16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

104. mál, útflutningsgjald

Bjarni Jónsson:

Þau fara að verða torskilin, afskifti löggjafarvaldsins, ef þetta, sem hjer um ræðir, á að vera löggjafaratriði. Það ætti að vera nægilegt fyrir deildina, að skora á stjórnina að auka þessa gæslu, og að hún taki fje til þess upp á væntanlega fjárveitingu. Það er undarlegt, hvernig fjárlaganefndin lítur á þetta mál. Það er eins og það eigi að vera náðarbrauð, að menn fái að reka atvinnu sína í friði. En þessi náð var ekki gjöf, því að hún var seld. Það stendur hjer í ástæðunum fyrir frumvarpinu :

»Þegar útflutningsgjald var lagt á síld með lögum nr. 11, 31. júlí 1907, var í 2. gr. laganna ákveðið, að 10% af öllu síldarútflutningsgjaldi skyldi renna í Fiskveiðasjóð Íslands, og skal því fje varið til eflingar síldarútveg innlendra manna«.

»Með lögum nr. 18, 11. júlí 1911 er svo nánar tiltekið, að styrk þessum skyldi úthlutað til útgjörðar skipa þeirra, sem veiðina stunda«.

Nú þegar menn biðja um aukna löggæslu, þá ætlar þingið af náð sinni að láta þetta fje ganga til þess. Hjer er beinlínis verið að taka af mönnum eign þeirra með lögum. Jeg skal ekki segja, að þeir eigi lögsóknarkröfu á þingið, en þeir ættu að eiga það. Þetta ákvæði í lögunum hefir hlotið að vekja hjá þeim eftirvæntingu þess, að fjeð ætti að vera þeirra eign.

Annað eins og þetta er ekki sæmandi fyrir þingið. Það ætti að vera svo trúverðugt, að því mætti treysta til að skrifa upp á smávíxil, án þess að ganga frá undirskriftinni.

Það er sannarlega af vanefnum gjört, ef nú ætti að fara að samþykkja slík lög sem þessi, og jeg álít, að engin örlög sjeu frumv. þessu sæmri en að það verði steindrepið nú þegar.