04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Guðmundur Hannesson:

Jeg get ekki greitt atkvæði með brtt. háttv. þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 686. öllum þykir að sjálfsögðu þægilegt, að hafa síma til læknis, en víða verða menn að vera án þess, þar sem þörfin er þó ólíku meiri en í Dölunum. Jeg sje því enga ástæðu til þess, að láta þessa línu sitja í fyrirrúmi.

Hvað því viðvíkur, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að kostnaðurinn yrði ekki svo mikill við þessa símalagningu, af því að hægt væri að nota stálþráð í staðinn fyrir koparþráð, þá vil jeg taka það fram, að jeg veit ekki til, að stálsímar sjeu neitt ódýrari en koparsímar, er til lengdar lætur. Þeir munu að því skapi endingarminni, svo að sparnaðurinn verður enginn.

Aftur á móti getum við háttv. þm. Dal. (B. J.) orðið sammála um það, að ekki sje ástæða til þess, að reisa loftskeytastöð nú sem stendur hjer á landi. Eina stæðan til þess að reisa slíka stöð, væri sá, að botnvörpungarnir hefðu gagn af henni, en á það hafa ekki enn verið færðar sönnur. Aftur á móti get jeg ekki sjeð, að nokkurt gagn yrði að slíkri stöð fyrir skip Eimskipafjelagsins. Þau myndu varla nota stöðina til annars en að gjöra boð á undan sjer, að þau væru á leiðinni hingað, en þetta vitum vjer nú án loftskeyta. Jeg vildi beina þeirri ósk til nefndarinnar í þessu máli, að hún leitaði sjer upplýsinga um það hjá útgjörðarmönnum botnvörpunganna, hvort þeir myndu láta þá nota loftskeytatæki, ef stöðin yrði reist, og hvort þeir teldu sjer það verulegan hag. Þessi stöð, sem hjer er farið fram á að reisa, myndi kosta um 2000 kr. á ári, auk stofnkostnaðarins, og þótt það sje ekki mikið fje, þá vil jeg þó ekki láta kasta því út, meðan enginn veit, hvort stöðin kemur nokkrum manni að verulegu gagni. Auk þess eru nú slæmir tímar, til þess að ráðast í slík byggingarfyrirtæki sem þetta. Landssímastjórinn skýrir frá því, að verðhækkun á símatækjum muni nú nema 10%. En jeg hygg, að það sje of lágt reiknað; að minsta kosti hefir Jón Þorláksson landsverkfræðingur skýrt mjer frá því, að efni til brúarbygginga hafi hækkað um að minsta kosti 15%, og jeg hygg, að verðhækkun á símatækjum muni ekki nema öllu minna.