03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsm. minni hlutans (Jón Jónsson):

Jeg hygg, að þetta mál hafi verið flutt meira af kappi en forsjá, að minsta kosti fanst mjer það koma fram við umræðurnar í Ed. Þjóðin sjálf hefir ekki æskt eftir neinum breytingum á lögunum. Við, sem erum í minni hluta, álítum, að það, að herða á lögunum í hegningaráttina, geti miklu fremur orðið til þess, að vekja mótspyrnu á móti þeim, en hitt. Það er ekki rjett hjá háttv. framsm. (S. B.), að við andbanningar viljum hafa lögin sem ófullkomnust. Við hölum látið okkur hægt síðan lögin gengu í gildi, og er þess vegna ekki ástæða til þess, að drótta þessari ásökun að okkur.

Jeg skal þá með fáum orðum minnast á greinar frumvarpsins.

1. gr. er mikið til eins og 2. gr. bannlaganna, en þó er orðin breyting í þá átt, að nú er læknum heimilað að flytja áfengi það, er þeir telja nauðsynlegt til lækninga. Jeg skal játa það, að brtt. meiri hlutana við þessa grein eru mjög hógværar. Um 2. gr. er ekkert að segja. Þá kemur 3. gr. með það ákvæði, sem mest er um vert, að íslensk skip megi ekkert vín hafa meðferðis. Það má kann ske segja, að þetta sje í samræmi við bannlagastefnuna, en þó álít jeg þetta mjög athugavert, enda játar meiri hlutinn, að það muni geta fælt menn frá fólksflutningsskipunum, þar sem útlend skip öll, sem eru í förum hjer á milli landa, hafa áfengi meðferðis. Hvað snertir fiskiskipin, þá vill minni hlutinn ekki, að þeim sje bannað að hafa meðferðis áfengi. Það er bent á það í nefndaráliti minni hlutans, að það geti verið til góðs fyrir skipverja að hafa með sjer lítils háttar vínbirgðir, t. d. rauðvín og öl, og í rauninni hefði öllum landsmönnum átt að vera heimilt að fá sjer til neytslu rauðvín og öl, þótt í því væri meira en 2¼ c/o af vínanda, því að þeir drykkir eru þó ekki banvænir. Jeg tel ekki líklegt, að sjómenn búi jafnan við allsnægtir á fiskiskipum, og væri þeim neitað um að hafa vín meðferðis, þá gæti það vel komið fyrir, að tregt gengi að fá menn á skipin, svo að útgjörðarmenn neyddust til að láta skrásetja skip sín í Danmörku, og það væri þó sannarlega enginn þjóðarsómi að láta skrásetja skip okkar sem danska eign, sem auðveldlega gæti þó komið fyrir.

Það stendur hjer í 6. gr., að brot gegn 2. gr. laga þessara varði sömu sektum og brot gegn 1. gr. oftnefndra aðflutningsbannslaga. Það mun eiga að vera 3. gr. en ekki 2. gr. Er það ekki rjett skilið hjá mjer ? (Sveinn Björnsson: Jú, það er prentvilla). Þá er og hægt að beita sömu sektum við brot gegn 4. gr., ef ölvaður maður gjörir dómara ekki grein fyrir, hvar hann. hafi fengið það vín, sem hann varð ölvaður af. Við því má beita stígandi sektum frá 200 upp í 5000 kr. Sömu sektum má víst beita við brot gegn 3. gr., en það sjá allir, að slíkt er mjög hart aðgöngu fyrir skipstjóra, því að það getur vel verið, að hann eigi enga sök á því, þótt einhver skipverja leyni hjá sjer áfengi, og er vel hugsandi, að skipstjóri geti alls ekki við slíkt ráðið.

Þá er 4. gr. Háttv. frsm. meiri hl. (S. B.) fanst það ekkert óeðlilegt, að hneppa menn í hald og láta þá sæta sektum fyrir að láta, sjá sig ölvaða á almanna færi. En mjer finst það nú vera full hart, að taka manninn fastan fyrir að að láta sjá sig ölvaðan á almanna færi, þótt ekki sje hann líka látinn sæta sektum.

