09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

70. mál, Hafnarfjarðarvegur

Framsögum. (Bjarni Jónsson) ; Það stendur alveg eins á með Hafnarfjarðarveginn og veginn í Dalasýslu, að málið er næsta einfalt, og virðist því vera sjálfsagður hlutur, að frv. þetta verði samþykt.

Jeg hefi látið prenta álit frá landsverkfræðingi, og þarf því ekki langa ræðu. Allir sjá, að hjer er um nauðsyn að ræða, og málið virðist ofur skiljanlegt.

Aðalástæðan fyrir því, að eigi er lagt til, að Hafnarfjarðarvegur sje gjörður að sjerstökum vegi, er sú, að rannsóknir vantaði um, hversu mikil umferð er eftir veginum og fleira þar að látandi. Því er heldur ekki hægt að segja, hvort tiltækilegt sje að gjöra sporbraut eftir veginum.

Tillögur landaverkfræðinga og fjárlaganefndar eru þær, að landssjóður taki að sjer viðhald vegarins sem hvers annars þjóðvegar. Kæmi þá trauðla fyrir, að vegurinn yrði lítt fær vegna torfæra, eins og verið hefir.

Jeg vona, að menn sjái, að nauðsyn ber til þessa, sem frumvarpið fer fram á, og sjálfsagt sje því að samþykkja.