefndin mælir með þessari fjárveitingu, er það, hversu mikið fje á að leggja frsm í hjeraðinu sjálfu. Sýnir það mikinn áhuga og eins hitt, að þörfin er brýn.

Jeg man ekki eftir að jeg hafi fleiru að svara eða taka fram, og læt því máli mínu lokið að sinni.