20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

88. mál, sjúkrasamlög

Framsögum. (Sveinn Björnsson):

Eins og sjá má á nefndaráliti á þgskj. 389, hefir nefndin gjört tvær brtt. við frumv., þannig, að landssjóðstillagið verði að sinni eigi hækkað meira en upp í kr. 1,50 fyrir hvern samlagsmann í kaupstöðum og kauptúnum, sem læknir er búsettur í, í stað þess, sem farið var fram á í frumvarpinu, að það yrði hækkað úr einni krónu upp í tvær, en annarstaðar upp í kr. 2,25.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þessi atriði, en get vísað til þess, sem tekið er fram um þetta í nefndarálitinu og breytingartillögunni. Sama er að segja um hina breytinguna, að full sanngirni virðist mæla með því, að launahámark samlagsmanna sje hækkað. Ef það væri ekki gjört, myndu samlögin fara varhluta af fjölda þeirra manna, sem annara myndu ganga í þau, þ. e. handiðnarmenn og verslunarþjónar. En að laun flestra manna úr þessum flokki eru nú hærri en 1200 kr., stafar sumpart af því, að verðgildi peninga hefir lækkað svo mjög á síðari árum, síðan lögin voru samþykt. Nefndin hefir því hækkað launahámarkið úr 1200 kr. upp í 1800 krónur, en ekki sjeð sjer fært, að hækka það upp í 2000 kr., eins og frumvarpið gjörir ráð fyrir.

Það hefir komið fram viðaukatillaga frá mjer á þgskj. 457. Það stendur þannig á henni, að eftir að nefndin hafði lokið störfum sínum og nefndarálitið var prentað, upplýstist það, að sjúkrasamlag eitt, og það jafnvel það elsta hjer á landi, yrði útilokað frá að geta notið hlunninda sjúkrasamlaganna af sjerstökum ástæðum, ef frv. yrði samþ. eins og það lá fyrir; og það var af þeim ástæðum, að af 78 meðlimum fjelagsins voru 2 eða 3 menn, sem höfðu hærri laun en gjört er ráð fyrir í seinni brtt. á þgskj. 389. Fjelag það, sem hjer er um að ræða, er sjúkrasamlag prentara í Reykjavík, sem stofnað var 1897. Þess vegna kom jeg fram með viðaukatillöguna á þgskj. 457, sem fer fram á, að sjúkrasamlag þetta sje undanþegið ákvæði frv um ákveðið launahámark. Það virðist vera hart fyrir fjelag, sem starfað hefir nálega í 20 ár, og varð til þess að brjóta ísinn fyrir þessari hreyfingu, að menn, sem í því eru, færu varhluta af þeim hlunnindum, er sjúkrasamlögin veita; því að annað hvort yrði sjúkrasamlag þetta, að verða án allra hlunninda, sem það annars gæti átt von á, eða reka þessa 2 eða 3 menn úr samlaginu. En það virðist ekki vera sanngjarnt, þar sem þeir menn nú hafa goldið iðgjöld í nærfelt 20 ár.

Af þessum ástæðum vonast jeg til þess, að háttv. deild verði því ekki mótfallin, að breyta þessu í lögunum. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta.

Forseti leitaði leyfis til afbrigða frá þingsköpum um brtt. 457, er var of seint fram komin, og voru þau leyfð og samþykt.