26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

41. mál, löggiltir vigtarmenn

Flutningsm. (Magnús Kristjánsson):

Við flutningsmenn þessa frumv. lítum svo á, að hjer á landi sje nauðsyn á lögum um vigtarmenn, eins og víðar. Þörfin fer vaxandi, af því að verslunin er farin að breytast í það horf, að selja innlendu vörurnar hjer á staðnum, en senda þær ekki til útlanda á eigin ábyrgð, eins og áður hefir verið venja. Það er því nauðsynlegt, bæði fyrir kaupmenn og kaupfjelög, að geta fengið vottorð um þyngd og gæði vörunnar í einstökum tilfellum. Kaupendur krefjast og þessa. Óhætt er að fullyrða, að einstöku menn hafi orðið fyrir stórtjóni, af því að undirvigt kom fram, er til útlanda kom, enda þótt eigendur væru þess fullvissir, að varan væri rjett úti látin. Það er því, að okkar áliti, síður hætt við að þetta kæmi fyrir, ef frv. þetta næði fram að ganga.

Jeg tel það líklegt, að ekki verði ágreiningur um aðalatriðið, en athugamál, hvort ekki verði deildar meiningar um önnur atriði, t. d. hvernig vigtarmennirnir ættu að vera skipaðir og hverja þóknun þeir eigi að fá. En þar sem jeg hygg, að menn verði sammála um aðalatriðið, þá sje jeg ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vonast til, að þessu máli verði vel tekið í deildinni.