16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

104. mál, útflutningsgjald

Bjarni Jónsson :

Það er að eins dálítil athugasemd í framhaldi af viðræðum háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) við mig.

Síldartollurinn var hækkaður til að ná sjer niðri á erlendum mönnum, sem síldarútgjörð stunda hjer, en það þótti hart, að leggja þann toll á innlenda menn, sem þá atvinnu stunda. Þess vegna var sá krókur fundinn, að borga þeim lítið eitt af því aftur. Með lögunum frá 1907 er svo ákveðið, að því fje skuli varið til eflingar síldarútvegi innlendra manna, en með lögunum 1911 var svo nánar ákveðið, að því skyldi úthlutað til útgjörðar skipa þeirra, sem veiðina stunda. Þeim hefir því verið veittur fullkominn eignarrjettur á þessu fje, og þess vegna er það ekki að verða við áskorun þeirra um aukna löggæslu, að taka þetta fje og verja því til hennar. Það geta þeir gjört sjálfir. Þeir biðja löggjafarvald og stjórn um styrk, en þetta er engin hjálp, því að með þessu væri það ranglæti látið skella á þeim nú, sem ekki þótti hæfa að láta skella á þeim áður. Jeg stend fast við að slíkt væri hneyksli.