31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Björn Hallsson:

Jeg benti á það, þegar þetta frv. kom frá Ed., að ónákvæmt væri tiltekið í því, að því er tekur til símans frá Egilsstöðum. Í lögunum frá 1913 var ætlast til, að síminn skyldi liggja frá Egilsstöðum um Unaós, þar sem Uni danski nam lönd, til Borgarfjarðar. En síðan hefir landsímastjórinn lagt til, að breyta þessu þannig, að síminn væri ekki lagður til Unaóss, sem er niður við sjó, og engin bygð þar nú, heldur niður í miðja sveit í Hjaltastaðaþinghá og þaðan til Borgarfjarðar um Sandaskörð. En eftir Ed.frumvarpinu virðist ætlast til, að síminn liggi um Loðmundarfjörð til Borgarfjarðar, en þá ekki niður Hjerað.

Þessu telur nefndin sjálfsagt að breyta, enda hefir aldrei verið ætlast til, að þessi sími lægi þannig.

Símalínan um Unaós til Borgarfjarðar átti að kosta eftir áætlun um 32 þús. kr. En með því að leggja símann ekki alla leið frá Egilsstöðum til Unaóss, heldur niður í miðja Hjaltastaðaþinghá, yfir Sandaskörð til Borgarfjarðar, sparast um 6–7 þús. kr., vegna þess, að með því móti verður línan styttri. Aftur á móti ætlast símastjóri til, að aukalína verði lögð frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar, svo að sá hreppur komist í símasamband, og áætlar, að sú lína kosti um 7 þús. kr. Þannig verður lítill aukinn kostnaður, sem þessari breytingu fylgir, í mesta lagi um 1000 kr., svo úr því er ekki mikið gjörandi. Hins vegar býst jeg líka við, að Seyðfirðingar yrðu fúsir til að leggja eitthvað fram af hreppsfje, til þess að fá símann til sín.

Eftir það, að nefndin hafði rætt þetta. við símastjórann, fjelst hún eindregið á þessa breytingu, og samdi nefndarálit og brtt. samkvæmt því. En svo þegar nefdarálitið kom úr prentun, er sama villan á ferðinni; þannig, að svo má skilja, að síminn eigi að liggja frá Loðmundarfirði til Borgarfjarðar, en Hjeraðssíminn ekki nefndur. Jeg sendi þá brtt. í prentsmiðjuna, og er hún hjer á þgskj. 635.

Nú hefir háttv. framsögum. (S. E.) skýrt tekið fram, að hjer sje um prentvillu að ræða, þannig, að orðið »til« hafi slæðst inn í milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar. Í því trausti; að þetta sje skoðað sem prentvilla, sem verði leiðrjett, um leið og frumv. er prentað upp, þannig, að orðið »til« falli burtu, en komma komi í staðinn, tek jeg mína brtt. aftur. Verður þá setningin svona: Borgarfj. (austur) um Sandaskörð — Loðmundarfjarðar; kemur þá fram, að síminn eigi að liggja niður Hjerað, og að síminn til Loðmundarfjarðar sje honum óviðkomandi.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vona að jeg sje búinn að skýra það nægilega fyrir háttv. deild.

Háttv. framsögum. (S. E.) benti á, að ágreiningur hefði orðið dálítill í nefndinni, um viðbætinn við 6. gr. símalaganna, um það, að ýta undir stjórnina með að reist yrði loftskeytastöð hjér í Reykjavík. En þar sem fengin var upplýsing um að ekki væri hægt, að reisa loftskeytastöð hjer í Reykjavík, er væri svo sterk, að hún gæti haft samband til Skotlands eða Noregs, eins og helst hefir verið gjört ráð fyrir og síma- nefndin í fyrra tók fram í nefndaráliti sínu, þá var jeg og háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) ekki harðir í því, að ýta undir stjórnina með að byggja þessar stöðvar. Við viðurkennum fúslega, að þörf gæti verið á loftskeytastöð, en töldum rjettast að reisa hana þá fyrst, er hægt væri

að hafa hana svo stóra, að hún næði til útlanda. En samt viljum við ekki ganga beint á móti þessari litlu stöð, af því að álitið er, að hún geti komið að talsverðu gagni fyrir sjávarútveginn, og ef til vili oft og tíðum bjargað mönnum úr sjávarháska, vegna þess, að ýms skip eru að fá sjer loftskeytaáhöld, og þar á meðal botnvörpungar.

Jeg vona einungis, að viðaukatillaga þessi verði frumvarpinu ekki að falli. Jeg hefi að vísu heyrt utan að mjer, að háttv. Ed. sje ekki hlynt þessari litlu stöð. En jeg vona að minsta kosti, að deildirnar gjöri þetta ekki að neinu. kappsmáli á milli sín, þannig, að þótt t. d. háttv. Ed. feldi þetta burtu, þá færi háttv. Nd. ekki að fella frumvarpið fyrir það, er það kæmi til hennar aftur. Svo skal jeg ekki lengja umræður meira.