23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

87. mál, lögtak og fjárnám

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson) :

Í nál. á þgskj. 438 eru í stuttu máli teknar fram ástæðurnar fyrir því, að meiri hlutinn vill láta þetta litla mál ná fram að ganga. Hið eina, sem ágreiningur varð um í nefndinni, er í rauninni formsatriði, sem sje það, hvort fara eigi með Fríkirkjuna sem hverja aðra einstakra manna stofnun, þannig, að ríkisvaldið skifti sjer sem minst af henni og finni því eigi ástæðu til að veita henni slíkan rjett sem lögtaksrjett, eða ekki. Jeg er fyrir mitt leyti á því, að þótt hún sje fjelag einstakra manna, þá skifti ríkið sjer nú þegar svo mikið af henni, að hún sje að hálfu leyti opinber stofnun. T. d. ákveður hið opinbera, hverjir vera skuli forstöðumenn hennar, og sömuleiðis lágmark gjaldanna til hennar. Þetta álít jeg að ætti að nægja til að heimila það, sem hjer er farið fram á, því að rjettur og skylda eiga að fylgjast að, og eins og hið opinbera leggur skyldur á Fríkirkjuna, eins og jeg nefndi áðan, eins á það líka að veita henni sjálfsögð rjettindi, sem svara til skyldnanna, svo sem það, er hjer ræðir um.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar.