03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðmundur Hannesson:

Jeg vil leyfa mjer að mótmæla því skrafi, sem hefir brytt á hjer í deildinni um að afnema bannlögin. Mjer finst enginn hlutur vera meiri fjarstæða, því að það mundi gjöra þingið hlægilegt í augum annarra þjóða, og er þar að auki ábyrgðarhluti gagnvart hinni íslensku þjóð: Það er mikill munur á ástandinu í þessu efni fyrir þá unglinga, sem nú eru að alast upp, eða því, sem áður var. Vínið liggur ná ekki svo að segja á glámbekk, eins og verið hefir. Hins vegar þurfum við ekki að vera smeykir, þó að þeir, sem hafa vanið sig á vín, fái sjer í staupinu einstaka sinnum, því að þeir deyja og líða undir lok, og ef unga fólkið venst ekki á það, þá er öllu óhætt. Við þurfum ekki heldur að vera hræddir um, að bannlögin verði afnumin fyrst um sinn, því að kvenfólkið, sem hefir nú nýlega, fengið kosningarrjett, mun sjá um, að þau standi óhögguð.

Jeg vil ekki fara út í stæluna um bannlögin og læknana. Jeg sje ekki, að malaga, rauðvín og portvín í höndum læknanna geti orðið til að viðhalda drykkjuakap í landinu. En hitt finst mjer vera hálf hlægilegt, að setja það í lögin, að smáskamtalæknar megi sjálfir panta vínanda frá útlöndum, ef þeir fá til þess meðmæli hlutaðeigandi lögreglustjóra og sóknarprests. Jeg veit ekki betur en að lyfjabúðir hafi öll smáskamtameðul. En að öðru leyti er jeg viss um, að með þessu móti væri hægt að útvega vínanda frá útlöndum undir nafninu smáskamtameðul, sem svo, þegar til kæmi, yrðu drukkin sem brennivín. Þetta þýðir því ekki annað, en að hver sá maður, sem fæst eitthvað við smáskamta.lækningar, gæti pantað brennivín frá útlöndum.

Jeg get fúslega tekið undir það, að ströng sektarákvæði bjargi líklega ekki fyllilega frá þessum brotum. En ef svo er, að dómari geti ekkert við menn gjört, þótt þeir sjeu fullir, ef þeir neita að gjöra grein fyrir, hvar þeir hafi fengið vín, þá má það ekki svo til ganga, að ekki sje hægt að sekta þá. Sje þetta svo eftir núgildandi lögum, þá er þar að mínu áliti glompa, sem úr þyrfti að bæta, því að það er ekki nema sjálfsagt, að hægt sje að skylda menn undir svona kringumstæðum til að gjöra grein fyrir, hvar þeir hafi fengið vín.

Í nefndaráliti minni hlutana er talað um, að sjómönnum sje nauðsynlegt að hafa rauðvín sjer til hressingar og heilsubótar í sjóvolkinu og til að bæta sjer upp þá ljelegu fæðu, sem þeir hafi. Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir gott að fá mjer í staupinu á ferðalagi í vondu veðri. En það vita allir, að þeir, sem í mestar mannraunir rata, t. d. heimskautsfararnir, forðast eins og heitan eldinn ekki einungis vín, heldur og tóbak. Jeg er mjög efablandinn um að vín bæti úr matarhæfi. Matarhæfi á skipum á að vera svo, að það valdi ekki heilsutjóni. En þeir sjúkdómar, sem menn fá út af því, eru þess eðlis, að það er óhugsandi, að þeir verði bættir með víni.