04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Frames. (Sigurður Eggerz):

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að ástæða sín, til þess að leggja á móti málinu, væri sú, að hann væri hræddur um, að þetta frv. yrði til þess að tefja fyrir því, að við fengjum svo öfluga stöð, að hún drægi til útlanda. Jeg er honum sammála um það, að heppilegt sje sem fyrst að fá svona öfluga stöð, en eina og jeg tók fram áðan, þá eru ekki tök á því nú, vegna ófriðarins. Hina vegar hefi jeg orð landsímastjórans fyrir því, að þessi minni stöð getur ekki orðið stærri stöðinni Þrándur í Götu, því að hana má reisa svo, að hægt verði að nota hana, þegar stærri stöðin verður reist.

Turninn má stækka og mótorinn má nota við minni stöðvar.

Að því er snertir Færeyjastöðina, þá þarf háttv. þm. ekki að bera kvíðboga fyrir því, að hún verði reist, því að jeg skýrði frá því hjer í háttv. deild, er háttv. 1. þm. Rvk. (S. B ) bar fram fyrirspurn sína um loftskeytastöð í Reykjavík, að jeg hefði átt tal við »trafik«-ráðherra Dana um Færeyjastöðina, sem einu sinni var ráðgjört að komið væri upp í sameiningu við oss, en ummæli hans um stöðina voru á þá leið, að ekki gæti borgað sig fyrir Dani að hafa stóra stöð, er til Íslands dragi, til þess að annast sambandið milli tveggja eyja á Færeyjum, þar sem kabel verður ekki komið við, af þeirri ástæðu, að reksturskostnaður við stóru stöðina yrði hlutfallslega svo mikill, er hún væri notuð til að annast Færeyjasambandið. Jeg ljet þess þá og getið við ráðherrann, að jeg gjörði enga kröfu til samvinnu um stöðina frá Íslands hálfu, enda hefir mjer skilist, að lítið hljóð væri fyrir því að taka stöð, er til Færeyja drægi.

Jeg vona því, að háttv. þm. taki brtt. sína aftur, er hann hefir fengið þessar upplýsingar.

Jeg hygg ástæðulaust, að svara háttv. þm. V.-Íaf. (M. Ó.) mörgum orðum, þar sem mjer heyrðist það á niðurlagi ræðu hans, að hann mundi ljá þessu máli atkvæði sitt. Mjer skilst líka að allir, og ekki síst hann; hljóti að sjá af því, sem jeg tók fram í síðustu ræðu minni, að sjávarútveginum getur orðið margvíslegt gagn að þráðlausri stöð, og vænti jeg, að rök þau, sem færð hafa verið máli þessu til stuðnings, nægi til að tryggja því velvilja háttv. deildar og greiðan gang gegn um þingið.