04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Björnson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að lengja mikið umræður hjer í dag, en sökum þess, að svo margir hafa skotið málum sínum til mín, og óskað minnar umsagnar, vildi jeg veita þeim úrlausn. En áður en jeg sný mjer að þessum einstöku atriðum, sem jeg aðallega ætlaði að minnast á, vildi jeg lýsa yfir þeirri skoðun minni, sem jeg annars hefi fyrr látið í ljósi, að fjárhag landsins mundi betur borgið, ef fjárlaganefndirnar fengju meiru að ráða. Þegar allir flokkar kjósa sína bestu menn í nefndirnar, og þeir vinna stöðugt, frá byrjun þings til þingloka, þá má geta því nærri, hvort flest sje ekki betur og vandlegar hugsað hjá þeim en öðrum, og er illa farið, að svo mikið af þeirri vinnu skuli fara til ónýtis. Það er enn fremur sannfæring mín, að ef aukið væri vald fjárlaganefndanna, þá mundi ábyrgðartilfinning þeirra og sanngirni aukast að mun. Eins og jeg hefi tekið fram, hefi jeg áður látið þessa skoðun mína í ljós, og reynt að lifa eftir henni. Jeg hefi enga brtt. átt við fjárlögin, hvorki á síðasta þingi nje þessu, og mun jeg sýna það við atkvæðagreiðsluna í kvöld, að jeg met mikils vinnu nefndarinnar.

Því hefir verið skotið til mín, að segja álit mitt á brtt. á þgskj. 707 og 751, um styrk til læknanna M. Magnúss og Ólafs Gunnarssonar. Jeg er þar alveg sammála háttv. framsögumanni. Jeg hygg að enginn maður hafi eins mikið fundið til þess og jeg, hvílík vandræði það eru, að fá ekki lækna í öll hjeruð landsins. Það er því alveg rjett hjá háttv. framsögumanni, að varhugavert er af Alþingi, að styrkja unga lækna til að setjast að sem sjerfræðinga, meðan enn er læknislaust í sumum hjeruðum landsins. Jeg er sannfærður um, að meiri þörf er á lækni í Reykjarfjarðarhjerað, en húðsjúkdómalækni eða beina í Reykjavík. Þarfirnar eru margar, en ekki hægt að fullnægja þeim öllum, og er þá nauðugur sá einn kostur að fullnægja þeim, er brýnastar eru. Jeg vildi gjarna, að þessir ungu og efnilegu menn gætu setst að í Reykjavík, en jeg vil þó ekki stuðla að því, meðan mörg hjeruð eru læknislaus í landinu.

Nefndin leggur til að feldur verði burtu styrkurinn til þess að kosta einn fábjána á hæli erlendis. Fábjánar eru margir hjer á landi, og eru það mestu þjóðarvandræði, að ekki er til neitt hæli fyrir þá aumingja. Þeir eru ekki hafandi með geðveiku fólki,. og eru þess vegna ekki teknir á Klepp. Eg jeg skil vel, hvað vakir fyrir háttv. fjárlaganefnd í þessu máli. Hún lítur svo á, að annaðhvort verði að veita fje til þess að kosta alla fábjána á hæli erlendis, þá sem verstir eru, eða að öðrum kosti láta sveitarfjelögin sjá fyrir þeim öllum, þangað til unt verði að reisa hæli fyrir þá. Annaðhvort á að taka skrefið fult og veita. miklu hærri fjárupphæð, eða strika þetta út. Nú býst jeg við, að örðugt muni vera að fá mikið tje í þessu skyni, og þess vegna er sjálfsagt að samþykkja brtt. nefndarinnar.

Jeg er þakklátur hv. 2. þm. G.-K. fyrir að fara fram á hækkun á styrknum til: sjúklinga með hörundsberkla. Meðan ekki er hægt að koma hjer upp ljóslækningastofu, verðum vjer að senda slíka sjúklinga utan, því hjer er um læknun en ekki hjúkrun að ræða. En þótt jeg sje háttv. flm. til. sammála, þá vil jeg samt mælast til að hann taki tillöguna aftur til 3. umræðu. Jeg get þá, áður en hann kemur fram með hana, hjálpað honum um næg rök fyrir því, að þetta sje nauðsynjamál, og er líklegt að háttv. nefnd taki hana til greina. Jeg vona að honum skiljist, að jeg er með tillögunni og vil henni alt hið besta.

Jeg vil ekki lengja umræður mikið, en get þó ekki stilt mig um að minnast á 13. gr. — um samgöngubætur. Því betur sem jeg kynnist landinu, því betur sje jeg að vegabæturnar eru bestu bæturnar.

Hitt er jafnvíst, að fjárhagurinn nú sem stendur er alt öðruvísi en nokkru sinni áður; alt svo óvíst. Fjárlaganefndin hjer í háttvirtri Ed. og eins fjárlaganefndin í háttv. Nd. hafa því gjört rjett að hafa þennan vara — eða setja þennan varnagla, ef jeg má brúka svo óvirðulegt orð. Mjer finst það nær óvinnandi verk að semja nú áætlun fyrir tvö ár, illgjörandi að semja áætlun fyrir árið 1916 og ókleift í alla staði að semja hana fyrir árið 1917, svo að nokkuð sé á henni að byggja. Jeg hygg að margt bendi á það, að það sje knýjandi nauðsyn að halda aukaþing að ári, og því fremur rjett að hafa alla varfærni nú í fjármálum, og mun jeg fylgja fjármálanefndinni að málum. Og um brýr, sem eru eins nauðsynlegar og þarfar eins og vegir, finst mjer ekki vera tekið tillit til þess, að alt efni er nú margfalt dýrara en venja er til. Áætlanir þær, sem hjer er byggt á, duga því ekki. Þær eru gjörðar fyrir nokkrum árum, þegar alt byggingarefni var ódýrara en nú er, og eru því of lágar. Það þyrfti því að veita meira fje til þeirra, ef það ætti að byggja þær nú. Báðar þessar þessar stórbrýr, sem hjer liggja fyrir, eru þarfar, og jeg viðurkenni fúslega að það sje leitt, að bygging þeirra þurfi að bíða svona lengi. Ef jeg ætti að gera upp á milli þeirra, þá vil jeg segja það, og jeg hefi nú farið yfir öll stærstu vatnsföll, að jeg tel að af Eyjafjarðarárbrúnni sjeu meiri not og nauðsyn.

Skal jeg svo ekki tefja tímann lengur.