Það er fullnóg hegning fyrir ekki meira brot, að taka manninn fastan og áminna hann. Það er líka lítandi á, að hafa hóflega sekt við hinu brotinu, ef maður gjörir ekki grein fyrir, hvar hann hafi fengið vínið, sem gjörði hann ölvaðan. Það er gríðarleg sekt, sem eftir þessari grein er hægt að beita, auk 10–100 kr. fyrir að vera ölvaður, 200–5000 kr. fyrir að gjöra ekki grein fyrir, hvar vínið var fengið. Jeg lít svo á, að þessi sektarákvæði sjeu ómannúðleg og með öllu óhafandi. Það ætti heldur að reyna að fá menn einhvern veginn öðru vísi til að aðhyllast lögin, en með þessum óhæfilegu sektarákvæðum.

Þá kem jeg að 5. gr. Þar koma enn þessi háu sektarákvæði, sömu ákvæðin, sem gilda um brot gegn 1. gr. Það er hverjum manni auðsætt, að þetta eru alt of hörð sektarákvæði, þar sem brot gegn þessari grein geta auðveldlega verið framin af fáfræði eða vangá. Það getur vel verið, að menn gleymi ,eða viti eigi, að þeir eiga að segja til um vínbyrgðir sínar í tæka tíð.

Að því er snertir ákvæði 6. gr., þá er þar bætt inn, að það áfengi, sem íslensk skip flytja til landsins, og ekki á að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa, skuli gjört upptækt. Þetta er nýtt ákvæði, sem ekki er í eldri lögunum. (Sveinn Björnsson : Ekki er það svo mjög hörð refsing). Það er þó harðara en það, sem verið hefir, því að nú eru að eins til ákvæði um að innsigla slíkar byrgðir og sjá um, að vínið sje ekki veitt innan landhelginnar.

Þá er jeg nú búinn að minnast nokkuð á allar gr. frumv. Það kemur ljóst fram í því, að bannmenn vilja leitast við að vernda bannlögin, með því að herða á sektarákvæðunum. Það getur minni hlutinn ekki fallist á að sje rjetta leiðin. Jeg er sannfærður um, að það mun einmitt vekja mótspyrnu á móti lögunum. (Sveinn Björnsson: Það er vel farið). Þótt menn hafi ekki gjört mikil samtök um að brjóta lögin enn sem komið er, þá getur komið sá tími, að það verði hafin mótstaða á móti þeim. Vilja bannmenn stuðla að því með frekari ákvæðum í þessu efni? Jeg er hræddur um, að þeir sjeu nú að því. Þeir þykjast í nafni mannúðar og rjettlætis vilja útrýma áfenginu úr landinu, en það er ekki mannúðlegt að taka menn svona þrælatökum.

Þá vil jeg segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem stendur í niðurlagi nefndarálits meiri hlutans. (Sveinn Björnsson: Er það til umræðu?). Það kemur þessu máli við, og jeg vildi leyfa mjer að minnast lítillega á það. Það er tillagan um 5000 kr. styrk til aukins eftirlits með bannlögunum, sem var borin upp hjer í deildinni við 3. umr fjárlaganna. Minni hlutanum getur ekki skilist, að með þessari litlu fjárhæð geti orðið verulega bætt úr þeim brotum á bannlögunum, sem kunna að eiga sjer stað kring um alt land. Það gæti ef til vill komið að notum á einstaka stað, t. d. hjer í Reykjavík, en það nær ekki nokkurri átt, að hægt sje fyrir svo lítið fje að halda uppi eftirliti, sem að gagni geti komið kringum alt land. Ef við tækjum upp þá stefnu, að veita fje til eftirlita með bannlögunum, þá hlyti það að leiða til þess, að sú fjárveiting yrði alt af hækkuð, þangað til hægt væri að segja, að eftirlitið væri orðið nægilega trygt. En hve nær skyldi sá tími koma, að menn játi, að eftirlitið sje nægilega trygt? Jeg býst við að það yrði seint. Og jeg býst við að þessi gauragangur allur með að herða á bannlögunum, verði fremur til þess að vekja óhug á þeim og mótspyrnu heldur en hitt. Jeg leyfi mjer að benda bannmönnum á þessi atriði, því að þeir virðast hafa lokað augunum fyrir þeim.

Það hlýtur alt af að verða varasöm leið, að kúga menn til hlýðni við lögin með því, að beita mjög hörðum sektarákvæðum.